16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4833 í B-deild Alþingistíðinda. (4103)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði að till. þær, sem ég flyt á þskj. 735 og ég hef mælt fyrir, bæru vott um ábyrgðarleysi. Ég kem hér upp til þess að mótmæla þessari fullyrðingu.

Hv. þm. sagði nokkur vísdómsorð, eins og að það væri dýrt að vera fátækur og það mætti ekki auka erlendar skuldir. Við höfum heyrt þetta áður. En þetta eru harla lítil rök fyrir þeirri ásökun sem felst í því að halda fram að till. þær, sem hér eru fram bornar til breytinga, sýni ábyrgðarleysi vegna þess að það eigi að taka lán. Í fyrsta lagi segir ekki í þessum till. að það eigi að taka erlent lán. Það segir hvergi. Ég vitnaði í máli mínu áðan til þáltill. sem ég ásamt fleiri samþm. mínum hef borið fram um auknar framkvæmdir í orkumálum árið 1979. Gert er ráð fyrir í þessari þáltill. að fjármagn það, sem til þurfi á árinu 1979, skuli fá með lántökum og beinum framlögum úr ríkissjóði, enda verði beitt niðurskurði á öðrum útgjöldum ríkissjóðs í því skyni.

Brtt., sem hér er borin fram, getur ekki fjallað um það að ákveða greiðslur úr ríkissjóði. Því er það ekki tekið fram. En ábyrgðarleysið í þessu efni er þó ekki meira en það, að við gerum ráð fyrir að önnur útgjöld ríkissjóðs séu skorin niður á móti.

Er það svo alveg víst að það væri ábyrgðarleysi þó að beinlínis væri lagt til að tekið væri erlent lán til tiltekinna framkvæmda í orkumálum? Ég held að það sé augljóst, ef við meinum eitthvað með því þegar við erum að tala um mikilvægi orkumálanna, að það þurfi ekki að vera ábyrgðarleysi að taka erlent lán til þess að spara erlendan gjaldeyri. Og það orkar ekki tvímælis, að ekkert sparar erlendan gjaldeyri meira en hagkvæmar framkvæmdir í orkumálunum.

Nei, það eina, ef við ættum að tala um ábyrgðarleysi í þessum efnum, er það, að það er ábyrgðarleysi að gera ekki greinarmun á þeim framkvæmdum, sem eru hagkvæmastar frá þjóðhagslegu sjónarmiði, og öðrum framkvæmdum. Við erum alltaf að tala um að það séu orkuframkvæmdirnar sem séu hagkvæmastar. Þess vegna getur það ekki að mínu viti verið ábyrgðarleysi að leggja áherslu á slíkar framkvæmdir.