16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4851 í B-deild Alþingistíðinda. (4171)

243. mál, jarðræktarlög

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og ég hef margtekið fram verða ákvæði 3. gr. aðeins notuð að höfðu samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands. Mjög fer eftir því hvernig veðrátta og aðstaða öll er hvort unnt er að nota ákvæði greinarinnar. Ég trúi því t. d. varla að hv. þm. vildu við það ástand, sem nú ríkir í landbúnaði, skerða — við skulum segja: möguleika til grænfóðurræktunar eftir uppskerubrest. Áður en ákvæði þessarar greinar er breytt verður að skoða mjög vandlega það ástand sem ríkir. Og ég vil endurtaka, að ég lít svo á að ákvæði 3. gr. sé langtum minna atriði í þessu máli en ákvæði 4. gr. Ég get því alls ekki gefið um það yfirlýsingu nú hvort heimildin verði notuð, enda segir í greininni að samráð skuli haft við stjórn Búnaðarfélags Íslands, og það verður gert.

En af því að ég sé að hv. 2. landsk. þm. er kominn inn vil ég leyfa mér að endurtaka það sem ég sagði áðan um markaða tekjustofna. Þeir verða að sjálfsögðu allir teknir til endurskoðunar í samræmi við lög um stjórn efnahagsmála — þessi og margir aðrir sem ég veit að hv. þm. hefur stutt. Hann styður t. d. frv. um þroskahefta, svo að ég nefni eitthvað. Ég hef sjálfur bent á í því sambandi að það hlýtur að verða einnig tekið til endurskoðunar. Sama gildir um þetta og önnur slík mál.