16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4826 í B-deild Alþingistíðinda. (4099)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Mig langar að færa hæstv. fjmrh. alveg sérstakar þakkir fyrir þá skýlausu yfirlýsingu sem hann gaf um að hann mundi beita sér fyrir því að útvega fjármagn til að leggja línu milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar nú í sumar. Eins og fram kom í framsögu hv. formanns fjh.- og viðskn. er það svo, að þessi lína kostar um 250 millj. kr., en gert er ráð fyrir að dísilorkan mundi kosta nærri því sömu upphæð á næsta vetri því að svo mikill skortur er nú á orku á Skeiðsfosssvæðinu. Þetta er þess vegna gífurlega þýðingarmikið mál fyrir Siglufjörð sem á í erfiðleikum fjárhagslega vegna rafveitunnar þar sem ný virkjun og mjög skuldug er á þessu svæði. Ég tók því málið upp í hv. fjh.- og viðskn., og eins og vænta mátti tóku allir nm. undir það að skoða þetta mál því að í þeirri ágætu n. ríkir gott samstarf. Við fengum á fund okkar forstjóra Rafmagnsveitna ríkisins og hann gaf okkur enn frekari upplýsingar um þetta og skýrði enn betur hve sjálfsagt væri að hraða þessu verkefni.

En ég sem sagt þakka hæstv. ráðh. fyrir þetta og eins samnm. mínum sem skoðuðu þetta mál af víðsýni og réttsýni. Niðurstaðan varð sú, að við legðum ekki fram brtt. til að tefja ekki framgang lánsfjáráætlunar, því að okkur er ljóst að brýn þörf er á að hún fái afgreiðslu sem allra fyrst þar sem ýmsir sjóðir bíða verklausir og mörg atvinnufyrirtæki í óvissu um lánafyrirgreiðslu og má segja að neyðarástand sé að skapast í fjármálum öllum eins og þm. er kunnugt. Við hv. þm. Jón G. Sótnes skrifuðum því undir nál. meiri hl. með fyrirvara að sjálfsögðu. Við tökum auðvitað ekki á okkur ábyrgð af öllu sem í því plaggi stendur, en við vildum með þessu sýna að við ætluðum ekki að standa gegn því að málið fengi skjóta afgreiðslu, heldur greiða fyrir framgangi þess, og málum þá auðvitað líka þann skilning sem fram kom á því að reyna að auka orkuframkvæmdir eitthvað, því að vissulega er brýn nauðsyn að það verði gert, eins og kom raunar fram í máli síðasta ræðumanns einnig.