17.05.1979
Sameinað þing: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4882 í B-deild Alþingistíðinda. (4205)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 4. þm. Reykv. vil ég taka fram eftirfarandi:

1. Það er stefnt að því að þinglausnir geti farið fram á miðvikudaginn í næstu viku.

2. Það hefur, eins og mál standa, ekki verið gerð nein samþykkt í ríkisstj. um till. í launa- og kjaramálum sem þurfi að leggja fyrir Alþ. Ríkisstj. hefur skipað sáttanefnd til að vinna að lausn þeirra verkfalla sem yfir standa. Sú sáttanefnd verður að fá hæfilegt ráðrúm til þess að vinna að lausn þeirrar deilu. Við þær aðstæður og á þessu stigi þykir mér ekki viðeigandi að vera með neinar yfirlýsingar um það, með hverjum hætti ég telji heppilegast að leysa þau verkföll sem nú standa yfir.

Að öðru leyti varðandi mínar persónulegu skoðanir get ég vísað til þess sem ég sagði við umr. utan dagskrár hér fyrir nokkrum dögum. Sá skilningur, sem hv. 4. þm. Reykv. hafði á þeim ummælum mínum þá, var og er réttur, hvað hægt sé að gera að óbreyttum lögum.

Ég vil segja að það er með öllu ástæðulaust fyrir hv. 4. þm. Reykv. að óttast að ríkisstj. muni grípa til brbl. sem hún hefur ekki tryggan meiri hl. fyrir.