17.05.1979
Efri deild: 106. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4895 í B-deild Alþingistíðinda. (4223)

295. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Frv. það sem hér um ræðir er nokkuð að vöxtum, en svo sem fram hefur komið hjá frsm. meiri hl. eru ekki mörg efnisatriði sem eru breytingar frá fyrri lögum, aðallega er um að ræða lagfæringar og orðalagsbreytingar til uppfyllingar á eldri ákvæðum. Þó er það, að í 25. gr. eru nokkrar réttarbætur færðar stúdentum. Ef þeir telja að gengið sé á rétt þeirra, t. d. við einkunnagjafir, eiga þeir kost á því að skjóta máli sínu til úrskurðar, og er þá kveðið svo á að þar skuli prófdómari skipaður í hverju tilviki. Þetta er réttarbót og er nokkurs virði fyrir stúdenta.

En það, að ég gat ekki fallist á álit meiri hl. og hef gefið út sérstakt nál., byggist á því, að í 28. gr. er sagt: „Háskólanum skal heimilt að eiga og reka lyfjabúð til kennslu og rannsókna í lyfjafræði lyfsala.“

Nú er það svo, að það hefur verið þannig að seinni hluti þess náms, sem hér um ræðir í lyfjafræðinni, hefur farið fram í útlöndum og ætlunin er að færa það heim. Til þess telur rektor, sem kom á nefndarfund til okkar, að sé nauðsynlegt fyrir Háskólann að hafa aðgang að eigin lyfjabúð, þannig að hann geti sjálfur ráðið hvernig kennsla kandídatanna fer fram.

Hins vegar kom það líka fram hjá honum, að leitað hefur verið eftir samningum við lyfsala í landinu um að taka að sér þessa kennslu. Það gekk lengi illa, en nú hefur samist og þessi möguleiki er fyrir hendi. Hins vegar er talið öryggisleysi að hafa ekki eigin lyfjabúð.

Nú er á það að líta, að varðandi kennslu t. d. í læknisfræði verður Háskólinn að byggja á ríkisstofnunum til þess að framkvæma verklega kennslu í læknisfræði, og á sama hátt er það þannig, að ríkið rekur umfangsmikla lyfjaverslun og enn fremur mikla lyfjaframleiðslu. Verður því ekki séð annað en að þar ætti að vera auðvelt fyrir Háskólann að fá innhlaup með þá fræðslu og kennslu sem nauðsynleg er í sambandi við þetta mál. Hins vegar er vitað mál að það gæti orðið Háskólanum mikil útgjaldaaukning, a. m. k. til að byrja með, að eignast eigin lyfjabúð og reka hana, og eins og málum hans er komið í dag og hefur reyndar lengst af verið er þar ævinlega þröngt í búi með fjárhag. Hef ég þá trú að þetta mál ætti að verða auðleystara í sambandi við Lyfjaverslun ríkisins heldur en Háskólinn fari að reka eigin lyfjabúð.

Þess vegna hef ég lagt til að 28. gr. falli niður. Ég er að öðru leyti samþykkur frv. Samþykkt þess er mikil nauðsyn fyrir Háskólann, ekki síst nú þar sem fyrir dyrum stendur útgáfa allsherjarreglugerðar fyrir Háskólann. Lengi hefur slík útgáfa staðið til. Nú er aðkallandi að samþ. hana og fá þessa lagabreytingu fram um svipað leyti og rektoraskipti verða.