08.11.1978
Neðri deild: 13. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (411)

9. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Frv. okkar sjö þm. Alþfl. í þessari deild hefur nú verið til umr. hér um allnokkurt skeið. Er flm. eðlilega farið að lengja eftir því, að það komist til afgreiðslu í n. til samþykktar þar eða synjunar. Mig langar þó, án þess að eyða að því mjög mörgum orðum, að gera nokkrar aths. við þann málflutning sem hér hefur verið hafður uppi einkum gegn þessu frv.

Á það ber auðvitað að líta fyrst, að undanfarin ár hefur í þessu landi ekki verið neitt venjulegt ástand í efnahagsmálum. Á árunum upp úr 1970 gerðist það, að stjórnvöld misstu gersamlega tök á því sem kallað hefur verið verðbólga. Það er ekkert venjulegt ástand í efnahagslífi þjóðar þegar 50% og kannske rúmlega 50% verðbólga er orðin árviss þáttur í efnahagslífi. Það, sem mér hefur fundist helst athugavert, þó af mörgu sé að taka í málflutningi þeirra talsmanna neikvæðra vaxta, t.a.m. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og Stefáns Valgeirssonar, er það, að þeir og mér liggur við að segja þessi kynslóð stjórnmálamanna virðist sætta sig við það, að hér sé varanleg 50% verðbólga orðin fastur liður í efnahagslífi okkar. Ef svo væri, þá væri vitaskuld ekki hægt annað en að fallast á meginrök þeirra. Ef við erum orðnir fastir í þeim farvegi, þá lítur málið allt öðruvísi út. En við t.a.m., flm. þessa frv., lítum allt öðruvísi á. Við lítum svo á, að hér sé einungis um tímabundið ástand að ræða. Það er auðvitað bæði komið undir frjálsum samtökum úti í samfélaginu og ekki síður undir aðgerðum þessarar hv. stofnunar, hvernig okkur reiðir af í þessum slag, og grundvallarhugsunin í þessu frv. er einmitt að höggva á einn af hnútunum sem við teljum að hafi valdið verðbólguástandi. Ég endurtek það, sem sagt hefur verið áður: Grundvallarhugsunin er að eyða forsendum verðbólgugróðans.

Mér þótti einnig leitt að heyra, að í málflutningi eins talsmanna gegn þessu frv., hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, var það eins og grunntónn eða inntak, að hér í landinu væri eiginlega enginn verðbólgugróði. Ég verð að segja eins og er, sem því sem næst daglegur lesandi Þjóðviljans, að þessi skoðun kemur mér ákaflega spánskt fyrir sjónir úr þessum herbúðum. Ég er ekki viss um að margir af flokksbræðrum hans mundu fallast á þessar skilgreiningar, að verðbólguvandinn sé eiginlega enginn og því sem næst ekkert vandamál, eins og hv. þm. sagði efnislega, raunar aftur og aftur. Ég held þvert á móti að verðbólgugróðinn, sem hefst með þeim hætti að verða sér úti um lánsfé sem menn eða fyrirtæki greiða ekki til baka nema að litlum hluta, tekst hins vegar að tryggja í eignum sem halda verðgildi sínu í verðbólgunni, þetta sé — og ég vitna enn í fyrrv. þm. Magnús Kjartansson máli mínu til fulltingis — ein aðalgróðamyndunaraðferðin í samfélaginu. Áhyggjuleysi og kæruleysi hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar vegna þessarar þróunar og vegna þessarar gróðamyndunaraðferðar, til að taka ekki dýpra í árinni, og röksemdafærslur hans koma mér a.m.k. ákaflega spánskt fyrir sjónir.

