15.05.1979
Sameinað þing: 95. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4772 í B-deild Alþingistíðinda. (4025)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Frsm. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér er sagt að á tímum viðreisnarstjórnar hafi verið fátítt eða jafnvel óþekkt að þáltill. frá stjórnarandstöðu eða frv. frá stjórnarandstöðu næðu fram að ganga. Það voru ekki vinnubrögð til fyrirmyndar. Nú er öldin önnur og á mál, sem sæmilegt samkomulag verður um og eru sanngirnismál, er ekki sest á hinu háa Alþingi vegna þess að upphafsmenn þeirra séu í röðum stjórnarflokka. En við afgreiðum þessa dagana á færibandi þáltill. Sjálfstfl. Um þær flestar er ekkert nema gott að segja, að dálítið er þó misjafn sauður í öllu því fé.

Ég hef, eins og menn e. t. v. rekur minni til, einstaka sinnum talað um þetta mál áður. Nú hef ég haft tækifæri til þess að sitja í þeirri n., sem fjallar um málið, og er raunar formaður hennar. Ég get ekki annað en borið samnm. mínum hið besta söguna. Þetta er merkileg n., allshn. Sþ., en sumir nm. eru nokkuð örir og kappsamir. Í þessu máli bar það við, að sumir þeirra neituðu að líta á umsagnir eða gögn varðandi málið og urðu jafnvel fokvondir yfir því, að menn væru kvaddir á fund n. Ef menn fara að afgreiða mál svo eftir taugakerfinu, en ekki með vitrænum hætti, er hætta á ferðum um störf þingsins.

Við umr. í haust komu fram mikilvæg rök gegn þessu máli. Á þau vildu sumir hv. nm. alls ekki hlusta. Ég er ekki að klaga samnm. mína. Þetta eru góðir og guðhræddir menn, vandaðir og frómir og sumir þeirra m. a. s. skemmtilegir. En allt um það get ég ekki varist því, að mér finnst nauðsynlegt, að menn viti þetta og hafi það í huga þegar þeir mynda sér skoðun um afgreiðslu málsins. Ég bið menn að mynda sér skoðun um þetta mál, — ég bið menn ekki um annað en þeir myndi sér skoðun um málið og hafi það að leiðarljósi.

Þegar umr. var um þetta mál í haust lét ég í ljós ótta minn um að hv. 1. flm., Eyjólfur K. Jónsson, væri búinn að vinna sigur í málinu hér í þinginu. Ég óskaði honum til hamingju með það. Það fór ákaflega fyrir brjóstið á sumum hv. þm. Ég var héðan úr ræðustól ávítaður harðlega, jafnvel af bestu vinum mínum, fyrir linku og drusluhátt, svartsýni og aumingjaskap. Ég lýsti náttúrlega aldrei fylgi við málið. Ég verð að segja ykkur það, að mér finnst málið ekki kannske jafnvitlaust, en nærri því eins vitlaust og þegar hv. flm. setti það fram í upphafi.

Ég held að nauðsynlegt sé að upplýsa þingheim um málið. Ég reyni að gera það í stuttu máli, en ég er engan veginn viss um að mönnum sé ljóst um hvað þeir eru að tala, hvað þeir ætla að fara að afgreiða. Menn hafa það e. t. v. bara í huga að klekkja á samvinnufélögunum. Þeir gá ekkert að því, hvert það kann að leiða. Ég er ekki að verja hér sérstaklega samvinnufélögin. En ég bið menn að hafa í huga hvað þeir eru að gera, hvert það kann að leiða að þeir vinna verk svona. Þetta hefur vakað jafnvel fyrir sumum þjóðkunnum samvinnumönnum, eins og hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem ég man ekki betur en telji sig í röð hinna mestu samvinnumanna í þjóðfélaginu, ef ekki bara þann almesta. Hann lét sannarlega til sín taka í störfum allshn. um málið og lét ljós sitt skína þar og hafði ekki undir mælikeri, aldrei þessu vant.

Ég verð að leyfa mér að rekja eitt gagn, sem ekki hefur komið fram áður í þessu máli, og með leyfi forseta langar mig til þess að lesa upp stutta, en nokkuð ljósa grg. sem formaður Stéttarsambands bænda sendi þinginu fyrir skömmu og ég tel ástæðu til að komi í ræðuparti Alþingistíðinda. Hún heitir: „Greinargerð um veitingu rekstrar- og afurðalána úr bankakerfinu til sauðfjárframleiðenda.“ Hef ég nú lesturinn, með leyfi forseta:

„Þess hefur orðið vart, að allmikill misskilningur ríkir um upphæð og afgreiðslu þessara lána og einnig það, með hvaða hætti endurgreiðsla þeirra er tryggð. Því þykir mér rétt að lýsa þessu nokkuð í von um að menn vilji heldur hafa það sem sannara reynist að leiðarljósi í umræðum um þessi mál.

