16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4850 í B-deild Alþingistíðinda. (4169)

243. mál, jarðræktarlög

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég mundi fagna því ef ætti að skilja hæstv. ráðh. svo, að heimildarákvæði, sem felast í 3. gr. þessa frv., yrðu ekki notuð í hans tíð. Allur undansláttur hæstv. ráðh. um að annað sé aðalatriði málsins er út í bláinn. Það væri ekki verið að færa í lög slík niðurskurðarákvæði sem felast í 3. gr. ef ekki væri ætlast til að þau yrðu notuð.

Í sambandi við afstöðu Búnaðarþings hygg ég að ég muni það rétt, að mótatkv. gegn þessu frv. hafi ekki verið 2 eða 3, heldur 6. Er auðvitað, eins og hæstv. ráðh. sagði, hæ t að kanna það nánar.

Ég ætla ekki að tefja tímann með því að ræða þetta mál frekar. Ég hef lýst þeirri skoðun minni, hver sé eðlilegur aðdragandi slíkra mála og hvaða forsendur þurfi að liggja til grundvallar áður en lögum af þessu tagi sé breytt. Það eru þær forsendur, að búið sé að taka ákvörðun um hvaða stefnu eigi að fylgja í framleiðslumálum landbúnaðarins á komandi árum. Það hefur ekki enn verið gert. Þá þarf að taka til athugunar bæði þennan lagabálk og ýmsa aðra þætti landbúnaðarlöggjafarinnar og laga þá alla að því að styðja þau stefnumið sem valin verða, þannig að eitt rekist ekki á annars horn. En að byrja á því að krukka í þessa lagabálka sitt á hvað áður en stefnan er tekin tel ég ekki vænlegt til árangurs og síst til bóta.