15.05.1979
Sameinað þing: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4763 í B-deild Alþingistíðinda. (4006)

356. mál, framkvæmdir við dreifikerfi og búnað Ríkisútvarpsins

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hv. þm. hefur lagt hér fram fsp. í 5 liðum um framkvæmdir Ríkisútvarpsins og spyr í fyrsta lagi um langbylgjukerfi útvarpsins.

Endurskoðuð áætlun um heildarkostnað við uppbyggingu langbylgjustöðvar gerir ráð fyrir að þetta verk kosti hvorki meira né minna en tæpa 2 milljarða kr. eða nánar til tekið 1950 þús. millj. Undirbúningsframkvæmdir á þessu ári eru taldar munu nema 150 millj. kr. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir að byggður verði 500 kw. langbylgjusendir sem staðsettur verði í Flóanum. Við þennan sendi yrði 250–300 m hátt mastur. Ekki er gert ráð fyrir vararafstöð í fyrsta áfanga, en til greina kemur að flytja varastöð að Vatnsenda og fengist með henni það sem nægði til u. þ. b. 100 kw. útsendingar. Á Vatnsenda þyrfti þá að kaupa ca. 50 kw. vararafstöð vegna sjónvarps- og FM-senda. Gert er ráð fyrir um 10 km langri háspennulínu og stöðvarhúsi, sem er 250 fermetrar að stærð. Verk þetta verður vart unnið á skemmri tíma en tveimur árum. Yrði ákvörðun tekin í upphafi þessa árs var það áætlun tæknimanna að búast mætti við verklokum að tveimur árum liðnum og mikill meiri hluti kostnaðar mundi þá falla á árinu 1980 eða síðar, ef tækjabúnaður yrði keyptur með lánakjörum sem munu standa til boða hjá framleiðendum langbylgjusenda.

Þetta mál er enn á undirbúningsstigi og hefur verið ákveðið að verja 150 millj. kr. til undirbúnings málsins, en ákvarðanir að öðru leyti hafa ekki verið teknar.

Í öðru lagi spyr hv. þm. um FM-kerfi útvarpsins. Áætlað er að verja til FM-kerfis útvarpsins 118 millj. kr. á þessu ári. Þeir staðir, þar sem framkvæmdir verða, eru eftirtaldir — ég les staðina og upphæðir: Það er Stykkishólmur 13.5 millj., Vestmannaeyjar 13.5, Háfell 13.5, Hraunhóll 5, Neskaupstaður 5, Vatnsendi 2.5, Öxnadalur 5, Hörgárdalur 5, Bárðardalur 5, Vestfirðir, það eru 4 stöðvar, 20, Skaftártungur 5, Austfirðir, 4 stöðvar, 20, Öxarfjörður 5, eða samtals 118 millj. kr.

Þá spyr hv. þm. um framkvæmdir á öðrum póstum, t. d. varðandi landshlutaútvarp og tæknibúnað í aðalstöðvum útvarps í Reykjavík.

Fjárfesting vegna landshlutaútvarps hefur enn ekki verið til umræðu innan Ríkisútvarpsins. Endurnýjun tæknibúnaðar útvarps að Skúlagötu 4 hefur beðið ákvörðunar um byggingu útvarpshúss. Tækjabúnaður er nær allur orðinn um 20 ára gamall og talið er að endurnýjun hans í heild mundi kosta 1.1–1.2 milljarða kr.

Í fjórða lagi er spurt um framkvæmdir við dreifikerfi sjónvarps.

Til dreifikerfis sjónvarps er áætlað að verja 510 millj. kr. á þessu ári. Innifaldar í þessari upphæð eru 38 millj. til örbylgjukerfis Reykjavík — Vestmannaeyjar — Háfell. Ákveðið hefur verið að flýta kaupum á Gagnheiðarsendi og kemur hann að fullu til greiðslu á árinu. Kaupverð er áætlað 118–120 millj. kr. Því má segja að til dreifikerfis sjónvarps verði varið öllu hærri fjárhæð en ég nefndi fyrst, 510 millj., þar sem í þeirri áætlun var ekki gert ráð fyrir að Gagnheiðarstöðin kostaði á þessu ári nema 40 millj. Er því ljóst að heildarframkvæmdaupphæðin verður rétt um 600 millj. kr.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að í þessari áætlun um dreifikerfi sjónvarps er ekki einungis um að ræða kostnað vegna framkvæmda til að koma sjónvarpi á einstaka bæi sem ekki hafa sjónvarp. Hér er um að ræða framkvæmdir sem snerta heila landshluta að töluverðu leyti. Sú framkvæmdaáætlun, sem nú liggur fyrir, er eftirfarandi — ég les framkvæmdir og upphæðir í millj. kr.:

Það er Háfell 96 millj., Arnarnes 21, Gagnheiði 120, Vestmannaeyjar 75, örbylgjustöð Reykjavík-Háfell 23, örbylgjustöð Reykjavík — Vatnsendi 15. Síðan koma einstaka smærri stöðvar og tímans vegna les ég aðeins upp þá staði þar sem framkvæmdir verða, en ekki upphæðir nema þess sé sérstaklega óskað. Það er Borgarnes, Skaftártunga, Bárðardalur Vopnafjörður, Reyðarfjörður, Álftafjörður, Mosfellssveit, Fljótsdalur, Ísafjarðardjúp, Engihliðarhreppur, Jökuldalur, Eggjar, Skipalón. Síðan koma kaup á 10 mögnurum, smátíðnibreyturum, mælitækjum, en þessir hlutir munu dreifast á allmarga staði án þess að nánari grein sé gerð fyrir því í skýrslu Ríkisútvarpsins um það mál. Og svo er vegagerð á ca. 8 stöðvar, vinna við uppsetningu og annar kostnaður, en samanlagt gerir þetta rétt um 600 millj. kr. 5. liður fsp., sem hv. þm. hefur lagt hér fram, varðar litvæðingu. Þar er skemmst frá að segja, að vegna óvissu um fjárhagsgetu hafa engar verulegar pantanir enn verið gerðar á nýjum tækjabúnaði fyrir sjónvarp. Þó hefur verið talið æskilegt að keypt yrðu tvö myndsegulbandstæki, sem kosta nú um 84 millj. kr., og óskað hefur verið eftir 100 millj. kr. til fjárfestingar í sjónvarpsstöð á árinu, en um þessa þætti fjárfestingar Ríkisútvarpsins hafa enn ekki verið teknar endanlegar ákvarðanir.