17.05.1979
Sameinað þing: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4882 í B-deild Alþingistíðinda. (4206)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að það sé öllum landsmönnum ljóst, að í ríkisstj. og í stjórnarflokkunum er nú rætt um vandann í efnahagsmálum og hvort möguleiki sé á að ná samstöðu um úrræði. A. m. k. einn stjórnarflokkurinn hefur lýst því opinberlega, m. a. í flokksblaði sínu, að fulltrúar hans í ríkisstj. hafi lagt fram till. um að a. m. k. hluti af þeirri lausn verði fólginn í lagasetningu. Það hlýtur öllum að vera ljóst að niðurstöður í málinu eru á næsta leiti, og enn er a. m. k. ekki vitað hvort sú till. að taka á málinu með lögum eður ei hær fram að ganga. Á sama tíma og rætt er um slíkar till. í ríkisstj., að taka á efnahags- og kjaramálunum með lögum, eru ræddar þær hugmyndir að láta þinglausnir fara fram, án þess að ljóst sé hvort menn eigi með því við að þinglausnir fari fram áður en niðurstaða er fengin um það í ríkisstj., hvort lagasetningar sé þörf, eða eftir að slík lagasetning hefur gengið sínar eðlilegu leiðir í gegnum deildir þingsins. Þetta er stundum orðað þannig, að nú vilji menn losa sig við þingið, nú sé rétt að senda þm. heim, nú sé hætt við að þingið þvælist fyrir, nú þurfi að fara að stjórna landinu. Ég vil aðeins láta það koma fram, að þessi sjónarmið, sem t. d. eru rædd í fjölmiðlum, eru að sjálfsögðu næsta furðuleg í þingræðislandi, að á sama tíma og við í orði viljum láta ríkja hér í landi fullkomið þingræði, þá séum við á borði að ræða yfirvofandi aðgerðir með lögum og að rétt sé að losa sig við þingið áður en sú lagasetning fari fram. Ég vara mjög eindregið við slíkum bollaleggingum, sem ég hef ekki ástæðu til að ætla — og ég tek það sérstaklega fram: sem ég hef ekki ástæðu til að ætla að séu ræddar í alvöru af hæstv. ríkisstj. Vissulega geta mál átt erfiða leið í gegnum Alþ. og Alþ. getur tafið mál fyrir ríkisstj. og breytt málum fyrir ríkisstj. En það eru engin rök, þó svo geti verið, að segja þá: Burt með þingið. Á meðan þingræði ríkir í þessu landi gilda ekki slík rök.

Það má vel vera að það sé skoðun sem á fullan rétt á sér, að við getum dregið þann lærdóm af reynslu undanfarinna ára og ríkisstjórna af einum og öðrum toga sem setið hafa í landinu á þeim tíma, hvaða nafni sem þær svo nefnast, að það sé rétt að gera þá breytingu að styrkja stöðu framkvæmdavaldsins á Íslandi. Ef það væri rétt, þá á að sjálfsögðu að gera það með kerfisbreytingu, með því að gera umræddar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins, en ekki með því að einhver fámennur hópur manna, sem falið hefur verið það trúnaðarstarf að vera í fararbroddi á Alþ. og annars staðar í þjóðfélaginu, telji sig réttbornari til þess að stjórna þjóðinni en Alþingi Íslendinga vegna þess að Alþingi Íslendinga standi í vegi fyrir því að hægt sé að stjórna eins og þeir vilja. Ég vil aðeins taka það fram, að þetta mál hefur verið rætt í þingflokki Alþfl., og þar með, að það geti vel komið til greina að gera þá kerfisbreytingu, m. a. með breytingu á stjórnarskrá, að styrkja framkvæmdavaldið umfram það sem nú er, en þó ekki á kostnað löggjafarvaldsins. Við erum hins vegar alfarið andvígir því, að þau vinnubrögð verði notuð, ef menn óttast að þingið geri ekki nákvæmlega það sem þeir vilja og ætla sér að setja í lög, þá verði kosturinn sá að leysa þingið upp, því að það að senda þing heim til þess að geta e. t. v. gripið til lagasetningar strax í kjölfarið, sem e. t. v. er vitað, að ekki verður hjá komist, það er að leysa þing upp.