1. Rekstrarlán. Upphæð þessara lána er ákveðin af stjórn Seðlabanka Íslands ár hvert. Sú ákvörðun er að jafnaði tekin í febrúar- eða marsmánuði. Nú var þó ekki búið að taka endanlega ákvörðun fyrir árið 1979 fyrr en í byrjun apríl.

Þetta er ákveðin krónutala og er hverjum sláturleyfishafa veitt hún miðað við fjölda dilka hjá honum árið á undan. Krónutalan á dilk er mishá eftir því hvort sauðfjárrækt er aðalbúgrein viðkomandi landssvæðis eða ekki. Árið 1977 var krónutalan hjá öllum sláturleyfishöfum 722 kr. á dilk. Síðan kom viðbót í nokkur héruð að upphæð 731 kr. á dilk. Enn var veitt viðbót að upphæð 366 kr. á dilk í önnur héruð. Árið 1978 var upphæðin, sem allir fengu, 995 kr. á dilk. Viðbótin hjá þeim héruðum, sem fengu fulla viðbót, var 990 kr., en 495 kr. á dilk hjá þeim sem fengu hálfa viðbót.

Þetta fé er að jafnaði lánað í sex áföngum, 50% í 1. áfanga, en síðan 10% í lok hvers mánaðar frá apríl til ágúst. Sláturleyfishafarnir eru lántakendur nær undantekningarlaust, oftast án umboðs frá bændum. Þeir gefa viðskiptabanka sínum skýrslu um fjölda sláturdilka næsta ár á undan, staðfesta af matsmönnum og endurskoðendum. Þeir skila síðan í viðskiptabankann víxli fyrir þeirri fjárhæð, sem þeir eiga rétt á hverju sinni, til að setja að veði fyrir skilvísum greiðslum hins væntanlega afurðaláns út á dilkaslátrun til komandi hausts. Þessa víxla endurkaupir Seðlabankinn. Viðskiptabankinn getur krafist viðbótartryggingar þyki honum ástæða til.

Hámarks- og lágmarksrekstrarlán út á dilk hefur síðustu 3 ár verið sem hér segir:

1977 var lágmarkið 722 kr. Miðtalan „ — það er gott orð miðtala — “ 1088 kr. Hámarkið var 1453 kr. á dilk. 1978 var lágmarkið 995 kr., miðtalan 1490 kr., hámarkstalan var 1985 kr. á dilk. 1979 var lágmarkstalan 1281, miðtalan 1921 og hámarkstalan 2561 á dilk. Hækkunin frá 1978–1979 var á lágmarkstölunni 28.7%, 28.9% á miðtölunni og 29% á hámarkstölunni.

Grundvallarverð til bónda hefur hækkað um 45.6% frá mars 1978 til mars 1979. Rekstrarlánin hefðu því þurft að hækka í sama hlutfalli til að halda gildi sínu og munar þetta á þriðja hundrað millj. kr. fyrir heildina. Verð til bænda á meðaldilkum er nú í mars 19 652 kr., sem sýnir hvað rekstrarlán eru lítið hlutfall af verðmæti dilksins og hrökkva skammt til að greiða þær rekstrarvörur og laun sem nauðsynlegt er fram á haustið. Ákvörðun rekstrarlána í ár sýnir einnig hvað þessi fyrirgreiðsla er óörugg og fer stöðugt lækkandi sem hlutfall af framleiðslukostnaði.

Bændur hafa á undanförnum árum reynt að leysa þennan vanda að einhverju marki með samhjálp í gegnum kaupfélögin. Þessi leið hefur síðustu árin takmarkast í mikilli verðbólgu við minnkandi sparnað og minni lánamöguleika félaganna. Vilji Alþ. rétta bændum hjálparhönd við að koma lánamálum í viðunandi horf mætti:

1) Stuðla að því að afurðalánin verði 80% af verðmæti, svo að hægt sé að greiða bændum út 90% að haustinu.

2) Stuðla að því að rekstrarlánin komi frá janúar til október ár hvert og þá sem ákveðinn hundraðshluti af verðmæti í hverjum mánuði. Lánin verði miðuð við að hægt sé að greiða eðlilegan rekstrarkostnað búanna og laun.

3) Alþ. hækkaði á síðasta ári lántökukostnað við afurðalánasamninga úr 0.48% af lánsupphæð í 1%. Á sauðfjárframleiðslu er þetta óeðlilegur skattur, þar sem innleggið kemur einu sinni á ári og myndar mikinn topp, en við hann er gjaldið miðað. Þetta mætti lækka aftur.

2. Uppgjörslán. Til rekstrarlána eru oft talin svokölluð uppgjörslán, sem veitt eru að vorinu frá árinu 1971. Þau eru veitt út á birgðir kjöts, sem eru til í maílok, og nema ca. 2/3 hlutum áætlaðs mismunar á skilaverði afurðanna annars vegar og veittum afurðalánum að haustinu hins vegar. Þessi lán endurgreiðast í nóv. næstan á eftir með afurðalánum sem þá eru veitt. Þessi lán eiga að fara beint í viðskiptareikning bænda upp í eftirstöðvar þess afurðaverðs sem þeir eiga eftir að fá í hlutfalli við innlagðar afurðir haustið áður. Það er naumast rétt flokkun að kalla þetta rekstrarlán.

