16.05.1979
Efri deild: 104. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4841 í B-deild Alþingistíðinda. (4132)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Mér gafst ekki færi á að taka þátt í 2. umr. um þetta mál, en vil nota þetta tækifæri, fyrst umr. verða hér við 3. umr., að lýsa þeirri skoðun minni, að þær till., sem hér hafa verið fluttar við 2. umr. og einnig nú við 3. umr., eru að mínum dómi mjög skynsamlegar ráðstafanir í orkumálum, þótt það hafi verið útskýrt hér að nauðsyn beri til þess að við afgreiðum lánsfjáráætlunina með þeim hætti sem við erum að gera hér nú vegna vantrausts okkar-þrátt fyrir alla virðingu á hv. Nd. Alþ. — að henni takist að ljúka málinu í tæka tíð. En það breytir ekki þeirri skoðun minni, að það er mitt mat að hér í hv. d. sé í raun meiri hl. fyrir því að láta fara fram bæði þá línulögn og eins þær boranir og aðrar hugmyndir sem hér hafa verið reifaðar til þess að ná meiri hagkvæmni í orkumálum og bæta úr fyrirsjáanlegum orkuskorti. Ég tel t. d. að miðað við þá fjárfestingu, sem þegar hefur verið lögð í Kröfluvirkjun, og mat þeirra sérfræðinga, sem þar hafa látið í ljós skoðanir, og þá staðreynd að borinn er nú fyrir norðan, þá sé tvímælalaust rétt að láta fara fram borun á a. m. k. einni holu við Kröflu til þess að sjá hvort það leiðir ekki til jákvæðrar niðurstöðu. Eins og hér hefur komið fram hvað eftir annað um meðferð þessa máls hér í dag, þá hefur af vinnutæknilegum ástæðum í þinginu nánast ekki verið kleift vegna tímaskorts að láta þennan eðlilega vilja koma hér fram, en ég vildi samt sem áður láta þess getið sérstaklega svo að það færi ekki á milli mála.