15.05.1979
Efri deild: 101. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4784 í B-deild Alþingistíðinda. (4051)

305. mál, fiskvinnsluskóli

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. um minni háttar breyt. á l. nr. 55 frá 15. apríl 1971, um fiskvinnsluskóla. Þetta frv. er flutt samhliða flutningi frv. um Framleiðslueftirlit sjávarafurða og meginmarkmiðið með flutningi þessara frv. er að taka af öll tvímæli um réttarstöðu fiskiðnaðarmanna, þegar þeir hafa lokið prófi frá Fiskvinnsluskólanum, og setja skýrari ákvæði um lokapróf, verklegt próf og starfsþjálfun að loknu prófi. Stefnt er að því að afmarka betur en gert er nú námskeiðahald fyrir matsmenn svo og endurmenntun þeirra. Námskeiðahald hefur verið á vegum Framleiðslueftirlitsins, en með þessari breytingu er gert ráð fyrir því að Fiskvinnsluskólinn taki að sér að halda þessi námskeið og leiti samvinnu við Framleiðslueftirlitið við skipulagningu námskeiðanna.

Í 3. gr. frv. er fjallað um skólanefnd og gert ráð fyrir að einn af skólanefndarmönnum sé tilnefndur af Fiskiðn, sem er nýstofnað fagfélag fiskiðnaðarins. Þetta félag var stofnað í seinasta mánuði og í því eru þeir menn sem tekið hafa próf af þessu tagi. Virðist mér eðlilegt að þeir eigi aðild að skólanum. Hins vegar hafa fleiri aðilar óskað eftir að eiga aðild að þessari skólanefnd, og er það sérstaklega Framleiðslueftirlitið sem þar getur komið til álita. Hér er ekki gerð tillaga um þá breytingu, en skipan skólanefndar verður nánar athuguð í n. sem fær þetta mál til meðferðar.

Að öðru leyti held ég að ekki sé ástæða til að fjölyrða um þetta frv. Ég vil leyfa mér að leggjá til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. menntmn.