16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4854 í B-deild Alþingistíðinda. (4179)

311. mál, tímabundið aðlögunargjald

Fjmrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Útbýtt hefur verið í d. frv. til l. um sérstakt tímabundið aðlögunargjald.

Ríkisstj. hefur ákveðið að leggja frv. þetta fram til samþykktar, en ákvörðun um framlagningu þess á rætur sínar að rekja til samstarfsyfirlýsingar ríkisstj., þar sem því er lýst yfir „að samkeppnisaðstaða iðnaðarins verði tekin til endurskoðunar og spornað verði með opinberum aðgerðum gegn óeðlilegri samkeppni erlends iðnaðar, m. a. með frestun tollalækkana“.

Markmið þessa frv. er í samræmi við fyrrgreinda stefnu, þ. e. fyrst og fremst að veita íslenskum iðnaði aukinn tíma til aðlögunar að fríverslun og skapa fjárhagslegt svigrúm til nauðsynlegra iðnþróunaraðgerða. Tel ég að í lögfestingu sérstaks tímabundins aðlögunargjalds og ráðstöfun tekna af gjaldinu til sérstakra iðnþróunaraðgerða felist ígildi frestunar tollalækkana, eins og ríkisstj. hafði heitið í samstarfsyfirlýsingu sinni.

Stefnumörkun sú, sem hér hefur verið lýst, á rætur sínar að rekja til þess, að eftir því sem lengra hefur liðið á aðlögunartíma íslensks iðnaðar að fríverslun hefur komið greinilegar í ljós að staða hans á heimamarkaði er í mörgum greinum veikari en æskilegt væri. Jafnframt má benda á að þróun útflutningsiðnaðar hér á landi hefur orðið mun takmarkaðri en ráð hafði verið fyrir gert, miðað við þann tollfrjálsa markað sem hann fékk aðgang að með aðildinni að EFTA og gerð viðskiptasamnings við Efnahagsbandalag Evrópu. Orsakir þessarar stöðu iðnaðarins, sem ég hef hér vikið að, eru fjölmargar og margslungnar. Er nánar gerð grein fyrir þeim orsökum í grg. með frv. og tel ég því eigi ástæðu til að fjölyrða frekar um þær nú, en vísa til grg.

Um aðdraganda og undirbúning að framlagningu frv. þessa til l. um sérstakt tímabundið aðlögunargjald vísa ég til ítarlegrar grg. með frv. þar að lútandi. Ríkisstj. telur að undirtektir ríkisstjórna EFTA-ríkjanna hafi verið á þann veg, að þær muni samþykkja þær aðgerðir sem felast í ákvæðum þessa frv. Þessar aðgerðir voru raunar til umræðu á fundi EFTA-ráðsins í Genf í morgun, og ég hef nú fengið staðfest að þar var samþykkt að verða við tilmælum ríkisstj. um álagningu þess gjalds sem frv. kveður á um. Þá hefur framkvæmdastjórnin innan Efnahagsbandalagsins, þ. e. a. s. starfsmenn þess, sýnt málinu skilning og velvilja og er ástæða til þess að ætla að Efnahagsbandalagið muni una álagningu gjaldsins fyrir sitt leyti. Hefur ríkisstj. lagt höfuðáherslu á að kynna sérstöðu málsins og fá afstöðu samstarfsaðilanna í málinu áður en endanleg ákvörðun verður tekin um beitingu þess heimildarákvæðis sem frv. gerir ráð fyrir. Málið verður rætt á fundi sameiginlegrar nefndar Íslands og Efnahagsbandalagsins í Brüssel 8. júní n. k. Er þess vænst að ekkert verði því til fyrirstöðu að nýta heimildarákvæði frv. ef að lögum verða.

Um einstakar greinar frv. þykir mér rétt að taka eftirfarandi fram:

Við undirbúning að aðgerðum ríkisstj. kom í ljós að málaleitan Íslands um sérstakar aðgerðir yrði eigi formlega samþ. innan EFTA og EBE fyrr en eftir þinglausnir. Hins vegar voru undirtektir viðsemjenda slíkar, eins og vikið hefur verið að, að eigi þótti ástæða til annars en setja löggjöf er veitti formlega heimild til aðgerða til stuðnings iðnaðinum. Af þessum sökum er gert ráð fyrir samkv. 1. gr. frv. að ráðh. skuli hafa heimild til setningar reglugerðar um innheimtu 3% aðlögunargjalds af nánar tilgreindum innfluttum vörum. Er gert ráð fyrir að gjaldið verði almennt lagt á svonefndar verndarvörur, en til þeirra teljast vörur sem tollar hafa verið lækkaðir á eða felldir niður af vegna aðildarinnar að EFTA og samnings Íslands við EBE. Jafnframt er lagt til, í þeim tilgangi að forðast mismunun gagnvart innflutningi vara frá hinum ýmsu markaðssvæðum, að gjaldið verði einnig lagt á vörur upprunnar í löndum sem standa utan nefndra fríverslunarbandalaga. Vörur þær, sem gjaldskyldar verða samkv. ofansögðu, verða hinar sömu og lagt er á jöfnunargjald samkv. ákvæðum laga nr. 83 frá 1978, um jöfnunargjald. Hliðstæðar undanþágur verða gerðar frá innheimtu gjaldsins og gilt hafa um jöfnunargjaldið. 1. gr. frv. fjallar því um gjaldstofninn og upphæð gjaldsins.

Gjaldtaka þessi á að vera tímabundin, og er gert ráð fyrir samkv. 8. gr. frv. að hún hefjist 1. júlí n. k. og gildi til ársloka 1980. Gildistími hennar á rætur að rekja til þess ákvæðis 20. gr. EFTA-samningsins, að undanþáguaðgerð þess eðlis, sem fólgið er í heimildarákvæðinu, skuli ekki standa lengur en í 18 mánuði.

Gert er ráð fyrir að tekjur af aðlögunargjaldinu á árinu 1979 komi til með að nema 500–600 millj. kr. og 1000–1200 millj. kr. á árinu 1980, miðað við verðlag ársins 1979. Samkv. 7. gr. frv. er lagt til að tekjum af gjaldinu verði varið til sérstakra iðnþróunaraðgerða. Þar sem gjaldtakan á árinu 1979 fellur utan fjárlaga er jafnframt gert ráð fyrir að ríkisstj. taki ákvörðun um ráðstöfun fjárins á því ári en tekjum af gjaldinu á árinu 1980 verði hins vegar ráðstafað sérstaklega á fjárlögum til eflingariðnþróun.

2., 3., 4., 5. og 6. gr. frv. kveða nánar á um útfærslu aðlögunargjaldsins og framkvæmd tollameðferðar og innheimtu samkv. frv.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv. þetta, en vænti þess, að þm. greiði fyrir framgangi þess þannig að það hljóti samþykki Alþ. áður en þinglausnir verða. Að lokum leyfi ég mér að leggja til að málinu verði vísað að lokinni þessari umr. til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.