15.05.1979
Sameinað þing: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4762 í B-deild Alþingistíðinda. (4005)

356. mál, framkvæmdir við dreifikerfi og búnað Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Þessi fsp. er svo hljóðandi:

„Hvaða framkvæmdir eru áformaðar á þessu ári:

a) Við langbylgjukerfi útvarps?

b) Við FM-kerfið?

c) Á öðrum póstum, t. d. varðandi landshlutaútvarp og tæknibúnað í aðalstöðvum útvarps í Reykjavík?

d) Við dreifikerfi sjónvarps?

e) Í litvæðingunni?“

Það er nú einu sinni svo, að dreifing sjónvarps og útvarps þykir léleg og ófullnægjandi, hún brennur mjög á notendum og það er þrásinnis spurt hvað gangi í þessum efnum. Þetta þekkja þm. og þetta þekkja þeir sem hafa starfað í viðkomandi rn. og stofnunum. Það er oftast spurt um þann endann sem snýr að hlustendum, ef svo mætti segja, og horfunum, minna spurt um þætti eins og t. d. endurnýjun í höfuðstöðvum og í langbylgjustöð útvarps o. s. frv. og um búnað í sjónvarpsstöð. Það er a. m. k. mín reynsla. Og sama er um útvarpshúsið. Það er miklu minna spurt um þessa þætti en um það sem næst er hlustendum eða horfendum. En mér sýnist þetta allt saman jafnforvitnilegt og þess vegna spyr ég á svona breiðum grundvelli og í þetta mörgum liðum.

Ég hef áður vikið að því, hve erfitt var um vik hjá Ríkisútvarpinu í nokkur ár og allt fram um 1976. Framkvæmdir í dreifikerfi lágu þá að miklu leyti niðri um tíma, ekki síst í dreifikerfi sjónvarps, eða voru a. m. k. alveg í lágmarki. En þá fór að sjá fram úr og framkvæmdir hófust á ný við dreifikerfi sjónvarpsins og raunar á fleiri sviðum. Þetta gerðist eiginlega á þeim grundvelli annars vegar, að það hafði tekist að rétta nokkuð við fjárhag stofnunarinnar almennt, og svo hins vegar, að það var ákveðið að fara í litvæðinguna og þá komu til miklar tolltekjur.

Á s. l. ári voru framkvæmdir í dreifingunni í hámarki, miðað við það sem hefur verið lengi a. m. k., og það á mörgum sviðum, bæði hvað snertir örbylgjuna og FM-stöðvarnar og sjónvarpsstöðvarnar, sem bæði voru styrktar — þær eldri — og endurnýjaðar og svo nýjar reistar. En þrátt fyrir fjörkippinn í fyrra, í krafti tollteknanna fyrst og fremst, er þetta auðvitað allt mjög í miðjum klíðum og veltur á miklu um framhaldið.

Ég skal víkja að spurningunum hverri um sig.

Ég vil fyrst minna á að innanlands er langbylgjuútvarp talið óhjákvæmilegt. Nú hafa menn vitað að möstur sendistöðvar á Vatnsenda eru að syngja sitt síðasta, en útvarpið er ekki aðeins fræðslu- og afþreyingarstofnun heldur og þýðingarmikið öryggistæki, eins og öllum er ljóst, og því mikið í húfi hvað þetta snertir.

Þá er spurt í c-lið um aðra pósta. Ég vil aðeins í því sambandi láta þess getið, að mér er ljóst að þrengslin á Skúlagötu torvelda mjög endurbætur tækjabúnaðar í aðalstöðvum Ríkisútvarpsins.

Eins og ég drap á áðan, er þráspurt um dreifingu sjónvarpsins og þess vegna ákaflega æskilegt fyrir alþm. að fá sem gleggsta vitneskju um hvað er að gerast á þeim pósti áður en þeir hverfa heim af þingi. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið, eftir því sem unnt er, teknar ákvarðanir um sumar- og haustvertíðina í dreifingunni og þá m. a. vegna þess hve langur afgreiðslufrestur er á ýmsu því sem þarf til stöðva og annarra hluta.

Loks er svo spurt um litvæðinguna. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að enda þótt stór hluti dagskrár sé kominn í lít eru margir þættir eftir á því sviði og sumir mjög þýðingarmiklir, ekki síst vegna þess að þeir styrkja stöðu innlends efnis í dagskránni í samkeppni við erlent dagskrárefni. Svo gefur það ástæðu til að flýta sér fremur en hitt við endurbætur á þessu sviði að menn hafa sýnt ákaflega mikinn vilja að venda yfir í litvæðingu með öllum þeim gífurlega miklu tækjakaupum sem átt hafa sér stað á síðustu missirum.

Það hefur nokkuð verið rætt um sjónvarpsdreifinguna áður í fsp.-tíma, en þó held ég að það væri æskilegt að rifja þetta aðeins upp í heild og því eru fsp. fram bornar.