15.05.1979
Sameinað þing: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4767 í B-deild Alþingistíðinda. (4011)

31. mál, Suðurnesjaáætlun

Frsm. (Ágúst Einarsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur fjallað um þessa þáltill. um Suðurnesjaáætlun og leitað umsagna. Jákvæð umsögn barst frá Vinnuveitendafélagi Suðurnesja, þar sem hvatt var til að hraðað yrði áætlun um uppbyggingu fiskveiða og vinnslu á Suðurnesjum. Sömuleiðis barst jákvæð umsögn frá Landssambandi ísl. útvegsmanna og frá Framkvæmdastofnuninni barst mjög ítarlegt og jákvætt álit um þessa tillögu. Þá barst jákvæð umsögn frá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum svo og frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis, þar sem segir að það hefði verið tímabært fyrir mörgum árum að samþykkja slíka ályktun.

N. varð sammála um afgreiðslu málsins. Fjarverandi lokaafgreiðslu voru Friðrik Sophusson, Jóhanna Sigurðardóttir og Jón G. Sólnes.