Það er fróðlegt að bera saman afstöðu tveggja þm. til þessa frv. Hér talar hv. þm. Geir Hallgrímsson. Hann er formaður Sjálfstfl. — flokks sem venjulega hefur verið sagður bera hagsmuni fyrirtækjanna í landinu og gróðans fyrst og fremst fyrir brjósti. Ég hef a.m.k. lesið í Þjóðviljanum að svo sé. Hv. þm. Geir Hallgrímsson hefur þó ekki meiri áhyggjur af afkomu fyrirtækjanna í þessu máli en svo, að hann er efnislega samþykkur þessu frv. En þá bregður svo við, að talsmaður Alþb. telur að fyrirtæki muni í stórum stíl fara á höfuðið, að hér sé um — að mér skilst — freklega árás á fyrirtækin í landinu að ræða. Er nú engin furða þó mörgum þyki pólitíkin vera farin að fara í hring og vera öfugsnúin, þegar þeir keppast um það — og hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur greinilega betur í því að vera sérlegur talsmaður fyrirtækjanna í landinu, enda er kjarni málsins sá.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson segir réttilega, að 1. maí 1976 hafi hér verið tekin upp með pomp og prakt af hálfu Seðlabankans ný stefna í vaxtamálum, sem hann vill kalla hávaxtastefnu, og hann segir: Hávaxtastefna þýðir að fyrirtæki fara á hausinn. — Ég vil spyrja: Eftir að þessi hávaxtastefna svokölluð var tekin upp, þar sem reynt var einungis að nálgast raunvexti, hvað hafa mörg fyrirtæki í landinu farið á hausinn vegna þessarar breyttu stefnu? Mér er ekki kunnugt um eitt einasta sem hafi farið á hausinn, og af því dreg ég — án þess að fara ofan í talnaflækjur — þá einföldu ályktun að hagsmunir fyrirtækjanna í þessu dæmi, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur gert að hagsmunum sínum og gerst málsvari fyrir, sé aðeins gamli barlómurinn, sem fyrirtæki auðvitað nota alltaf þegar þau standa frammi fyrir því að þurfa að greiða fleiri krónur — í þessu tilfelli að greiða lánsfjármagnið á réttu verði.

Ég segi því einungis þetta: Þó að fyrirtæki mörg hver rækju upp ramakvein við breytta vaxtastefnu Seðlabankans 1. maí 1976 og áfram hef ég ekki séð eitt einasta fara á hausinn. Það sem síðar gerðist — það er rétt — var að það var horfið frá þessari stefnu aftur. Mér segir svo hugur um að það sé rétt, eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði, að þar hafi verið um að kenna aumingjaskap. Það voru að nálgast kosningar. Það var víða þrýst á. Þar voru að verki stéttir og aðrir sem vildu auðvitað lægri vexti, vildu ekki borga fjármagnið til baka á kostnaðarverði, og stjórnvöld létu því miður undan þessum þrýstingi.

Áróðurstónn er hafður í frammi um þessar tillögur, sagt að við séum að leggja til hávexti og séum hávaxtamenn. Þetta er rangt, nema því aðeins að menn hafi viðurkennt að við séum flæktir í 50–60% verðbólgu og verðum það um næstu áratugi og kynslóðir. Ég fyrir mitt leyti neita að svo sé. En varnaraðilar neikvæðra vaxta, eins og hv. þm. Lúðvík Jósepsson og Stefán Valgeirsson, tala um hávexti, minnast jafnan á 50–60% vexti. Það er því aðeins rétt að við séum fastir í þessum verðbólgufarvegi. Ég tel hins vegar að svo sé ekki og tel að það, sem við erum hér að leggja til, sé nákvæmlega spor í þá átt að káka ekki eilíflega í afleiðingum verðbólgunnar, heldur reyna að höggva á einn hnútinn sem hnýtir hana saman og hefur gert hana að efnahagslegum veruleika í þessu samfélagi.

Annað, sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur nefnt til gagnraka í þessu máli, er að enn einu sinni komi menn, sem halda að þeir hafi fundið upp „patent“ til þess að leysa verðbólguvandann. Auðvitað er ekki svo, auðvitað hefur ekki nokkrum manni dottið í hug að þetta eitt nægi. Þetta hangir auðvitað saman við fjölmargt annað. Eins og hér hefur verið nefnt, tengist það t.a.m. beitingu vísitölu, viðmiðun hennar við laun o.s.frv. En kjarni málsins er sá, að ef raunvextir ganga hönd í hönd við að öðru leyti skynsamlega stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, þá er þetta eitt lykilatriðið til þess að koma í veg fyrir að menn græði á verðbólgu, til að deyfa þar með einn helsta verðbólguhvatann, og þegar til lengri tíma er lítið og þegar við horfum út fyrir þessa venjulegu sex mánuði, þá yrði þetta til þess að slæva stórkostlega verðbólguþróunina í landinu.