Þingflokkur Alþfl. felur ráðh. flokksins að koma þeirri skoðun þingflokksins á framfæri við hæstv. forsrh. að ekki sé rétt að slíta þingi í vor fyrr en fyrir liggi hvaða ráðstöfunum ríkisstj. hyggst beita í efnahags- og launamálum.“

Þessi afstaða þingflokks Alþfl. hefur verið tjáð hæstv. forsrh. og hún var tekin og afgreidd samhljóða. Ég vil aðeins taka ~að fram til viðbótar, að í 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands segir svo:

„Málefni, sem bera á upp fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar, skulu áður tekin til meðferðar á ráðherrafundi.“

Og eins og segir í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, í 23. gr., er það forseti sem ákveður hvenær Alþingi skuli slitið, væntanlega að tillögu forsrh., og það er skilningur minn, sem ég held að hljóti að vera ótvíræður, að slíka ákvörðun sé ekki hægt að taka nema hún sé borin upp á ráðherrafundi og ríkisstj. sé um hana sammála. Hitt er svo annað, að í 23. gr. stjórnarskrárinnar stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Forseti lýðveldisins getur frestað fundum Alþ. tiltekinn tíma, þó ekki lengur en tvær vikur og ekki nema einu sinni á ári. Alþ. getur þó veitt forseta samþykki til afbrigða frá þessum ákvæðum.“

Ef Alþ. teldi ástæðu til gæti það samþykkt þáltill. um frestun á fundum Alþ. til lengri eða skemmri tíma án tillits til þess á hvaða árstíma það er, eins og gert er við þingfrestun um jól. Það hefur oft verið rætt, hvort það væri ekki rétt að fara út á þá braut, sem enga lagabreytingu þarf til að gera, en t. d. er viðhaft á norska Stórþinginu, að fundum þings er ekki slitið, heldur frestað, þannig að hægt er að kveðja saman þing til starfa hvenær sem er í orlofi þm. ef á liggur. Þurfi til lagasetningar að grípa er það gert með þeim hætti að kalla þing til starfa. — Þetta vildi ég aðeins láta fram koma hér.

Í sambandi við fsp. hv. þm. Geirs Hallgrímssonar um launastefnu ríkisstj., þá liggur hún að sjálfsögðu fyrir í stjórnarsáttmálanum sem einn þáttur af efnahagsstefnu hennar, og þeim stjórnarsáttmála hefur að sjálfsögðu ekki verið breytt. Það, sem þar segir, var því og er stefna hæstv. ríkisstj. Ég vil hins vegar aðeins minna á að úrslit síðustu alþingiskosninga voru afdráttarlaus stuðningsyfirlýsing talsvert fjölmenns hóps kjósenda við þá stefnu okkar Alþfl.-manna, að stjórnvöld ættu í baráttunni við verðbólgu að fylgja samræmdri stefnu jafnvægis og aðhalds um þær efnahagsstærðir, sem eru á valdi stjórnvalda, og leita síðan samkomulags um launamálastefnu sem samrýmdist hinni almennu stefnumörkun í efnahagsmálum. Fyrir þessum viðhorfum, sem flokkurinn kynnti í vor, hefur hann síðan barist, fyrst í stjórnarmyndunarviðræðunum á sínum tíma, svo með því að fá fram almenna samþykkt um markmið efnahagsstjórnunar á árinu 1979 í grg. með 1. des. frv. ríkisstj., til þess að tryggilegar yrði frá slíku samkomulagi gengið, þá með gerð frv. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum, þegar ljóst varð að ekki væri víst að ætlunin væri að standa við öll atriði samkomulagsins frá því í des., svo með stuðningi við frv. hæstv. forsrh. um stjórn efnahagsmála o. fl., sem í upphaflegri gerð hefði vissulega getað samrýmst markmiðum ríkisstj. um samræmda efnahagsstefnu, og auk þess að sjálfsögðu með stuðningi við þau mál hæstv. ríkisstj. sem verið hafa hér til umr. og umfjöllunar á Alþ., svo sem lánsfjáráætlun, sem samkomulag hafði orðið um og voru innan marka hinnar samræmdu aðhalds- og jafnvægisstefnu í efnahagsmálum.

