15.05.1979
Sameinað þing: 94. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4765 í B-deild Alþingistíðinda. (4007)

356. mál, framkvæmdir við dreifikerfi og búnað Ríkisútvarpsins

Fyrirspyrjandi (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðh. þessi svör, sem þó í stuttu máli séu fram sett eru mjög yfirgripsmikil og snerta þau atriði öll sem um er spurt. Ég held það sé mikið atriði að fá fram þessar upplýsingar núna, áður en þm. fara heim, eins og ég sagði áðan, því að um þessi mál er ákaflega mikið spurt.

Það er áberandi, a. m. k. fyrir þá sem kunnugir eru, þegar maður hlýðir á yfirlit hæstv. ráðh., hvernig þessi mál skarast. Ég heyri að inn í þessa áætlun koma nokkur atriði sem ákveðin voru á síðasta ári og unnið var að þá, en ekki vannst tími til að ljúka. Þannig verða menn alltaf að gera sér ljóst, að eitthvað af því, sem ákveðið er núna, kann að dragast fram á næsta ár af ýmsum ástæðum. Það er mjög erfitt að tímasetja þessar framkvæmdir. Það vita þeir sem hafa eitthvað komið nálægt þeim. Þar getur margt gripið inn í: afgreiðslufrestir, verktafir út af veðrum o. s. frv. og jafnvel að það verða bilanir og þarf að setja menn til starfa við að bæta úr þeim.

Ég fagna því, að menn leggja nú mjög niður fyrir sér byggingu á langbylgjustöðinni. Þetta er stórmál sem kostar mikla peninga, en menn verða eigi að síður fyrr eða síðar að ráðast í. Mér skilst að það taki allt sinn undirbúningstíma og m. a. þess vegna verði varla um að ræða verulegar framkvæmdir þar á þessu ári. Þetta dreifist eitthvað, eins og hæstv. ráðh. benti á, m. a. vegna þess að það verða sjálfsagt einhver lán á þeim dýru tækjum sem til þarf að reisa þessa stöð.

Ég vil undirstrika það, að ég tel mjög þýðingarmikið að unnið verði í FM-kerfinu svo sem hér er um að ræða. Það eru ekki mjög dýrar framkvæmdir á þessu sviði, en slíkt kemur mörgum til góða og gildir sama um það eins og um þær sjónvarpsframkvæmdir, sem skýrt var frá að á döfinni væru, að þær snerta mjög marga, miklu fleiri en þá t. d. sem fá hinar svæðisbundnu stöðvar. Það, sem þegar er búið að gera í FM-kerfinu, t. d. á Gagnheiði, og viðar, nær til margra manna, en verður svo útfært enn betur með smærri stöðvum sem hæstv. ráðh. taldi upp.

Ég átti ekki von á því að svarið varðandi tæknibúnað í stöðinni hérna og landshlutaútvarp yrði öðruvísi en það var. Þannig er ástatt á Skúlagötu, að það er ákaflega bágt að þurfa að leggja peninga í að endurnýja þar í stórum stíl dýr og þýðingarmikil tæki sem hafa verið í notkun, en fyrir löngu eru komin yfir eðlilegan nýtingaraldur. Þess vegna halda menn nú niðri í sér andanum og reyna að fresta því sem unnt er að fresta þangað til hægt er að búa um sig í nýju húsnæði. Auðvitað verður alltaf eitthvað að gera á þessu sviði einnig. Ég geri ráð fyrir að þegar hæstv. ráðh. gefur þessar upplýsingar komi inn í þá mynd sú fjárhæð sem menn gera nú ráð fyrir að taka umfram það sem áður var áformað til þessara hluta, sbr. meðferð lánsfjáráætlunar á hv. Alþ. undanfarna daga.

Í svari ráðh. var minnst á eitt atriði, sem er tæknilegs eðlis og ég kann ekki að útskýra, en hefur áreiðanlega mikla þýðingu við lokaátak í dreifingu sjónvarps innanlands, en það eru hátíðnimagnarar svokallaðir, en með þeim tækjum er hægt að koma sjónvarpi til einstakra afskekktra staða á miklu ódýrari hátt en unnt var áður en menn áttuðu sig á þeim möguleika.

Ég hygg að það sé eðlilegt, jafnvel þó að ákvarðanir hefðu legið fyrr fyrir, að menn fari fremur hægt í litvæðinguna, en haldi henni þó gangandi og búi sig undir að stiga skrefið til fulls. Það er mikilvægt m. a. af þeim ástæðum sem ég vék að í upphafi, að auknar aðgerðir í litvæðingunni styrkja stöðu innlends dagskrárefnis gagnvart útlendu.

Svo vil ég að lokum árétta það, sem ég sagði fyrr í vetur í fsp.-tíma í Sþ. og hef staðfest með því að leggja fram frv. í þá stefnu, að ég álít að skynsamlegt sé að Ríkisútvarpið fái aftur sjónvarpstollana sem fastan markaðan tekjustofn. Ég álít að verkefni sem fram undan eru hjá Ríkisútvarpinu séu svo stórfelld, langbylgjustöðin kemur þarna til viðbótar ásamt með öðru, að slíkt væri skynsamlegt. Mér er hins vegar ljóst að frv, mitt um það efni nær varla fram að ganga á þessu þingi, en ég vænti þess að hæstv. ríkisstj. íhugi þetta mál vel á milli þinga.