3. Uppígreiðslulán eða haustlán. Síðustu ár hafa sláturleyfishafar fengið nokkra greiðslu við sláturtíð til að annast nauðsynlegar greiðslur vinnulauna í sláturhúsum. Þau lán hafa fengið sérstakt heiti, sem að framan er greint. Þeim er ekki ætlað að standa undir greiðslum bænda við búreksturinn, heldur eingöngu kostnaði við slátrun fjárins og að búa vöruna í markaðshæft ástand. Þessi lán greiðast eins og framangreindir lánaflokkar með afurðalánum í nóvember.

4. Áburðarlán Áburðarverksmiðju ríkisins. Áburðarverksmiðjan tekur lán í Bretlandi á tímabilinu jan.-maí ár hvert og er það notað til greiðslu á erlendum áburði og til greiðslu á hráefnum í innlenda framleiðslu verksmiðjunnar. Áburður er lánaður bændum og félögum þeirra svo sem hér segir: Sláturleyfishafar greiði 25% í maí, 10% í júní, 10% í júlí, 5% í ágúst og 50% í nóv. Búnaðarfélög greiði 60% í maí, 15% í júní, 15% í júlí, 10% í ágúst. Ýmsar verslanir greiði 60% í maí, 10% í júní, 10% í júlí, 10% í ágúst og 10% í sept. Staðgreitt er um 1% af heildinni. Langmestur hluti áburðarins, eða 55–60%, fer til sláturleyfishafa og er greiðsla þeirra tryggð með veði í afurðalánum í nóv. Aðrir tryggja greiðslur sínar með bankaábyrgð. Vegna takmarkaðra rekstrarlána bænda hefur á undanförnum árum reynst erfitt að halda þeirri reglu á innheimtu áburðarins, sem hér er gerð grein fyrir, en það, sem tryggt er með afurðalánum, greiðist jafnan á réttum tíma, enda fellur það á endurgreiðslutíma erlends láns verksmiðjunnar, sem er 1. des. ár hvert.

5. Afurðalán. Afurðalánin eru veitt út á birgðir sauðfjárafurða samkv. birgðaskýrslum 1. nóv. Þau eru ekki að jafnaði afgreidd að fullu í nóv., en tvö síðustu ár hefur afgreiðslu þeirra verið lokið í des. Að jafnaði voru lánin miðuð við heildsöluverð varanna í sept. að frádregnum sjóðagjöldum 2–3%. Þetta er kallað skilaverð. En tvö síðustu ár hefur verið tekið tillit til verðhækkunar í byrjun des. og lánin hafa ekki hækkað í mars eða júní vegna verðhækkana afurða í þeim mánuðum. Afurðalán út á mjólkurvörubrigðir hafa síðustu árin hækkað tvisvar á ári, haust og vor. Reglubundin afurðalán Seðlabanka úr viðskiptabönkum hafa tvö síðustu ár verið um 75% af svokölluðu skilaverði þeirra vara sem fluttar eru úr landi, en 71.5% af því sem selt er innanlands, hvort tveggja miðað við desemberverðlag. Af kindakjöti og fleiri vörum sem seljast bæði utanlands og innan, en fundin meðalprósenta sem mun vera sem næst 72.5%. Gert er ráð fyrir að í nóv. sé búið að selja og greiða ca. 10% af kjötframleiðslunni, en nokkurt magn er selt, en ekki greitt. Af þessari ástæðu er talið, að lánin að viðbættum tekjum af kjötsölu dugi nú fyrir 80% útborgun til bænda, en vanti ca. 10% á lánin til að haustgreiðsla afurðanna geti orðið 80%, svo sem bændur hafa óskað eftir: Kjötið er veðsett fyrir afurðalánum. Þegar það selst ganga útflutningsbætur og niðurgreiðslur upp í greiðslur lánanna svo sem þarf. Þessar greiðslur eru hluti veðsins.

6. Fóðurbætislán. Til viðbótar þessu lánar Seðlabankinn 100–130 millj. kr. á ári til fóðurbætiskaupa á hafnir norðanlands og austan, þar sem hafíshætta er fyrir hendi. Þessi fjárhæð er oft flokkuð með rekstrarlánum til sauðfjárræktar og nýtist jöfnum höndum kúabúskap í viðkomandi héruðum. Endurgreiðsla þessara lána er bundin við afgreiðslu afurðalánanna í nóv. ár hvert.

Frekari upplýsingar um lán þessi er að finna í skýrslu Seðlabanka Íslands, sem fylgir hér með á bls. 7–8. Stundum stendur á útflutningsbótagreiðslum úr ríkissjóði og þarf þá að semja sérstaklega um frest á greiðslu afurðalána eða útvega annað fé til greiðslu þeirra. Þetta er oft erfitt og kostnaðarsamt, en lánin greiðast mánaðarlega á söluárinu eftir sölumagni hvers mánaðar. Á s. l. ári hækkuðu stimpilgjöld og þinglestur afurðalána í 1% og eru það mikil útgjöld fyrir framleiðendur.

