16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4852 í B-deild Alþingistíðinda. (4174)

270. mál, aðstoð við þroskahefta

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Í umr. um önnur mál hefur borið á góma ákvæði nýsettra efnahagslaga sem eru um það bil mánaðargömul, og það er til þeirra sem ég einnig ætla að vitna í máli mínu við 3. umr. um frv. til l. um aðstoð við þroskahefta. En hv. 2. landsk. þm. vitnaði áðan til 8. gr. efnahagslaga ríkisstj. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir árslok 1979 skulu ákvæði í lögum, sem kveða á um skyldu ríkissjóðs til fjárframlaga til sjóða og einstakra verkefna með föstum reglubundnum hætti, tekin til endurskoðunar, og það kannað, að hve miklu leyti fjárframlög til þessara þarfa verði framvegis ákveðin með fjárframlögum ár hvert,“ o. s. frv. eins og þar segir. Og enn, svo að ég vitni — með leyfi forseta — í 13. gr. þar sem kveðið er á um að fyrir skuli liggja kostnaðarmat á tillögum frv. sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Í 25. gr. frv. til l. um aðstoð við þroskahefta getur að lesa ákvæði sem er þverbrot á þessum lögum nýsettum, þar sem segir svo, með leyfi forseta, í a-lið 25. gr.:

„Ríkissjóður skal árlega leggja sjóðnum til a. m. k. 1000 millj. kr. Skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu miðað við árið 1979 að grunni.“

Þarna er að vísu gengið enn lengra en dæmi eru um verðtryggingu í lagafrv.

Með vísun til ákvæða nýsettra efnahagslaga leyfi ég mér að flytja ásamt hv. 4. þm. Norðurl. v., Páli Péturssyni, brtt. við þessa grein, a-liðinn, um að í stað þess, sem þar segir, hljóði a-liður svo: „Ríkissjóður skal árlega leggja sjóðnum til allt að 1000 millj. kr.“

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð hér um. Þessi till. er skrifleg og ég bið hæstv. forseta að veita henni viðtöku og leita afbrigða svo að hún megi koma fyrir til umr. og afgreiðstu.