08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

58. mál, söluskattur

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef ásamt þeim hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni og Hannesi Baldvinssyni leyft mér að flytja frv. til 1. um breyt. á 1. nr. 10 1960, um söluskatt, en sú breyting er fólgin í 1. gr. þar sem segir svo:

„1. töluliður 7. gr. laganna orðist svo:

Vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð, sem unnin er á byggingarstað, svo og“ — það er viðbótin — „í verksmiðju, á verkstæði eða starfsstöð. Sama gildir um vinnu við endurbætur og viðhald slíkra mannvirkja.“

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu. Með því fylgdi svo hljóðandi grg.:

„Sú byggingaraðferð, að íbúðarhús séu smíðuð í einingum á verkstæðum eða í verksmiðjum, ryður sér nú til rúms, og ef rétt er að staðið lækkar byggingarkostnaður verulega við þessa tilhögun, auk þess sem henni fylgir margvíslegt hagræði fyrir þann, sem byggt er fyrir.

Nú er söluskattsinnheimtu þannig háttað, að ekki er innheimtur söluskattur af vinnu við húsbyggingar, sé hún framkvæmd á byggingarstað, en hins vegar ef hún fer fram í verksmiðju við svokallaðar einingabyggingar.

Hér er um misræmi og misrétti í innheimtu að ræða og frv. þetta er flutt í þá veru að leiðrétta þetta misræmi, svo þessi um margt hagstæði byggingarmáti njóti sömu undanþágu og veitt er í dag við húsbyggingar séu þær framkvæmdar á byggingarstað.

Eðlilegt hlýtur að teljast að ríkið greiði fyrir byggingaraðferð, sem hefur þann kost helstan að lækka hinn mikla byggingarkostnað. Því er þetta frv. flutt.

Grg. skýrir málið í raun. Vitað er að það er viss andstaða allra stjórnvalda, hver sem þau eru við allar sérstakar frekari undanþágur frá söluskatti, og ég efast ekki um að það sé viss andstaða við þetta einnig í fjmrn., eins og verið hefur að undanförnu. En hér er að áliti okkar flm. ekki um slíkt að ræða, um einhverja sérstaka undanþágu sem sé alveg ný, aðeins að hið sama gildi þó hús séu að miklu eða verulegu leyti byggð utan byggingarstaðar og á byggingarstað, eins og sagði í grg.

Í raun og veru er það þannig í dag, að mönnum er refsað fyrir að viðhafa þann byggingarmáta sem er nú í örri sókn hér á landi og hefur, ef rétt er að staðið, í för með sér mikla lækkun byggingarkostnaðar og margs konar hagræði annað fyrir þá sem til frambúðar njóta.

Það hafa komið upp nokkrar mótbárur, sem ég hef heyrt m.a. frá ráðuneytismönnum, um misnotkun í þessu efni. Varðandi það atriði má greina nánar í reglugerð, jafnvel í lögunum sjálfum, um þau skil sem menn vilja setja ef ótti um misnotkun er ríkjandi. A.m.k. erum við flm. sannfærðir um það annars vegar, að misnotkunarhætta sé hverfandi, og hins vegar, að auðvelt sé að setja undir þann leka ef mönnum sýnist að frv. sé of óákveðið, eins og reyndar var bent á í hv. deild í fyrra, að hér þyrfti skýrari ákvæði, sem ég sá reyndar ekki ástæðu til.

Nýlega héldu þeir aðilar, sem fást við verksmiðjubyggingu húsa af einhverju tagi, með sér fund, en þeir munu nú hafa formleg samtök sín á milli. Svo að ég nefni dæmi, þá er hér um að ræða það stærsta í þessum efnum, að ég hygg, Húseiningar á Siglufirði, Trésmiðju Fljótsdalshéraðs austur á Hlöðum, Verk h/f í Kópavogi, Trésmiðju Sigfúsar Kristinssonar á Selfossi, Húsasmiðju Snorra Halldórssonar hér í Reykjavík, og eflaust mætti einhverja fleiri telja. Þessir aðilar vöktu athygli á því misrétti — gerðu um það sérstaka samþykkt þessu misrétti sem við erum að fara fram á að leiðrétt verði. Þeir bentu á það, að með þessu væri beinlínis verið af ríkisvaldsins hálfu að hindra framgang eðlilegrar framþróunar í byggingariðnaði hér. Þeir töldu, og ég held að það sé alveg rétt, að söluskatturinn væri í dag erfiðasti annmarki sem þessir aðilar yrðu við að búa, hindrun m.a. í því að þróa þetta byggingarform í hreina verksmiðjuframleiðslu húsa, sem auðvitað þá fyrst þegar um reglulega fjöldaframleiðslu yrði að ræða kæmi húsbyggjendum verulega til góða, lækkaði kostnað við húsbyggingar að marki, svo sem hefur verið raunin á í nágrannalöndum okkar, þar sem verksmiðjubyggingar húsa eru mjög miklar.

Saga verksmiðjubyggðra húsa hér á landi er ekki löng. Hún er að sumu leyti raunasaga, vegna þess að skilningur hefur oft verið af skornum skammti hjá þeim aðilum sem fyrst og fremst hefðu átt að sýna þessu skilning. Það er mála sannast, að ýmsir hafa annaðhvort brugðist sínum skyldum í þessu efni eða ekki staðið nægilega vel í ístaðinu.