Um aðra þætti afurðalánanna vísast til grg. Seðlabankans um þetta efni.

Fyrir hönd Stéttarsambands bænda,

Gunnar Guðbjartsson.“

Seðlabanki Íslands, sem hér var nefndur, sendir ritgerð um endurkaup Seðlabankans á landbúnaðarlánum. Þetta er fskj. með þeirri grg. sem ég var að lesa hér áðan, og með leyfi forseta mun ég nú hlaupa yfir hana. Hún er dags. 16. okt. 1978. — Fyrst er inngangur:

„Í grg. þessari verður fjallað um endurkaup Seðlabankans á lánum til landbúnaðarins, bæði afurða- og rekstrarlánum. Einnig er gerður samanburður á endurkaupafyrirgreiðslu til landbúnaðarins og endurkaupum vegna annarra atvinnugreina.

Þau ákvæði í lögum um Seðlabanka Íslands, þar sem sérstaklega er minnst á endurkaup, eru í IV. kafla laganna, sem fjallar um hin innlendu viðskipti Seðlabankans og eftirlit með bankastarfsemi. Þar segir í 9. gr.:

„Seðlabankinn tekur við innlögum frá bönkum, sparisjóðum og öðrum peningastofnunum og getur veitt þeim lán með endurkaupum tryggra víxla eða á annan hátt gegn tryggingum, sem bankinn metur gildar.“

Jafnframt segir um bindiskyldu í 11. gr.: „Megintilgangur innlánsbindingar er að afla fjár frá bankakerfinu í heild til að standa undir lánveitingum Seðlabankans innanlands, þ. á m. endurkaupum afurðavíxla.“

Nánari skilgreining á endurkaupum er í 23. gr. reglugerðar fyrir Seðlabankann frá 1962, en þar segir: „Seðlabankinn endurkaupir víxla með veði í afurðum frá bönkum og sparisjóðum. Skulu víxlarnir ávallt vera með sjálfskuldarábyrgð þess banka eða sparisjóðs, sem selur víxlana. Bankastjórnin ákveður, hversu mikið og til hve langs tíma er lánað út á einstakar afurðir, en víxlarnir skulu án undantekningar og í síðasta lagi greiðast upp er afurðirnar eru seldar. Ef afurðaveð bregst, það ferst, reynist ófullnægjandi eða er ekki fyrir hendi, skal banki sá eða sparisjóður, sem í ábyrgð er fyrir víxli, þegar í stað innleysa hann.“

Seðlabankinn hefur ekki gefið út formlegar almennar reglur um endurkaup sjávarútvegs- og landbúnaðarlána, en reglur um framleiðslulán iðnaðarins voru gefnar út 1966 og 1972. Í sambandi við endurkaup afurðalána hefur þó verið fylgt almennum lágmarksskilyrðum sem bankastjórn Seðlabankans hefur sett, og jafnframt hafa sérstakar framkvæmdareglur gilt um hvern endurkaupaflokk hverju sinni, bæði í afurðalánum og rekstrarlánum.

Helstu atriði almennra lágmarksskilyrða fyrir endurkaupum afurðalána hafa verið sem hér segir:

1. Fyrir skal liggja yfirlýsing um birgðir þær sem lánað er út á, magn þeirra og að þær séu geymdar í vörslu lántaka á sérstökum afmörkuðum geymslustað. Birgðaskýrsla sé undirrituð af framkvæmdastjóra fyrirtækis eða fulltrúa hans svo og verkstjóra eða birgðaverði.

2. Afurðir eða framleiðsluvörur, sem seldar eru erlendum aðilum, skulu seldar gegn bankaábyrgð eða innheimtu fyrir milligöngu viðskiptabanka. Telji útflytjandi óhjákvæmilegt að selja vörurnar með öðru greiðslufyrirkomulagi, hvort heldur sem er með gjaldfresti, í umboðssölu eða til innheimtu hjá erlendum banka, þá skal hann leita heimildar hjá þeim banka sem framleiðslan er veðsett.

3. Endurkaupalán vegna útfluttra vara skulu endurgreiðast svo fljótt sem verða má að loknum gjaldeyrisskilum. Lán vegna innanlandssölu skulu endurgreiðast samkv. birgðaskýrslu, sem miðuð er við og dagsett síðasta dag hvers mánaðar. Skýrslan skal hafa borist Seðlabanka innan 15 daga frá dagsetningu. Útborgun vegna aukningar birgða eða innborgun vegna birgðalækkunar fer síðan fram um næstu mánaðamót, þ. e. einum mánuði eftir dagsetningu skýrslunnar.

4. Viðskiptabanki skal hafa ítarlegt yfirlit yfir birgðir lántaka á hverjum tíma og innheimta birgðaskýrslu ekki sjaldnar en mánaðarlega. Enn fremur skal viðskiptabankinn framkvæma birgðakönnun hjá lántaka af og til, og skal afrit af birgðakönnun afhendast Seðlabankanum jafnóðum. Seðlabanki hefur rétt til hvenær sem hann ákveður að senda eigin trúnaðarmann til athugunar á bókhaldi og birgðum lántaka.