Gagnrýnendur þessa frv., hv. þm. Lúðvík Jósepsson og Stefán Valgeirsson, hafa gert sér mat úr því að við þm., t.a.m. við Gunnlaugur Stefánsson, höfum ekki skilning á hagsmunum húsbyggjenda. Ég held nú að bernska okkar, sem oft hefur verið vísað til hér, geri það að verkum, að við þekkjum þetta fólk betur en margir aðrir gera í þessari hv. deild og það af nánum kynnum. Hagsmunir húsbyggjenda eru ekki þeir að þurfa að borga húsaæði sitt upp á 10 árum og sprengja sig nánast efnahagslega, eins og hér hefur verið. Hagsmunirnir eru allt aðrir. Hagsmunir eru þeir að fá að gera þetta á lengri tíma. Hæstv. félmrh. hefur hér lýst hvað raunverulega er að gerast í þessum efnum. Kynslóð okkar Gunnlaugs Stefánssonar væri betur borgið ef þetta fólk borgaði til baka það sem það hefur fengið lánað. Það mundi aftur hlaða undir aukið efnahagslegt siðferði í þessu landi, ef lánunum væri dreift á miklu lengri tíma en nú er, til þess bæði næðist jafnvægi í efnahagsmálum og í lífi þess fólks sem er að byggja yfir sig. En ég veit ekki hvort hv. gagnrýnendum þessa frv., Lúðvík Jósepssyni og Stefáni Valgeirssyni, er kunnugt um hvað fólk leggur á sig til þess að koma yfir sig húsnæði, eða er kunnugt um hvernig fólk þarf að vinna fyrstu 5–6 árin meðan það er að borga hinar hæstu greiðslur niður. Við höfum þvert á móti alltaf tekið fram, talsmenn þessa frv., að húsnæðismálin þurfi sérstaklega að taka út úr með þeim aðferðum sem hæstv. félmrh. m.a. hefur lýst hér.

Hv. þm. Einar Ágústsson fjallaði um þetta mál fyrir alllöngu, þegar það kom til 1. umr. Ég vil aðeins gera tvær aths. við hans mál. Í fyrsta lagi benti hann réttilega á, að það væri hæpið að geta náð til ávísanareikninga og hlaupareikninga. Það er auðvitað alveg rétt, enda er þar ekki um sparnaðarform að ræða. Þar eru nánast um að ræða frekar geymslureikninga. Ég tel að það væri framkvæmdaatriði hvernig efni þessa frv. næði til slíkra reikninga, en ég vil gera greinarmun þarna á sparnaðarreikningum annars vegar og geymslureikningum hins vegar. í ræðu hv. þm. fannst mér orka meir tvímælis eitt sem hann sagði, en það var efnislega á þá leið, að þetta fæli e.t.v. ekki mjög mikla breytingu í sér, vegna þess að vaxtavaldið hefði verið hjá Seðlabankanum, en Seðlabankinn hefði ekki lagt í að fara hærra með vextina en hann hefur gert.

