15.05.1979
Neðri deild: 88. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4801 í B-deild Alþingistíðinda. (4084)

306. mál, eignarnám hluta jarðarinnar Deildartungu ásamt jarðhitaréttindum

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Það hlýtur ævinlega að vera þrautalending þegar neyðst er til þess að beita eignarnámi, hvort sem það eru hlunnindi eða annað sem í hlut á. Það er kannske ekki sérstök ástæða til að fagna því að grípa þurfi til slíkra aðgerða, en í þessu tilviki er þó ástæða til að fagna því að þetta frv. er hér komið fram, því að hér er um að ræða feiknarlega mikið hagsmunamál þeirra sem byggja stærstu þéttbýlisstaðina á Vesturlandi. Með því að frv. er hér komið fram er þetta mál komið á rekspöl.

Hæstv. iðnrh. hefur gert ítarlega grein fyrir tækni- og fjárhagshlið þessara mála í ræðu er hann flutti fyrr í dag. Komið hefur fram að það hefur verið þrautreynt að ná samkomulagi við eigendur og fulltrúa eigenda Deildartunguhvers, en það hefur ekki tekist. Þar hefur verið djúpstæður ágreiningur um verð og ýmislegt annað. Auðvitað er það fullkomlega óeðlilegt að einkaaðilar geti haldið jafnverðmætum hlunnindum fyrir jafnmörgum eins og hér hefur verið gerð tilraun til að gera. Það er stefna Alþfl., og þarf ekki að fara um það mörgum orðum hér, hún hefur oftlega verið kynnt, að réttindi eins og hér um ræðir eigi að vera þjóðareign. Einkaaðilum á ekki að líðast að tefja framkvæmdir og skaða þar með hagsmuni fjöldans í málum sem þessu. Þess vegna ber að fagna því að þetta skref hefur nú verið stigið, en jafnframt að harma að ekki skuli hafa tekist samkomulag, ekki skuli hafa verið sá skilningur og sú sanngirni fyrir hendi sem til þurfti til að það mætti verða.

Það hefur verið lögð mikil vinna í rannsókn og athugun þessa máls og er það vel undirbúið í hvívetna. Því er rík ástæða til að taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. 7. landsk. þm., Jósefs H. Þorgeirssonar, um að þetta mál fái greiðan gang hér á þingi og verði að lögum fyrir þinglausnir.