Hér á eftir verður gerð grein fyrir þeim sérstöku framkvæmdareglum sem gilt hafa um endurkeypt lán vegna landbúnaðarins. Verður fyrst fjallað um afurðalánin, en síðan gerð grein fyrir einstökum flokkum rekstrarlána landbúnaðarins.“

Þá víkur sögunni að afurðalánum landbúnaðarins: „Til veðsetjanlegs verðmætis teljast raunverulegar afurðabirgðir og ógreiddur útflutningur, en hvorki ógreidd innanlandssala né ógreiddar niðurgreiðslur úr ríkissjóði vegna seldra afurða. Ógreiddar útflutningsbætur skal þó telja til veðsetjanlegs verðmætis, enda séu gerð skil á þeim jafnóðum og þær falla til. Hafi orðið mikill dráttur á greiðslu útflutningsbóta úr ríkissjóði hefur komið fyrir að lán vegna ógreiddra útflutningsbóta hafa ekki verið endurkeypt.

Lán út á landbúnaðarafurðir, sem seldar eru innanlands, skulu endurgreiðast samkv. birgðaskýrslu sem miðuð er við og dagsett síðasta dag hvers mánaðar. Skýrslan skal hafa borist Seðlabankanum innan 15 daga frá dagsetningu. Hafi skýrslan eigi borist á réttum tíma áætlar endurkaupadeild endurgreiðslu miðað við reynslu fyrri ára. Útborgun eða innborgun vegna birgðabreytinga fer síðan fram um næstu mánaðamót, þ. e. einum mánuði eftir dagsetningu skýrslu.

Lán vegna landbúnaðarafurða, sem seldar eru á erlendum mörkuðum, skulu endurgreiðast svo fljótt sem verða má að loknum gjaldeyrisskilum á sama hátt og á sér stað um lán út á útfluttar sjávarafurðir.

Afurðalán, sem tekin eru út á birgðir af sauðfjárafurðum í október-desember, skulu að fullu endurgreidd fyrir 1. apríl á öðru ári, hvort sem birgðir eru þá seldar eða ekki. Lán út á kartöflur,1. gæðaflokk, sem tekin eru í sept.-des., skulu að fullu endurgreidd fyrir 1. maí árið eftir. Önnur afurðalán landbúnaðarins skulu endurgreiðast innan 18 mánaða frá lántöku nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi samkv. mati bankastjórnar.

Síðustu árin hefur Seðlabankinn veitt afurðalán út á neðangreindar landbúnaðarafurðir:

a. Sauðfjárafurðir. Kindakjöt, gærur, ull, lifur, hjörtu og nýru.

b. Mjólkurafurðir. Smjör, osta, nýmjólkurduft, undanrennuduft og kasein.

c. Aðrar afurðir. Nautgripakjöt, hross- og kýrhúðir, kálfskinn, selskinn, kópaskinn, æðardún, heyköggla og kartöflur.

Breytingar urðu almennt á endurkaupahlutföllum Seðlabankans í byrjun þessa árs, en þá höfðu þessi hlutföll um langt árabil verið sem hér segir í öllum atvinnugreinum: Framleiðsla til útflutnings 58.5% af skilaverði, framleiðsla til útflutnings að hluta og að hluta til innanlandssölu 56.75%, framleiðsla til sölu innanlands 55%. Áætlað skilaverð er miðað við heildsöluverð eða söluverð fob. að viðbættum greiðslum úr ríkissjóði að frádregnum opinberum gjöldum, sölukostnaði o. fl. Í febrúar á þessu ári varð í framhaldi af lækkun lánveitinga viðskiptabankanna til Framkvæmdasjóðs úr 10% af innstæðuaukningu í 5% af innstæðuaukningu ákveðin lækkun af endurkaupahlutföllum Seðlabanka um 2%, sem koma skyldi til framkvæmda smám saman á þessu ári. Svigrúm það, sem lækkun lána til Framkvæmdasjóðs skapaði, skyldi notað til þess að auka viðbótarlán viðskiptabankanna, þannig að heildarafurðalánafyrirgreiðslan yrði óbreytt hlutfall af áætluðu skilaverði frá því sem áður var.

Endurkaupahlutföllin urðu sem hér segir eftir þessa breytingu:

Framleiðsla til útflutnings: lán 56.5% af skilaverði.

Framleiðsla til útflutnings og að hluta til innanlandssölu: 54.75% af skilaverði. Framleiðsla til sölu innanlands: lán 53% af skilaverði. Að því er landbúnaðinn varðar kom þessi ákvörðun um endurkaupahlutföll til framkvæmda í lánum út á mjólkurafurðir í tveimur áföngum, 1. apríl og 1. júní s. l., en í lánum út á sauðfjárafurðir breytast endurkaupahlutföll þegar byrjað verður að lána út á nýjar sláturafurðir haustið 1978.

