17.05.1979
Sameinað þing: 96. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4885 í B-deild Alþingistíðinda. (4207)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Mér fannst hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, vera að taka út svolítið forskot á eldhúsdagsumr. í kvöld. Ég ætla ekki að blanda mér inn í það. En að gefnu tilefni frá honum vil ég taka fram, að ákvörðunin um þingslit hefur fyrir löngu verið rædd í ríkisstj. Hún hefur einnig verið rædd við forseta þingsins fyrir alllöngu og formenn þingflokka, og við stjórnarandstöðuna hefur verið haft samband, þannig að sú ákvörðun á ekki að koma neinum á óvart. Ég fæ ekki betur séð en að af ósk um framlengingu Alþ. með tilvísun til ástands í kjara- og launamálum hlyti að verða a. m. k. óbeint dregin sú ályktun að Alþ. ætlaði sér að grípa inn í kjaramál.

Það er að sjálfsögðu rétt hjá hv. síðasta ræðumanni, að það má fresta Alþ., og auðvitað geta þm. komið fram með slíka till., og það er ekki að efa að eftir henni yrði farið ef hún yrði samþ. En hitt er líka til og samkv. stjórnarskránni, að aukaþing má kveðja saman hvenær sem þörf krefur, og eins og háttað er nú samgöngum hér á landi á þessum árstíma, þó að hart sé í ári, þá er hægt að gera það með mjög skömmum fyrirvara ef á þyrfti að halda.

Ég kann illa við það, þegar verið er að tala um þinglausnir eftir alllangt og athafnasamt þing, að þá sé verið í öðru orðinu að tala um að leysa upp þingið. Það er nokkuð annað að leysa upp þing eða slíta þingi. Að leysa upp Alþingi var gamla orðalagið fyrir þingrof og það stóð í stjórnarskránni á sínum tíma. Ég veit ekki hvort menn hafa það í huga.