16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4849 í B-deild Alþingistíðinda. (4168)

243. mál, jarðræktarlög

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af því sem hefur hér komið fram. Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v., að með lögum þessum sé verið að skera niður framlög til jarðræktar. Svo er ekki. Með þessum lögum er veitt heimild til, í samráði við Búnaðarfélag Íslands, að ákveða frávik eða draga úr styrkjum. Ekkert er sagt um að það verði gert. — Reyndar lít ég á þetta sem nánast aukaatriði í frv. Aðalatriðið er það sem um er fjallað í 4. gr. Þar er gert ráð fyrir að tryggja ekki minna fjármagn en veitt hefur verið undanfarin 2 ár til jarðræktar og fleiri mikilvægra framkvæmda á landbúnaði, þrátt fyrir þann samdrátt sem er augsýnilegur á næstu árum í framkvæmdum sem jarðræktarlögin gera ráð fyrir. Ég þarf ekki að rekja það hér fyrir hv. þm., hverjar þær framkvæmdir eru. Það kemur fram í liðunum a, b og c í seinni hluta 3. gr. Þarna er um að ræða að skjóta fleiri stoðum undir landbúnaðinn í þessu landi með nýjum búgreinum og hagræðingu á ýmsum sviðum, sem mér hefur heyrst á þm. að þeir teldu mjög mikilvægt.

Þetta eru ákvæði til bráðabirgða. Grundvelli laganna er ekki breytt nema með 2. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir samræmi í þessum styrkveitingum og þeim lánum sem Stofnlánadeildin veitir. Ég hef engan heyrt gera aths. við það út af fyrir sig. Þær breytingar voru undirbúnar að höfðu mjög nánu samráði við fulltrúa bænda, bæði hjá Búnaðarfélagi og Stéttarsambandi, og eru fluttar í því formi sem þessir aðilar töldu eðlilegt. Það er rétt að um þetta urðu nokkuð skiptar skoðanir á Búnaðarþingi. Mig minnir að tveir búnaðarþingsfulltrúar greiddu atkv. á móti þessu, en inn voru teknar ýmsar brtt. sem fram voru bornar. — En við getum auðvitað aflað okkur nánari upplýsinga um hvað mótatkv. voru mörg.

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður, Finnur Torfi Stefánsson, sagði áðan, vil ég segja nokkur orð. Ég sé að hann er farinn úr salnum, en ég vil þó upplýsa að rétt er, að í lögum um stjórn efnahagsmála er gert ráð fyrir að endurskoða markaða tekjustofna. Að sjálfsögðu verður þessi tekjustofn þar með. Hins vegar er slíkt ekki komið til framkvæmda. Ég vil vekja athygli á því, að menn hafa verið að flytja hér margar till. um markaða tekjustofna, eins og t. d. í viðamiklu frv. um aðstoð við þroskahefta o. fl., og hef ég ekki orðið var við að þeir setji efnahagslögin fyrir sig, enda hlýtur allt slíkt að falla undir áðurnefnda endurskoðun þegar að henni kemur. (Gripið fram í.) Hv. þm., sem greip fram í, hefur sjálfur staðið að því að veita fjármagn samkv. þessum markaða tekjustofni í nokkur ár. Ekki er farið fram á að breytt verði út frá því, svo að hér er ekki um nýjan markaðan tekjustofn að ræða. En að sjálfsögðu verður hann tekinn til endurskoðunar í samræmi við lög um stjórn efnahagsmála. Þá verður að sjálfsögðu ákveðið hvaða markaðir tekjustofnar eiga að falla niður og hverjir ekki. Ég hef heyrt á þm., að þeir telja ekki koma til greina að fella niður ýmsa þeirra, og vera má að sá sem hér um ræðir sé einn af þeim. Um það skal ég ekki dæma á þessu stigi.