Því hefur nokkrum sinnum verið haldið fram, m.a. af þeim aðilum sem að þessu hafa staðið, að Samband byggingameistara standi í vegi, þeir óttist samkeppnina við þessa aðila, þeir óttist að þessi byggingamáti verði meira ráðandi en þeim þykir gott. Um þetta vil ég vitanlega ekkert fullyrða. Þessar fullyrðingar hafa oft heyrst. Ég dæmi sem sagt ekkert um það. En ég vil benda á sérstaka skyldu húsnæðismálastjórnar ríkisins. Samkv. lögum um Húsnæðismálastofnunina hvílir á henni bein lagakvöð um stuðning við allar aðgerðir sem miða að lækkun byggingarkostnaðar. Hér er vissulega um aðferð að ræða sem hefur lækkun í för með sér, og því er ég sannfærður um að Húsnæðismálastofnunin hefði mátt standa betur að og þó kannske alveg sérstaklega taka fyrr við sér en hún hefur gert, því að það má segja að fyrst núna hafi með vissum stuðningi verið gengið inn á þá braut að styðja hér reglulega vel að. Þá á ég við þann stuðning sem húsnæðismálastjórn hefur veitt Húseiningum á Siglufirði með framkvæmdalánum, svo sem sjálfsagt er og hún hefur veitt stórum byggingarmeisturum lengi, og ekki er um annað að ræða en sjálfsagða fyrirgreiðslu. Ég veit að umsóknir annarra verksmiðja af þessu tagi um slík framkvæmda lán, eins og Trésmiðju Fljótsdalshéraðs og Húsasmiðju Snorra Halldórssonar, hafa ekki enn þá verið teknar til jákvæðrar afgreiðslu í húsnæðismálastjórn eða mér er ekki kunnugt um að það hafi enn verið gert. Hér koma lánasjóðir iðnaðarins líka til greina, og áfram mætti telja.

Í framsögu minni í fyrra rakti ég dæmi um það, hve erfiður og þungur væri róður í þessu efni, þegar ég rakti árangurslausa baráttu okkar heimamanna austur á Reyðarfirði til að koma þar á laggirnar reglulegri verksmiðju til fjöldaframleiðslu húsa, sem gerði ráð fyrir u.þ.b. tvöfaldri afkastagetu á við Húseiningar, sem ég tel að nú loks hafi sannað gildi sitt eftir byrjunarörðugleika og vissan skilningsskort, e.t.v. einhver mistök í uppbyggingu, eins og gengur um tilraunastarfsemi sem að sumu leyti er líka staðið að af vanefnum. Nú er ljóst að Húseiningar hafa næg verkefni og hafa a.m.k. komist yfir verstu þröskuldana sem þurfti að sigrast á í upphafi. Viðtökur við þessu voru einfaldlega þær, að menn vildu — og það gat ég skilið — að Húseiningar sönnuðu gildi sitt áður en út í þetta væri ráðist af hálfu okkar Reyðfirðinga. Við teljum að svo sé nú. En það breytir engu um það, að lánasjóðir iðnaðarins virðast áfram lokaðir í sambandi við þetta. Ég skal hlusta á öll rök varðandi það, að hér geti verið um það að ræða að við séum of snemma á ferðinni, þetta þurfi nokkra bið. Hins vegar er hart að verða að sætta sig við algera neitun í þessu sambandi, eins og við urðum að þola. Ég skal ekki ræða það frekar nú. Það mál á eftir að koma á dagskrá síðar í öðru þin máli í vetur.

Ég vil aðeins ítreka það, að skv. þeim upplýsingum, sem ég fékk í gær frá Trésmiðju Fljótdalshéraðs, — sem selur hús sem eru mjög skammt á veg komin, miklu skemmra á veg komin en þau hús sem Húseiningar selja, það er nánast grindin ein sem þeir selja, — anna þeir hvergi nærri þeirri eftirspurn sem er eftir þessum húsum hjá mönnum eystra og reyndar víða á landinu. Mér er sagt, að af þeim húsum, sem þeir selja í dag á um 5 millj. kr., þurfi þeir að greiða aukalega, miðað við það sem aðrir þyrftu að greiða, milli 500 og 600 þús. kr. í söluskatt. Og þá sjá allir að hér er um drjúgan aukaskatt að ræða sem þeir sleppa við sem láta vinna að húsbyggingum á byggingarstað. Þetta er aðeinsgott dæmi. Hjá Húseiningum er auðvitað um miklu hærri upphæð að ræða, vegna þess að þar er gert miklu meira í húsunum og þau seld miklu betur búin heldur en þeir gera austur á Hlöðum.

Ég vil sem sagt aðeins ítreka það, að hér er um réttlætismál að ræða, bæði gagnvart byggingaraðilum varðandi samkeppnisaðstöðu þeirra, sem á auðvitað að vera jöfn á við aðra, og þó alveg sér í lagi gagnvart þeim sem húsanna njóta til íbúðar. Því verður að treysta á skilning og velvilja Alþingis í þessu efni.

Ég vil svo óska eftir því, að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.