15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4791 í B-deild Alþingistíðinda. (4068)

249. mál, afborgunarkaup

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Megintilgangur þess frv., sem hér er nú til 2. umr., er að tryggja rétt kaupenda með svipuðum hætti hér á landi með löggjöf og gert hefur verið um áratugaskeið í grannríkjum okkar. Þeir sérfræðingar, sem um þessi mál hafa fjallað, telja að það verði einungis gert með því að aðgreina annars vegar afborgunarkaup með eignarréttarfyrirvara og hins vegar víxlaviðskipti og blanda þessu tvennu alls ekki saman.

Í umsögn Verslunarráðsins segir, að niðurstaða þess sé að afborgunarkaup í skilgreiningu frv. muni leggjast niður hérlendis ef það verður að lögum. Seljendur muni þá kjósa fremur að selja gegn víxlum og eiga ekki rétt á að endurheimta söluvöruna. Ég verð að segja það fyrir mig, að ég dreg mjög í efa að þetta sé rétt. Auðvitað eru það seljendur sem ákveða hvorn réttarfyrirvarann þeir nota sér, og að þeir hljóti í yfirgnæfandi meiri hluta tilfella frekar að kjósa víxilinn en eignarréttarfyrirvara held ég að við getum ekki sagt fullum fetum. Ég held að slíkt hljóti að verða mjög misjafnt eftir verði vörunnar og tegund vörunnar og viðskiptanna, en ég hygg að þarna sé of mikið sagt af hálfu Verslunarráðsins.

Ég vil minna á mjög jákvæða umsögn Neytendasamtakanna í þessu efni sem ég tel að skipti afskaplega miklu máli. Ég hafði ekki aðstöðu til að bera þetta mál sérstaklega undir Neytendasamtökin áður en ég lagði það hér fram, en ég hafði ásett mér að taka mikið tillit til þess sem frá þeim kæmi. Umsögn þeirra er afdráttarlaust jákvæð og það met ég mikils.

Ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga þó að málið verði skoðað aftur í nefnd. N. ræður því og einstakir nm., geri ég ráð fyrir, geta óskað eftir að n. komi saman hvenær sem er til að ræða hvaða mál sem er. En ég vil þó mælast til þess, að við afgreiddum málið til 3. umr. og n. kæmi þá saman milli 2. og 3. umr. til þess að skoða þetta mál ásamt mörgum öðrum málum sem hún er að fjalla um. Ég held þó að miðað við tiltölulega vandaðan fræðilegan undirbúning sem þetta mál hefur fengið — ég held sé alveg óhætt að segja það — um nokkurra ára skeið, væri rétt og ætti að vera unnt fyrir Alþ., þó fáir dagar séu eftir af þingi nú, að afgreiða það sem lög. Ég geri ráð fyrir að við nánari athugun málsins komist menn að þeirri niðurstöðu, að við séum að ræða þær tryggingar sem neytendur þurfa á að halda og það hljóti að vera misskilningur að seljendur hljóti alltaf fremur að kjósa víxlaréttinn en eignarréttarfyrirvarann í afborgunarkaupum.