15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4790 í B-deild Alþingistíðinda. (4067)

249. mál, afborgunarkaup

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vestf. sem er frsm. nál. um frv. sem hér liggur fyrir til 2. umr., frv. til l. nm afborgunarkaup, að umsagnir hafa komið seint vegna þessa frv. Hann gerði að nokkru skil þeim umsögnum sem komu annars vegar frá Verslunarráði Íslands og hins vegar frá Neytendasamtökunum.

Það hefur komið fram að allir hv. nm. stóðu og standa að nál., en þess ber að geta, og það er mikilvægt, að það var samið áður en umsagnirnar komu til n., eins og lýst var áður. Eftir að hafa kynnt mér lítillega umsög Verslunarráðs Íslands þykir mér einsýnt að fara verði fram á að n. fái þetta mál aftur til athugunar milli 2. og 3. umr. og kalli til sín fulltrúa annars vegar Verslunarráðs Íslands og hins vegar Neytendasamtakanna til þess að athuga hvort ekki sé hægt að komast að sameiginlegri niðurstöðu þessara tveggja aðila sem eru fulltrúar þeirra er þetta mál varðar. Ástæðan fyrir þessu er sú sem kom fram í upplestri hv. 3. þm. Vestf. úr umsögn Verslunarráðs Íslands, en hann lét þess þó ógetið, sem stendur í upphafi þeirrar umsagnar, að á sínum tíma hafi Verslunarráðið lagt mjög mikla vinnu í könnun á afborgunarmálunum og sent þær niðurstöður til viðskrn. Mér finnst vanta á að sagt sé frá því í skýringum með frv., hvernig tekið hafi verið á þeim athugunum sem Verslunarráðið lét fara fram á sínum tíma.

Í sambandi við afborgunarkaup er það að segja, að hingað til hafa í stað skráðra laga komið dómapraxis annars vegar og fræðiritgerðir hins vegar sem stuðst hefur verið við í sambandi við afborgunarkaup. Það er alveg rétt, að vantað hefur tilfinnanlega skráðar lagaheimildir eins og til eru víðast annars staðar í nágrannalöndum okkar. En ef það reynist rétt, sem Verslunarráðið heldur fram, að þessi lög yrðu til þess að útrýma afborgunarkaupum, er verr af stað farið en heima setið varðandi þessa lagasetningu.

Við skulum átta okkur á því hvað stendur, og það las hv. þm., í lok aths. um 9. gr. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Flestir munu sammála um, að víxlanotkun keyri úr hófi fram hér á landi og nauðsynlegt sé að úr henni verði dregið. Ákvæði þetta miðar að því, að svo verði.“

Ég vek mikla athygli á því sem þarna stendur. Þetta er augljóst markmið og þarf ekki að brýna fyrir hv. alþm. hve nauðsynlegt er að reyna að eyða sem mest víxlum úr viðskiptum. En í umsögn Verslunarráðsins kemur fram, að það sé samdóma álit allra þeirra sem þeir hafa talað við að þessi löggjöf leiði til þess, að í stað þess að útrýma víxlunum verði eingöngu stuðst við víxla og afborgunarkaup í eiginlegri merkingu útrýmist þar með. Þegar af þeirri ástæðu, sem ég hef tiltekið, hlýtur að vera afar nauðsynlegt að hv. fjh.- og viðskn. þessarar d. kalli til sín fulltrúa annars vegar Verslunarráðsins og hins vegar Neytendasamtakanna, ásamt fulltrúa rn. og þá væntanlega höfundi frv, Gylfa Knudsen, og ræði þessi mál og athugi hvort ekki sé hægt að komast að niðurstöðu sem sé betri en sú sem hér er um að ræða.

Hér hefur skort skráðar lagaheimildir um þetta efni um áratugaskeið. Nokkrir dagar ættu því að mega líða í viðbót og málið yrði kannað á þeim tíma, ef það gæti orðið til góðs fyrir viðskiptalífið hér á landi. Ég mælist þess vegna eindregið til þess, að umr. um þetta mál verði frestað um sinn og n. taki til starfa og kalli til sín þá fulltrúa, sem ég hef hér nefnt, og kanni hvort ekki er hægt að hnika til frv. þannig að löggjöfin nái tilgangi sínum. Fari svo, að meiri vinna þurfi til að koma, tel ég að full ástæða sé til þess að málið sé skoðað yfirsumarmánuðina og lagt fram aftur í haust og afgreitt þá.

Ég vil í lok ræðu minnar, herra forseti, taka það skýrt fram, að mál mitt beinist ekki að því að koma í veg fyrir, að frv. um þetta efni verði samþ. á hinu háa Alþingi. Þvert á móti tel ég tilganginn með þessu frv. vera góðan. En eins og kemur fram í umsögn Verslunarráðsins virðist það vera álit þeirra, sem selja vöru, að það sem gerist eða kunni að gerast, verði frv. samþ:, sé hið gagnstæða við tilgang þess. Ég tel að við getum þess vegna fórnað þó ekki væri nema nokkrum dögum eða jafnvel vikum og kannske 2–3 mánuðum til að gera þessa löggjöf þannig úr garði að allir geti vel við unað og enginn sjái eftir því að hafa komið nærri málinu.