08.11.1978
Efri deild: 12. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

58. mál, söluskattur

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins að segja örfá orð til stuðnings þessu máli. Ég get að sjálfsögðu tekið undir hvert einasta orð af því sem 1. flm. sagði. Það voru augljós rök sem hann færði fyrir því, að mál þetta ætti að ná fram að ganga.

Ég get bætt því við að því er Húseiningar varðar, það fyrirtæki sem stærst er hér á landi á þessu sviði og merkast, mundi ég vilja segja, að þar hafa auðvitað verið gífurlegir erfiðleikar. Fyrirtækið var stofnað af vanmætti og lenti fljótlega í algeru greiðsluþroti og stórfelldum erfiðleikum. En það var brugðist við því af miklum manndómi af samtökum fólksins heima fyrir, þar sem menn ekki einungis lögðu fram mikla fjármuni miðað við efnahag, eins og hann var á þeim tíma á Siglufirði, heldur tóku menn líka á sig stórfelldar persónulegar ábyrgðir umfram sín hlutafjárframlög til að tryggja hag þessa fyrirtækis og styrkja þannig atvinnulífið á Siglufirði, sem vissulega var ekki vanþörf á.

Þetta fyrirtæki hefur nú sannað gildi sitt og mun að sjálfsögðu leiða til þess, að fleiri slík fyrirtæki rísa upp og verksmiðjubyggð hús verða reist hér á landi í miklu ríkari mæli en hingað til hefur verið gert, þó auðvitað að því áskildu að nokkurn veginn gildi jafnræði á milli þeirra, sem byggja í verksmiðju, og hinna, sem gera það úti á vinnustað. Það er svo nú, að t.d. þegar Húseiningar á Siglufirði þurfa að fá 10 millj. kr. fyrir þau hús sem þær byggja, þá verða þær í leiðinni að senda ríkissjóði 2 millj. kr. ávísun. Þetta er að vísu ekki allt saman umfram það sem menn þurfa að borga þegar þeir byggja á byggingarstað, vegna þess að söluskattur er tekinn í tolli af timbri sem ekki fer til vinnslu, svo dæmi sé nefnt. Ég veit ekki nákvæmlega þetta hlutfall, en það er gífurlegt misræmi þarna á milli engu að síður. Þetta hefur mönnum auðvitað verið ljóst árum saman, og þau eru orðin allmörg árin sem ég hef t.d. reynt að berjast fyrir því í fjmrn. og hjá yfirvöldum að þetta yrði leiðrétt. Í rauninni viðurkenna allir að þarna sé um ósannindi að ræða. En kerfið er nú einu sinni þannig, að það er svo þungt í vöfunum, að það er eins og engin leið sé að róta við því. Það er ekki nema eitt vald sem það getur gert, og það er valdið sem við höfum hér. Við getum gert þetta með breytingu á lögum — ótvíræðri breytingu, þannig að kerfið geti ekki stöðvað réttlætið á þessu sviði, eins og það gerir á mörgum sviðum öðrum og torveldar mönnum athafnir. Og það er áreiðanlega eitt hið mikilvægasta, sem við getum gert í húsbyggingarmálum þessarar þjóðar, að stuðla að aukningu á rekstri eins og þeim sem hér um ræðir.

Ég skal ekki orðlengja um þetta. Ég vona að þetta mál fái skjóta afgreiðslu í n. og síðar í þessari hv. deild.