08.11.1978
Neðri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Það hefur verið mikið rætt um þetta mál og það er rökstutt bæði með og á móti. Ætla ég ekki að bæta þar miklu við.

Hæstv. viðskrh. sagði að vaxtaupphæð hefði lítil sem engin áhrif á sparnað. Það má vel vera að það hafi verið á undanförnum árum, enda skiptir kannske ekki ýkjamiklu máli hvort vextirnir eru neikvæðir um 10 eða 15%. Þeir hafa alltaf verið neikvæðir nema um sé að ræða stuttan tíma, sem er þá afbrigðilegt. Hann sagði líka, að verðbólgan slævði vilja manna til að spara. Þetta er auðvitað rétt og er bein afleiðing af lágvaxtastefnunni.

Höfuðgallar núverandi kerfis eru auðvitað þeir, að sparifjáreigendur eru hlunnfarnir langt umfram það sem sæmandi er í réttarþjóðfélagi. Það er ekki sæmandi í réttarþjóðfélagi að stolið sé af stórum hópi fólks til þess að gefa öðrum. Það er útilokað með öllu. Hinn gallinn er sá, að verðbólgugróðinn hefur verið óhóflegur vegna neikvæðra vaxta, vegna lágvaxta. Mér finnst vera talsvert mikið á sig leggjandi til að losna við ástæðuna eða grundvöllinn að öllum þessum verðbólgugróða. Hv. 1. þm. Austurl, talaði um að leggja skatt á verðbólgugróða. Ég er honum sammála um það. Ég mun styðja hverja þá skynsamlega tillögu og hverja þá framkvæmanlegu tillögu sem hann kemur með í þá átt. Hitt er annað mál, að ég held að það sé enn þá meiri ástæða til og meira tilefni til að útiloka hann eða koma í veg fyrir að hann geti myndast í sama mæli og verið hefur.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson fór að tala um húsnæðismálin. Það var tilefni þess að ég stóð hér upp. Sannleikurinn er sá, að lán Húsnæðismálastofnunar ríkisins eru nú þegar verðtryggð. Þau eru verðtryggð að 60% og hafa þar að auki 9.75% vexti, sem þýðir að þau eru verðtryggð. Allar hugmyndir allra aðila, líka verkalýðshreyfingarinnar, um endurbætur á húsnæðislánakerfinu miða að því, að upp séu teknir raunvextir, m.a.s. í sambandi við verkamannabústaði. Þá er reiknað með 2.5% vöxtum, þó með verðtryggingu þannig að vextirnir verði 0% þegar til lengdar lætur. Aftur á móti miða hugmyndirnar að því að þau lán verði til 32 ára. Með því móti verða öll lánin, þó um 90% lán verði að ræða, talsvert lægri en gengur og gerist með húsaleigu í dag.

Hugmyndir um almenn húsnæðismálastjórnarlán eru í þá átt, að þau verði með 2–3% vöxtum til 30 ára. Það er sama þar, heildargreiðslubyrðin mun verða álíka mikil og húsaleiga er nú, með því að það séu 80% lán, og jafnvel undir því sem húsaleiga gengur og gerist. Þetta er því ekkert voðalegt vandamál gagnvart húsbyggjendum. Aftur á móti þýðir það, að þeir borga þessi lán auðvitað aftur á 30 árum eða 32 árum í sömu krónum, en þó með minnkandi hlutfalli af tekjum sínum vegna þess að þegar til lengri tíma er lítið hækkar kaupmátturinn meira en verðlagið.

Það sem mundi gerast, ef þetta raunvaxtakerfi yrði tekið upp í húsnæðismálunum er að þær drápsklyfjar, sem nú sliga húsbyggjendur og þá sem eru að kaupa íbúð, mundu hverfa. Fólkið mundi borga álíka mikið og það borgar í leigu og jafnvel minna, talsvert minna ef um verkamannabústaði er að ræða, en aftur á móti yrði það ekki traust við öll sín lán eftir 10–15 ár, það borgaði áfram, að vísu minnkandi hlutfall af launum sínum, en eigi að síður borgaði það sömu peninga þó á lengri tíma sé.

Viðvíkjandi því, sem síðasti ræðumaður, Stefán Valgeirsson, sagði um að jafna lífsaðstöðuna í þjóðfélaginu, er ég honum sammála. En ég held að þetta frv. skerði hana ekki og gangi alls ekki þar á móti, heldur hið gagnstæða.