16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4847 í B-deild Alþingistíðinda. (4165)

243. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá Ed. Landbn. Nd. hefur athugað frv. og varð ekki sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl., sem skilar nál, á þskj. 733, leggur til að frv. verði samþ. eins og það kom frá Ed. Hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson skrifar undir með fyrirvara, en hv. þm. Eðvarð Sigurðsson var fjarstaddur afgreiðslu málsins. Minni hl., hv. þm. Eggert Haukdal og Pálmi Jónsson, skilar séráliti. Þetta frv. felur í sér að styrkir og lán til framkvæmda í landbúnaði séu samræmd meira en verið hefur og að næstu 5 ár verði dregið úr styrkjum til ákveðinna framkvæmda samkv. 3. gr. frv.