16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4847 í B-deild Alþingistíðinda. (4163)

249. mál, afborgunarkaup

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég er í grundvallaratriðum mótfallinn því, að erindi sem berast nefnd deildarinnar séu afgreidd með því að senda þau hinni deildinni. Það tel ég ekki heppileg vinnubrögð.

Hitt er svo annað mál, að ég er ekki eins hræddur við þetta lagafrv. og væntanlega lagasetningu og hv. 1. þm. Reykv., þar sem hann virtist telja að með þessu færu menn að gefa út seðla í samkeppni við Seðlabankann. (AG: Hvað eru víxlar?) Víxlar eru ávísun á skuld sem annar maður lánar viðkomandi. (Gripið fram í.) Ég efast ekki um að hv. 1. þm. Reykv. hafi aldrei tekið víxil, þannig að ekki er nema von að hann spyrji hvað slíkt sé. En ég get upplýst að víxill er skuldarviðurkenning. Sá, sem selur vöruna, lánar féð. (Gripið fram í.) Peningaseðlar eru löggiltur mælikvarði á hvað maður hefur unnið sér inn og aflað og annað ekki, en kaup með afborgunum, hvort sem þau eru tryggð með víxlum eða eignarréttarfyrirvara, eru nákvæmlega sama eðlis, nefnilega þess eðlis að sá, sem á vöruna eða hlutina, lánar hinum part af honum í tiltekinn tíma. Hér er þm algerlega ólíku saman að jafna.

Með því að hér er nú um tímaþröng að tefla eins og oft áður og með því að hv. 5. landsk. þm, hefur fallist á þessa málsmeðferð, sem ég er í sjálfu sér á móti eins og hann og hv. 1. þm. Reykv., því að ég tel að hvor d. sé til þess sett að skoða sín mál, en ekki að treysta á hina, ætla ég að láta þetta afskiptalaust.