16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4832 í B-deild Alþingistíðinda. (4102)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Það er dýrt að vera fátækur, segir gamalt máltæki, og það sannast hér eins og oftar. Það væri gaman að geta flutt till. um þessar og hinar framkvæmdir sem eru nauðsynlegar, en við getum því miður ekki leyft okkur vegna þess að það væri ábyrgðarleysi að vera með því að auka erlendar skuldir okkar. Þetta segi ég í sambandi við till. hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, að mér finnst, þó að ég virði hann mikils sem forseta þessarar d., að hann sýni nokkuð mikið ábyrgðarleysi í tillöguflutningi sínum hér, vitandi fullvel að sjálfsagt vildu allir dm. geta fylgt þessum till:, en vita sem er að þess er enginn kostur eins og mál standa í dag.

En önnur ástæða var til þess að ég kvaddi mér hér hljóðs. Ég þykist vita að minn ágæti vinur og mikli drenglundarmaður að minni reynslu, Jón G. Sólnes, hafi í og með verið að ýja að afstöðu okkar Alþfl.-manna varðandi Kröfluvirkjun þegar hann var að tala um trúarbrögð og ofstæki í sambandi við virkjunina. Ég vil ekki taka undir það að ég hafi sýnt ofstæki í þeim málum. Hinu vil ég ekki liggja á, að við umbrotin, sem hófust rétt eftir að Kröfluvirkjun fór af stað, mótaðist sú skoðun mín, að það væri sjálfsagt mál að bíða meðan þau umbrot stæðu yfir, og sú skoðun hefur ekki haggast. Ég er alveg sannfærður um að ef við hefðum haft vit á því að stansa þá og fara ekki í þær framkvæmdir sem nú er búið að gera, þá væri ýmislegt öðruvísi umhorfs í okkar þjóðlífi. Hitt get ég tekið undir með hv. þm. Jóni G. Sólnes, að mér finnst fjármögnun Kröfluvirkjunarframkvæmda hafa verið með allt öðrum hætti en t. d. Landsvirkjun hefur fengið að fjármagna sínar framkvæmdir. En mig grunar að það sé í og með vegna þess að þessi mál hafa verið knúin fram af meira kappi en forsjá og Kröfluvirkjun hafi goldið þess.

Mér er það fullkomlega ljóst, að eins og mál standa í dag er afar dýrt fyrir þjóðina að láta svo mikla framkvæmd sem Kröfluvirkjun er orðin standa lítt eða ekki notaða. Ég get t. d. sagt hv. þd. frá því, að við Kröfluvirkjun, sem framleiðir ekki nema ca. 7–8 mw. í besta falli, starfa, ef ég veit rétt, 13 manns, en við Laxárvirkjun, sem framleiðir 18 mw., starfa 4 menn og að auki rafveitustjórinn á Akureyri sem tekur að hálfu leyti laun sín, ef ég veit rétt, hjá Laxárvirkjun. (JGS: Það verða ekki fleiri starfsmenn þegar komið er upp í 60 mw.) Nei, ég er að benda á það, að í sjálfu sér er rétt, að það væri æskilegt að geta framleitt meira við Kröflu þegar búið er að leggja í svona mikinn kostnað við fyrirtækið og þegar svona mikill daglegur kostnaður er við fyrirtækið. Þar eru margir menn að störfum og afköstin eftir þá, ef reiknað er í megawöttum, eru sáralítil. Undir allt þetta get ég tekið með Jóni G. Sólnes. En það haggar ekki því, að enn standa yfir umbrot á þessu svæði og mér finnst ábyrgðarhluti að kasta miklu fé í þessar boranir meðan við vitum ekki hvert framhaldið verður. Vonandi fer að draga úr jarðhræringunum, og þá er hægt að taka þetta mál upp á ný. En eins og málin standa í dag er ég algerlega á öðru máli en Jón G. Sólnes um að þarna eigi að leggja fram mikla peninga.

Hv. þm. var að tala um borinn sem hann hefði verið búinn að útvega með hagkvæmum kjörum 1975. Þetta má túlka svo. En má ekki alveg eins segja að það hefði verið hægt að spara stórfé með því að Jón G. Sólnes hefði nú ekki verið svo kappsfullur þegar eldsumbrotin hófust og haldið áfram tvísýnu verki hvað sem tautaði og raulaði?