Nú hefur hv. þm. Einar Ágústsson auðvitað meiri reynslu en ég í því, hvernig er að sitja í ríkisstj. En þó hygg ég að hér sé efnislega farið nokkuð skakkt með, því að þó svo vaxtavaldið hafi lögum samkv. verið hjá Seðlabankanum, þá hygg ég að í raun hafi það verið, og það sé einn aðalvandi þessa máls, ríkisvaldið sem á hverjum tíma hafi ráðið vaxtastefnu. Í öðrum löndum og okkur skyldum er það svo, að viðkvæm mál eins og vaxtamál hafi verið lögð til hliðar til Seðlabankans sem raunverulega fer með þetta vald, en mála sannast sýnist manni að þessu hafi ekki verið svo farið hér, heldur hafi stjórnvöld verið að krukka í vextina á hverjum tíma. Þrýstihóparnir ýta á, landbúnaðurinn ýtir á, fær allra lægstu vexti á sín afurðalán. Það, sem hann er að biðja um, eru auðvitað styrkir, þó að það heiti þessu nafni. Í síðustu kosningum er mér kunnugt um að talsmenn landbúnaðarins úti um hinar dreifðu byggðir Íslands áttu í vök að verjast fyrir gagnrýnendum úr hópi bænda, sem sökuðu þá um að hafa ekki komið afurðavöxtunum nógu langt niður. Þetta er auðvitað sá venjulegi þrýstingur. En það sem við segjum er að öll stjórnmál snúist um þetta, en það sé óheilbrigt að þessi þrýstingur fari fram í kerfi sem við samt sem áður köllum lán. Ég hygg þvert á móti, að vaxtavaldið hafi ekki verið í Seðlabankanum, það hafi verið í reynd hjá ríkisstj. á hverjum tíma og að þetta kerfi okkar, m.a. að hægt hefur verið að breyta lánum í styrki vegna verðbólgu og gegnum kerfi neikvæðra vaxta, hafi orðið að efnahagslegu samspili sem ekki hafi reynst okkur vel.

Öll röksemdafærsla andstæðinga þessa frv., og þá kannske fyrst og fremst hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, gengur út á það, að þetta muni leika fyrirtækin illa. Stefnubreytingin 1976 lék ekki fyrirtæki illa. Ég sé hvergi nein fyrirtæki sem fóru á hausinn vegna hækkaðra vaxta. Er þetta ekki bara gamli barlómurinn í fyrirtækjunum? Og annað er það, að ég man aldrei eftir því, að launþegahreyfingin í landinu hafi farið fram á hærri laun þannig að fyrirtækin svöruðu ekki og segðu: Ef launin hækka, getum við ekki staðið undir þeim, þá velta þau beint út í verðlagið, valda aukinni verðbólgu, og hringrásin fer af stað. — Að hluta til er þetta auðvitað alveg rétt. En hér er ekki verið að leggja til tilfærslu á tilteknum upphæðum. Hér er verið að leggja til grundvallarbreytingu í efnahagskerfi okkar, sem sé að lán í lánakerfi séu endurgreidd á fullu verði og einhverjir örlitlir vextir þar ofan á. Það mundi stöðva skriðu sem hefur verið m.a. á bankaútlánakerfum í landinu og valdið samfélaginu skaða.

Þetta mál er í fyrsta lagi réttlætismál vegna þess hverjir hafa tapað á því að sparifé þeirra hefur brunnið upp og með hverjum hætti það hefur gerst. Í annan stað er verið að leggja til að löggjafinn grípi í taumana og leggi aðeins eitt lag af mörgum, leggi grundvöll að heilbrigðari efnahagsstefnu en hér hefur verið. Ég veit að það kynnu tveir menn að vera að hlusta á rök mín. Fullorðinn maður, sem hefur horft á sparifé sitt brenna á undanförnum árum, hefur samúð með málflutningi mínum. Á þetta mál kynni líka að vera að hlusta maður, sem hefur haft ótakmarkaðan aðgang að bönkum hér í Reykjavík, hefur fengið lán, byggt yfir sig hallir og endurborgað lánin að hluta. Þessi maður hefur samúð með hv. þm. Lúðvík Jósepssyni og Stefáni Valgeirssyni. Það breytir ekki hinu. Auðvitað getum við þurft að styrkja atvinnugreinar: landbúnað, iðnað, hvaða atvinnugreinar sem vera skal. Ef við tökum ákvörðun um það, þá skulum við gera það á yfirborðinu og kalla það styrki og styrkja þá. En við skulum ekki búa við það styrkjakerfi sem hér hefur raunverulega verið búið til í gegnum lánakerfið. Það elur á rangri fjárfestingu, það elur á spillingarhættu, það elur á misnotkun og það gerir allt efnahagskerfið hjá okkur óheilbrigt, og út úr þessum vítahring verðum við að berjast. Þetta er réttlætismál nr. eitt, þetta er till. um heilbrigðari efnahagsstjórn nr. tvö, og sem slíkt geri ég mér miklar vonir um að þetta frv. nái samþykki, kannske í eitthvað breyttri mynd.