Það verður hins vegar ekki sagt að það hafi ávallt ríkt stuðningur við þessi sjónarmið, enda kannske ekki eðlilegt að allir flokkar ríkisstj. hafi verið sammála um þessi viðhorf okkar Alþfl.-manna. En þessi andstaða við þessa samræmdu jafnvægisstefnu í efnahagsmálum hefur m. a. komið fram í því, að ákvarðanir hafa stundum verið tafðar úr hófi fram. Gegn sumum hugmyndum hefur verið barist án þess að gagntillögur, sem málin vörðuðu, hafi verið lagðar fram. Sum úrræði, sem samþ. hafa verið, hafa ekki enn komið til framkvæmda. Og eins verðum við að segja eins og er, að okkur líkar það ekki vel ef samstaða og samkomulag, formlegt eða óformlegt, er gert við stjórnarandstöðu eða hluta hennar um að fara út fyrir framkvæmda- og lántökuramma sem samkomulag hefur orðið um í ríkisstj. Þannig segjast sumir telja sér til gildis að ýmsir þættir í úrræðum okkar um samræmda efnahagsstefnu hafi verið skemmdir, aðrir hafi verið slævðir, enn öðrum verið drepið á dreif.

Afleiðingarnar blasa nú við. Allt efnahags- og fjármálakerfi þjóðarinnar riðar nú til falls, verðhækkunarskriða hefur hlaupið af stað og ýmsir hálaunahópar riðið á vaðið með miklar launakröfur. Við þessar aðstæður hefur hin almenna launþegahreyfing misst þolinmæði og trú á þá stefnu sem átti að framkvæma. Við þessar aðstæður er nú verið að ræða ýmsar hugmyndir og till. um að viðbrögð verði einskorðuð við einhliða afskipti af launamálum þannig að kaupgjaldsmálum í landinu verði með einum eða öðrum hætti skipað með lögum. Þetta gamalkunna úrræði er því miður sameiginlegt í þeim hugmyndum og tillögum sem ræddar eru, þó svo að ágreiningur sé um nokkur framkvæmdaatriði, en það er bitamunur, en ekki fjár. Og okkur Alþfl.-mönnum kemur það satt að segja mjög á óvart, að umræða um þessi mál nú í maímánuði 1979 skuli vera ósköp svipuð og umr. var í sama mánuði á því herrans ári 1978. Slík aðgerð að ganga nú til þess verks að skipa kaupgjaldsmálum stéttanna í landinu með almennri lagasetningu er í hróplegu ósamræmi við stefnu Alþfl. um kjarasáttmála og grundvallarafstöðu verkalýðshreyfingarinnar og verkalýðsflokka um frjálsan samningsrétt. Við erum því ekki ginnkeyptir fyrir því að fallast á slíka einhliða skipan launa- og kjaramála í landinu þegar öll önnur tök hafa reynst vettlingatök og flest er komið á fljúgandi ferð, enda hefur reynslan sýnt og sannað að slík úrræði eru andvana fædd. Hafi menn efast um þá niðurstöðu sem ég benti hér á, þá ættu menn að hugleiða hvers vegna fyrrv. hæstv. ríkisstj. féll og hvers vegna núv. hæstv. ríkisstj., a. m. k. tveir flokkar hennar, fengu jafnmikið kjörfylgi og raun ber vitni.

Það er því skoðun okkar Alþfl.-manna, að ákvörðun um kaupgjaldsmálin í landinu eigi að taka í frjálsum samningum aðila vinnumarkaðarins. Verði fallist á þau almennu viðhorf okkar teljum við nauðsynlegt að ríkisstj. taki án tafar fastari tökum en hún hefur gert sín réttu og eðlilegu viðfangsefni í efnahagsmálum, þannig að verkalýðshreyfingin geti gengið til samkomulags við hæstv. ríkisstj., eins og ég tel að fullur vilji og skilningur sé á, um launamálastefnu sem samrýmist markmiðum ríkisstj. í efnahagsmálum.

Um yfirstandandi kjaradeilur er ljóst að það hlýtur að vera skoðun okkar að þrautreyna beri allar sáttaumleitanir og að ríkisvaldið eigi ekki undir neinum kringumstæðum að hafa bein afskipti af slíkum vinnudeilum, nema ljóst sé orðið að aðgerðir fámennra hópa séu farnar að ógna almannaheill og stefna atvinnuöryggi og afkomu verkafólks í landinu í stóralvarlega hættu. Þetta eru viðhorf sem ég held að a. m. k. verkalýðshreyfingin hafi ávallt haft og ætlast er til að verkalýðsflokkarnir svokölluðu hafi. Og ég vil aðeins að lokum benda á að hæstv. forsrh. hefur úr þessum ræðustól lýst vantrú sinni á því úrræði nú að skipa kaupgjaldsmálum að hluta eða í heild með lögum, og hæstv. forsrh. ítrekaði það viðhorf sitt hér í ræðustól áðan, ef ég skil hann rétt.