Í vexti af afurðalánum reiknaði Seðlabankinn sér á árinu 1976 og fram til 30.7 1977 7.25%–9.25%, endursölubanki 8–10%, — frá 1.8.1977 urðu vextirnir 10%, endursölubanki fékk 11%, og frá 21.11.1977 14%, endursölubankinn 15%. Frá 21.2.1978 voru vextir ákveðnir 17% forvextir og síðan 17.25% eftir á greiddir vextir mánaðarlega, endursölubanki 18% forvextir eða 18.25% eftir á greiddir vextir, sbr. jafnframt meðfylgjandi yfirlit um vexti Seðlabanka af endurkeyptum lánum, fskj. I. Samkv. framansögðu hafa vextir endursölubanka verið 1% hærri en vextir Seðlabanka af þessum lánum frá 1.8.1977, en næstu árin þar á undan 3–4% hærri.

Endurkaup afurðalána landbúnaðarins eru yfirleitt í hámarki í lok des. ár hvert. Í árslok 1976 námu þau 5884 millj. kr. og höfðu hækkað um 32.8% frá árslokum 1975. Í árslok 1977 námu þau 9 milljörðum 762 millj. kr. og höfðu hækkað á árinu um 65.9%, einnig sbr. fskj. II og III.“ — Mönnum til hugarhægðar get ég þegar sagt frá því, að ég mun ekki lesa fskj. II eða III, því að þau eru frekar leiðinleg og það er mikið um þurrar tölur þar, en hins vegar er ég tilbúinn að lána hv. þm. þessi skjöl ef þeir kæra sig um, og ég tel reyndar nauðsynlegt að þeir kynni sér þetta mál.

„Verðlagsár framleiðsluvara landbúnaðarins hefst 1. sept. ár hvert. Ákvörðun um endurkaupaverð er þó ekki tekin fyrr en í nóv., þegar fyrir liggja gögn um magn sláturafurða. Hin nýju endurkaupaverð, sem gilda fyrir birgðir 1. nóv., eru síðan endurskoðuð í des. með hliðsjón af nýjum verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara. Þau gilda síðan frá 1. des. til 31. ágúst árið eftir nema á mjólkurafurðum, en þau endurkaupaverð hafa verið endurskoðuð í apríl eða maí: 1978 frá 1. apríl, 1977 frá 1. apríl og 1976 frá 1. maí, með hliðsjón af verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða 1. mars.

Undanfarin ár hefur Seðlabankinn ekki krafist greiðslu afurðalána af sölu sauðfjár- og nautgripaafurða í ágúst og sept. né heldur veitt lán vegna framleiðslu á þessu tímabili fyrr en í nóv. Það er miðað við birgðastöðu í lok okt. Afurðalán Seðlabankans út á þessar afurðir í lok sept. og okt. eru því í reynd rekstrarlán til að auðvelda sláturleyfishöfum að standa í skilum með greiðslur vinnulauna og annarra beinna útgjalda. Hefur Seðlabankinn veitt þessum aðilum rekstrarlán í sept. og okt., svonefndar uppígreiðslur haustlána, sem greiðist um leið og nýjar sláturafurðir eru veðsettar í nóv. Þar sem ný endurkaupaverð mjólkurafurða eru ekki ákveðin fyrr en í nóv. hefur Seðlabankinn á árunum 1977 og 1978 veitt rekstrarlán sem uppígreiðslu vegna mjólkurvöruhækkunar sem orðið hefur 1. sept, en fyrri endurkaupaverð þá gilt þar til ný endurkaupaverð hafa verið ákveðin, sbr. einnig síðar upp í greiðslu haustlána. Í meðfylgjandi fskj. II–IV eru sýndar mánaðarlegar stöðutölur einstakra flokka endurkeyptra afurðalána landbúnaðarins á árunum 1976, 1977 og til 30.9.1978.“

Herra forseti. Það hefur nú tognað úr máli mínu meira en ég ætlaði í upphafi. Enn á ég eftir talsvert mál óflutt. Það er boðaður þingflokksfundur hjá okkur framsóknarmönnum og mig langar til að fá upplýsingar um hvernig forseti hyggst haga fundarhöldum í dag. (Forseti: Til upplýsingar hv. alþm. skal þess getið, að áformað er að slíta þessum fundi eigi síðar en kl. kortér yfir fjögur vegna flokksfunda sem þá hefjast, en í þessu máli eru fimm á mælendaskrá auk þess hv. þm. sem nú er í ræðustólnum.) Herra forseti. Ég þakka þessar upplýsingar. Ég mun nota þann stundarfjórðung, sem eftir er, til þess að halda áfram þeirri tilvitnun sem ég er að fara með.

Ég vil taka það fram, að ég held að mönnum sé hollt að gera sér grein fyrir því, að þetta mál er flókið, það verður ekki hrist úr erminni. Mér sýnist að nauðsynlegt sé að það komi fram upp á seinni tímann að þessar upplýsingar hafi komið fram hér á Alþ., og þess vegna, herra forseti, mun ég halda áfram við lesturinn.

