16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4846 í B-deild Alþingistíðinda. (4160)

249. mál, afborgunarkaup

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég held að það hafi komið fram í umr. í gær alveg skýrt um hvað sá vandi snýst sem hér er á ferðinni, þ. e. a. s. sú staðhæfing að þetta frv. gæti hugsanlega haft í för með sér, ef lögfest yrði, að menn nýttu síður eignarréttarfyrirvarann en víxilréttinn í viðskiptum sín í milli. Ég held að best sé að taka á málinu eins og ég ræddi um við hv. 5. landsk. þm., Friðrik Sophusson. Þegar ég mæli fyrir málinu í Ed. mun ég óska eftir að fjh.- og viðskn. Ed. kveðji til þá aðila sem hér hafa verið tilnefndir, þ. e. a. s. höfunda frv., t. d. Gylfa Knudsen og fulltrúa Verslunarráðsins og Neytendasamtakanna, til þess að fjalla um þetta mál.

Ég efast satt að segja um að sú staðhæfing Verslunarráðsins sé rétt, að lögfesting frv. mundi þýða að menn slepptu yfirleitt eignarréttarfyrirvaranum. Ég held að það færi eftir tegund viðskiptanna, upphæðum og aðstæðum á hverjum tíma. Ég hygg því, að sú hætta sem þar er bent á, að þetta gæti haft í för með sér stóraukið víxlaflóð, sé ekki á rökum reist. En mér finnst sjálfsagt að kanna málið og er þess vegna reiðubúinn til þess, að það verði gert í fjh.- og viðskn. Ed., og mun leggja það til þegar ég mæli fyrir málinu í þeirri deild.