16.05.1979
Neðri deild: 89. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4872 í B-deild Alþingistíðinda. (4194)

277. mál, verslun ríkisins með áfengi

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Mér þykir málflutningur og röksemdafærslur hæstv. fjmrh. fyrir því frv. til l., sem hér er til umr., vera með óviturlegri — að ég segi ekki heimskulegri — málflutningi sem hér hefur lengi heyrst. Og það, sem mér þykir vera mjög óviturlegt í málflutningi hans, er að blanda sífellt saman, jafnvel í sömu málsgrein, jafnvel í sömu setningunni, annars vegar tekjuþörf ríkisins og hins vegar því sem vissulega er gríðarlegt félagslegt vandamál í þessu landi og stafar af ofneyslu áfengis. Þessi málflutningur verður til þess að öll röksemdafærslan fyrir þessu frv. er í molum. Er hæstv. fjmrh. að reyna að leysa áfengisbölið, það vill sem aukaatriði svo heppilega til fyrir hann að það gefur ríkissjóði svolitlar tekjur, eða er hann að afla ríkissjóði tekna og vill svo til, sem er aukaatriði að hans mati, að hann leysi talsvert félagslegt vandamál í leiðinni?

Hvort um sig er auðvitað vandamál. Ríkissjóður fær minni tekjur en hann þarf á að halda. Hitt er líka, að í landinu er ofneysla áfengis félagslegt vandamál. En það, sem er svo óviturlegt að minni hyggju við þetta frv. til l., sem mér þykir hafa allt yfirbragð embættismanna í fjmrn. sem eru að hugsa um ríkissjóð fyrst og fremst og ekki um félagsleg vandamál, er að blanda því saman við að þykjast vera að leysa félagsleg vandamál, fara um það tilfinningalegum rökum, þegar þetta frv. fjallar auðvitað ekki um það, heldur um hitt að ríkissjóður er að verða sér úti um tekjur. Þetta eru tvö aðskilin vandamál, tekjuþörf ríkissjóðs annars vegar og félagsleg vandamál sem stafa af áfengisböli hins vegar, og ber að líta á þau sem tvö aðskilin vandamál, en ekki rugla þeim saman, styðja hvað með öðru, enda stendur lítið eftir af röksemdafærslunni þegar svo er gert.

Ég hygg að það sé rétt, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh., að á síðasta áratug hafi brugg í heimahúsum verið orðið hverfandi lítið, en það hafi mjög aukist á þessum áratug. Og sé svo, sem kann að vera ágiskun, hygg ég að skýringin sé fyrst og fremst sú, að ríkisvaldið hefur haft forgöngu um óviturlega skattastefnu í áfengismálum. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er áfengi nokkuð sem fjölmargir leggja sér til munns og kaupa. Það er gömul regla og ný, að áfengi hefur leitt til félagslegra vandamála og hefur einnig leitt til þess að þegar um ofsköttun á vörutegundinni er að ræða hafa neytendur tilhneigingu til að leita á önnur mið.

Nú er bruggun auðvitað ólögleg. Það er kjarni málsins. En samt hefur ríkisvaldið sýnt og haft forgöngu um tvískinnung í þessum efnum með því að hafast ekki að. Þannig hefur ríkisvaldið í reynd liðið þessa hegðun. Þar sem svo er hygg ég að óviturlegt sé að leggja skyndilega til atlögu við það tiltekna þjóðfélagsástand sem hér er og hefur í reynd verið þolað af ríkisvaldinu, án þess að endurskoða sjálfa áfengislöggjöfina um leið og skoða þau mál í samhengi. M. ö. o. tek ég undir þau meginrök, sem fram komu í máli hv. þm. Friðriks Sophussonar, að þetta tiltekna mál á að skoða í samhengi við áfengislöggjöfina í landinu, áfengishegðun, en tekjuþörf ríkissjóðs á hins vegar að vera aukaatriði og afleidd forsenda í þessu efni.

Nú hefur engu að síður verið almenn regla í þessu landi og viðurkennd, að ég hygg, af öllum, að áfengi er vímugjafi og áfengi er það sem kallað er stundum lúxusvara og áfengi getur valdið, — það gerir það ekki alltaf, en það getur valdið félagslegum vandræðum. Þegar allt þetta er lagt saman hefur það verið almenn regla í þjóðfélaginu, sem ég hygg að enginn mæli í mót, að áfengi er mjög mikið skattlagt. Engu að síður hefur svo farið á síðustu árum, að ríkisvaldið hefur verið of frekt til fjárins. Neytendur hafa svarað með því að auka brugg í heimahúsum og ríkisvaldið hefur látið það afskiptalaust. Þar sem slíkt ástand hefur skapast að verulegu leyti fyrir forgöngu eða a. m. k. með afskiptaleysi ríkisvaldsins sjálfs þarf ríkisvaldið að komast út úr vandræðunum með öðrum hætti og ekki í tengslum við fjármagnsþörf ríkissjóðs, svo sem hér er lagt til. Það er auðvitað hugtak sem ber að nota alfarið í gæsalöppum. En svo má rökleiða, vegna þeirrar almennu leikreglu í samfélaginu að þessi vara sé skattlögð, að brugg í heimahúsum sé auðvitað ólöglegt, en einnig séu þeir sem brugga að komast hjá því að greiða það gjald til þjóðfélagsins sem almenn lög gera ráð fyrir.

Það er ekki rétt hjá hv. þm. Friðrik Sophussyni að þetta sé sambærilegt við að borða úti eða borða heima hjá sér. Mér vitanlega er ekki ólöglegt að borða heima hjá sér, eða ekki var það svo síðast þegar ég vissi til. Þeir kunna að hafa verið að breyta því í Ed. í dag, en ég veit þá ekki um það! Munurinn er sá, að samkv. íslenskum lögum er ólöglegt að brugga áfengi. Það er bókstafur laganna. Hegðun fólks hefur hins vegar verið í þá veru og afskiptaleysi ríkisvaldsins hefur einnig verið þannig að við stöndum í verulegum vandræðum af þessum ástæðum. Ríkisvaldið hefur með tvískinnungi sínum átt þátt í að skapa þetta vandamál.

Að þessu sögðu tek ég undir þá hugmynd, sem hér hefur komið fram hjá allmörgum ræðumönnum, og ég mun að mínu leyti vinna að því að réttast væri að frv. yrði lagt til hliðar að sinni. Það hefur verið lagt fram á hv. Alþ. frv. til breytinga á áfengislöggjöfinni sjálfri. Þessi mál þarf að skoða í samhengi og er sjálfsagt að skoða bruggmálin einnig í því samhengi. Að því mætti vinna í sumar og hefja slíkt aftur næsta haust, en að þessu frv., eins og það er fram lagt og með þeim rökstuðningi sem fyrir því er hafður, tel ég að ekki komi til mála að standa.