„Viðskiptabankarnir lána í viðbót við endurkeypt afurða- og framleiðslulán Seðlabankans svonefnt viðbótarlán, sem er ákveðið hlutfall af endurkeyptum lánum. Reglubundin lán Seðlabanka og viðskiptabanka nema þannig samtals 75% af skilaverði útflutningsvara og 71.5% af skilaverði vara seldra innanlands. Eftirfarandi yfirlit sýnir hlutfall endurkeyptra lána og viðbótarlána af skilaverði fyrir og eftir þá breytingu á endurkaupahlutföllum Seðlabankans sem fyrr var getið:

Lán fyrir breytingu: Endurkaupalán út á framleiðslu til útflutnings voru 58.5% , viðbótarlán 16.5%, lán samtals voru 75%. Framleiðsla til útflutnings og að hluta til innanlandssölu 56.75%, 16.5% voru viðbótarlánin og lánin samtals 73,25%. Framleiðslan til sölu innanlands var 55.0%, viðbótarlánin voru 16.5%, samtals 71.5%.

Lánin eftir breytinguna: Þá var framleiðslan til útflutnings 56.5%, viðbótarlánin 18.5%, samtals sama tala og áður, 75%. Framleiðsla til útflutnings og að hluta til innanlandssölu 54.75%, viðbótarlánið 18.5%, samtals sama tala og áður 73.25%. Framleiðsla til sölu innanlands var 53%, viðbótarlánið 18.5%, samtals lán 71.5%. Vextir af reglubundnum viðbótarlánum hafa frá 21/3 1977 verið þeir sömu og af víxillánum, nú 23.5%. Ef um mánaðarlega eftir á reiknaða vexti er að ræða af þessum lánum eru þeir 24% á ári.

Rekstrarlán landbúnaðarins: Í framkvæmdareglum um rekstrarlán til bænda, dags. 21. apríl 1959, er gert ráð fyrir, að bóndinn fái rekstrarlán gegn framvísun á vottorðum um bústofn og óafturkallanlegri ávísun frá sláturleyfishafa á fyrsta útborgaða andvirði afurðanna. Bóndi getur framselt þennan rétt sinn að nokkru eða öllu leyti til verslunar eða annarra samtaka sem bankinn metur gild. Falla má frá formlegu framsali bónda á réttindum hans og lána sláturleyfishafa eða umboðsmanni hans út á væntanlega slátrun, og hefur sá háttur að mestu verið á afgreiðslu rekstrarlána landbúnaðarins.

Almenn rekstrarlán og viðbótarrekstrarlán:

1. Almenn rekstrarlán. Þessi lán voru fyrst veitt 1958 út á væntanlega framleiðslu sauðfjárafurða og ullar. Í fyrstu voru lánin reiknuð sem 3/4 hlutar af grundvallarverði til bænda, en á tímabilinu 1961–1974 voru þau takmörkuð mánaðarlega við sömu fjárhæð og 1959 eða um 61 millj. kr. í heildarlán. 1975 voru lánin hækkuð um 100% frá árinu 1974, 1976 um 30% frá 1975, 1977 um 48.8% frá 1976 og 1978 um 40% frá árinu 1977. Þessum rekstrarlánum var úthlutað miðað við sláturþörf dilka á næstliðnu hausti eða á grundvelli sláturafurða ef um nýja sláturleyfishafa er að ræða. Jafnframt er leitað umsagnar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hugsanlega breytingu á dilkaslátrun eða afturköllun sláturleyfa. Útborgun lánanna er á tímabilinu mars — ágúst, t. d. á árinu 1978 50% fyrir marslok og síðan 10% mánaðarlega eða í apríl — ágúst. Á árinu 1978 voru lánin 995 kr. á dilk, 1977 722 kr. á dilk og 1976 448 kr. á dilk.

Viðbótarrekstrarlánin voru fyrst veitt í júní 1969 til sauðfjársvæða sem höfðu hlutfallslega litla sölu mjólkurafurða. Lánin eru miðuð við sláturtölu dilka á næstliðnu hausti á neðangreindum svæðum:

Svæði 1 er Dalasýsla, Barðastrandarsýsla, Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslur, Strandasýsla og Skefilsstaðahreppur í Skagafjarðarsýslu, Norður-Þingeyjarsýsla, Mývatnssveit og Norður- og Suður-Múlasýslur. Lán á dilk hefur verið eftirfarandi á s. l. árum: 1975 400 kr., 1976 520, 1977 731, 1978 980. Svæði 2 er Snæfellsnessýsla, Austur- og Vestur-Húnavatnssýslur, Bárðardalur og Vestur-Skaftafellssýsla austan Mýrdalssands. Lán á dilk hefur verið eftirfarandi á s. l. árum: 1975 200 kr., 1976 260, 1977 366 kr., 1978 495 kr.

Almenn rekstrarlán og viðbótustrarlán hafa numið eftirfarandi fjárhæðum samtals á undanförnum árum í millj. kr.: 1975 452 kr.,1976 590 kr.,1977 902 kr., 1978 1236 kr.

