16.05.1979
Efri deild: 103. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4836 í B-deild Alþingistíðinda. (4110)

263. mál, eftirlaun aldraðra

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Eins og segir í grg. með frv. þessu er tilgangur þess að hrinda í framkvæmd fyrirheitum um lífeyrismál sem ríkisstj. gaf í júnímánuði 1977 til að greiða þá fyrir samkomulagi við launþega. Ekki ætla ég þeim mönnum að um viljaleysi hafi verið að ræða, heldur aðeins það hvað málið var vandasamt, að þetta mál hefur ekki séð dagsins ljós fyrr en nú. En það sýnir þá kannske um leið hvers vegna við í n. höfum verið nokkra stund að afgreiða málið frá okkur, úr því að fyrrv. hæstv. ríkisstj., sem samdi um þetta ákvæði í júnímánuði 1977, hafði ekki tekist að koma því á borð okkar, áður en hún fór frá, vegna einmitt þess vanda sem alveg sérstaklega felst í fjármögnun.

Ég held að það hafi ekki farið neitt á milli mála í heilbr.- og trn., að þar voru allir á því að meginefni þessa frv. ætti að lögfesta sem allra fyrst. Og ég held að það sé ekkert gleðiefni fyrir neinn okkar, sem í þessari n. störfum, að þurfa að færa gildistökuna til 1. jan. En eftir að búið var að skoða málið nánar og kynnast hug þeirra aðila, sem þurfa að taka á sig þessar byrðar, og kynnast hag sumra hverra þeirra sjóða sem þar eiga fé af hendi að láta, þá var ofureðlilegt að við freistuðumst til þess að fresta þessu annars svo nauðsynlega máli svo sem nál. ber vitni um.

Það hefur sem sagt dregist langt um of, miðað við það samkomulag sem gert var 1977, að hrinda þessu máli í framkvæmd. Og það er út af fyrir sig ekkert gleðiefni að þurfa að draga það 4 mánuði enn þá, þó ég telji það vel þess virði ef á þeim tíma finnst réttlát og eðlileg leið til þess að standa undir fjármögnun þannig að menn verði sæmilega ánægðir með það, þó ég efist um að einhverjir erfiðleikar eigi eftir að koma þar til.

Varðandi Atvinnuleysistryggingasjóðinn vitum við auðvitað öll að vandi hans er nú mikill. Það hefur komið skýrt fram í máli hæstv. heilbrrh. áður á þessu þingi, að það væri stefna hans og ríkisstj. að fella fæðingarorlofið svokallaða, sem nú hvílir á Atvinnuleysistryggingasjóði, út úr þeim sjóði, færa það yfir á þann rétta vettvang sem fæðingarorlofið á að vera, inn í almannatryggingakerfið. Vitanlega þarf þá nýr aðili þar til að koma til þess að greiða. En það óeðlilega fyrirkomulag, sem nú er, verður þá afnumið og um leið verður vissum byrðum létt af Atvinnuleysistryggingasjóði og hugsanlegt að hann gæti þá, án þess að ég ætli neitt um það að fullyrða, tekið á sig vissar skuldbindingar varðandi þetta tiltekna frv.

Um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga er það auðvitað staðreynd, að sveitarfélögin, eins og margoft hefur verið tekið fram, standa mörg hver eða flest hver höllum fæti, eiga í erfiðleikum. Þegar kom í ljós til viðbótar að ekki hafði verið leitað samráðs við sveitarfélögin varðandi framlagningu þessa frv. og þær byrðar sem sveitarfélögunum var ætlað að taka á sig með því gjaldi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, þá var von að við hikuðum nokkuð við og vildum skoða allar mögulegar leiðir til þess að ná málinu fram, en engu að síður með þeim afleiðingum að gildistökunni yrði þá frestað.

Ég held sem sagt að aðalatriðið sé það, sem kom fram í máli hv. frsm., að málið er nú komið á réttan rekspöl og við höfum sett ákvæði til bráðabirgða sem er ákveðið og við treystum að verði framfylgt. Við þekkjum önnur ákvæði til bráðabirgða sem sett hafa verið, þar á ég við fæðingarorlofið, fjögurra ára gömul ákvæði til bráðabirgða sem samþ. voru og aldrei hafa komist í framkvæmd og aldrei hefur verið gert neitt í mér vitanlega af alvöru til þess að leiðrétta, fyrr en þá að því hefur verið hugað í tíð núv. ríkisstj. Því held ég að þetta ákvæði, sem hér er til bráðabirgða, leggi stjórnvöldum þá skyldu á herðar að leysa vanda þessara tveggja sjóða, með hvaða hætti sem það verður gert, án þess að ég vilji fullyrða það hér og nú að ég sé á því að létta alfarið þessum byrðum af þessum sjóðum. Ég álít að það sé mjög hæpið að hugsa sér að sveitarfélögin taki engan þátt í þessu. En það þarf þá að tryggja hag þeirra betur. (Gripið fram í.) Já, þau gera það. Ég meina: til viðbótar. Og sama er að segja um Atvinnuleysistryggingasjóð ef staða hans batnar gagnvart fæðingarorlofinu. Ég er þess vegna alls ekki að halda því fram, og veit að meðnm. mínir eru mér sammála um að við erum alls ekki að halda því fram, að það eigi algjörlega að þurrka út hlutdeild þessara tveggja sjóða, þó að vissum byrðum verði af þeim létt svo að þeir eigi betra með að taka við þeim byrðum sem kynnu að verða lagðar á þá í þessu sambandi.