Uppgjörslánin: Þessi lán var byrjað að veita sláturleyfishöfum í júní 1971 til uppgjörs við bændur á sláturafurðum. Lánin nema um 2/3 hlutum af áætluðum mismun annars vegar skilaverðs og hins vegar lána Seðlabankans og viðskiptabanka 31. maí út á birgðir af kindakjöti, lifur, hjörtum og nautgripakjöti. Uppgjörslán eru veitt í maí ár hvert og hafa numið eftirfarandi fjárhæðum undanfarin ár í millj. kr.: 1975 433 millj., 1976 597 millj., 1977 823 millj., 1978 1138 millj.

Fóðurbirgðalán, öðru nafni hafíslán, voru fyrst veitt í apríl 1969 á svæði frá Horni austur til Hornafjarðar til þess að tryggja nægilegar birgðir af fóðri þó að hafís legðist að landinu. Lánin eru veitt í apríl og miðað við sláturtölu dilka á næstliðnu hausti. Hækkun á milli ára á heildarláni hefur verið ákveðin í samræmi við verðhækkun á svokallaðri fóðurblöndu, en 60–70% af kjarnfóðursölunni eru af þeirri tegund. Þessi lán hafa numið eftirfarandi fjárhæðum á undanförnum árum í millj. kr.: 1975 83 millj., 1976 95 millj., 1977 111 millj., 1978 138 millj.

Þá er uppígreiðsla haustlána. Á undanförnum árum hefur Seðlabankinn ekki krafist greiðslu á afurðalánum vegna sölu á sauðfjár- og nautgripaafurðum í ágúst — okt., þ. e. afurðalán út á birgðir 31. ágúst hafa ekki verið gerð upp fyrr en í nóv. og eru því í raun rekstrarlán á þessu tímabili. Til viðbótar við ofangreinda fyrirgreiðslu byrjaði Seðlabankinn 1975 að lána svokallað uppígreiðslu haustlána. Lánin eru veitt á tímabilinu sept. til okt. til sláturleyfishafa og er þeim ætlað að aðstoða þá við að standa í skilum með greiðslu vinnulauna og annarra beinna útgjalda. Auk framangreindrar fyrirgreiðslu upp í haustlán landbúnaðarins voru haustið 1977 veitt svonefnd mjólkurbirgðalán að fjárhæð 194 millj. kr. sem fyrirgreiðsla vegna mjólkurvöruhækkunar, haustið 1978 að fjárhæð 391 millj. kr. Samtals hafa uppígreiðslulánin numið eftirfarandi fjárhæðum í millj. kr.: 1975 701 millj., 1976 877 millj., 1977 1277 millj., 1978 1900 millj., þar af vegna sláturafurða 1975 701 millj., 1976 öll talan, 877 millj., 1977 883 millj. og á árinu 1978 1515 millj.

Sérstök rekstrarlán vegna dilkakjötsútflutnings SÍS: Þessi lán hafa verið veitt samkv. ákvörðunum bankastjórnar hverju sinni. Útborgun hefur farið fram á mismunandi tímabilum innan hvers árs, t. d. mars-sept. 1976, júlí-okt. 1977 og júní-ágúst 1978. Lánin hafa numið eftirfarandi fjárhæðum á undanförnum árum í millj. kr.: 1975 210 millj., 1976 265 millj., 1977 175 millj. og 1978 200 millj.

Framangreind rekstrarlán landbúnaðarins undir liðum a — e eiga að greiðast upp í síðasta lagi í nóv. ár hvert eða á sama tíma og sláturafurðir eru veðsettar, og það skiptir ekki litlu máli.“

Ég hef nú lokið við að lesa þessar tvær grg. Mér er að fullu ljóst, að þetta er framúrskarandi leiðinlegur lestur og fremur þurrleg ræða. (Gripið fram í.) Ég þakka hv. þm. fyrir þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt mér að hlýða á mál mitt, en nú tekur betra við, því að ég ætla ekki að fara að lesa úr símaskránni eins og hv. 1. flm. fór fram á. Það kann að vera að hann hafi lesið upp úr símaskránni meðan hann var að undirbúa þessa till. sína, en hann hefði betur, áður en hann asnaðist af stað með þetta mál, lesið sér til og kynnt sér þau gögn sem eru grundvallarplögg í málinu, eins og þau sem ég var að þylja úr áðan. Það er þó betra seint en aldrei. (Gripið fram í.) Það gerir ekkert. Það er ekkert gagn að því að hafa gögnin liggjandi á borðum ef menn eru ekki menn til þess að lesa þau eða fletta þeim og kynna sér hvað í þeim stendur. — Það getur vel verið að ég taki mig einhvern tíma til og fletti þessari símaskrá, a. m. k. þegar ég þarf að hringja til Eyjólfs vinar míns, hv. þm. en ég ætla ekki að eyða tíma d. í það mál. (Forseti: Þá er klukkan kortér yfir.)

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki lokið máli mínu, en ég geri hér stans og þakka fyrir það hljóð sem ég hef fengið fram að þessu.