17.05.1979
Neðri deild: 90. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4899 í B-deild Alþingistíðinda. (4247)

275. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Frsm. minni hl. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. fjh.- og viðskn., fulltrúa Sjálfstfl. í n. Álit okkar er á þskj. 761. Eins og hér hefur komið fram, varð n. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. vill, samþykkja frv., en minni hl. vill að frv. verði fellt.

Það er ekki ástæða fyrir mig til að rekja efni frv., það hefur þegar verið gert. En ástæður þess, að við í minni hl. viljum fella þetta frv., eru nokkrar.

Í fyrsta lagi teljum við að hér sé um að ræða svo viðamikið mál að ekki sé verjandi að þvinga það í gegnum þingið nú á síðustu dögum fyrir þinglausnir.

Í öðru lagi bendi ég á að það er stutt síðan frv. var lagt fram. Það er svo stutt síðan að ekki hefur gefist tími til að athuga það nægilega vel. Án þess að ég vilji á nokkurn hátt vera að finna að meðferð frv. í þingnefnd bendi ég á að því var vísað til þn. 30. apríl s. l. og þá var það sent til umsagnar. Næst þegar það er tekið fyrir í n., 10. maí, er farið yfir frv. Daginn eftir, 11. maí, er það rætt frekar og þá gerð tilraun til þess af hálfu meiri hl. að koma frv. í gegnum n. Svo 15. maí er það afgreitt.

Til viðtals við n. komu þeir Björn Tryggvason og Þórhallur Ásgeirsson og veittu ýmsar gagnlegar upplýsingar. Frv. var sent til umsagnar tveggja aðila: Sambands ísl. samvinnufélaga, sem skilaði ekki umsögn, og til Verslunarráðs Íslands. Verslunarráðið skilaði umsögn sem var lögð fyrir n. 15. þ. m. þegar málið var afgreitt í n. Í umsögn Verslunarráðsins segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Verslunarráðið telur að fram komið frv. um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála sé ekki til bóta frá gildandi lögum og er frv. andvígt. Hins vegar telur Verslunarráðið, að það væri stórt skref í framfaraátt ef takast mætti að koma því skipulagi á þessi mál, er síðasta viðskiptaþing lagði til og gerði samþykktir um.“

Meðal till., sem samþykktar voru á viðskiptaþingi og vitnað er til í umsögn Verslunarráðsins, var að gjaldeyrisverslun skyldi gefin frjáls, innflutningsfrelsi því aðeins takmarkað með reglugerð eða sérstökum lögum að nauðsyn bæri til vegna viðskiptasamninga við aðrar þjóðir. Útflutningsleyfa verði aðeins krafist vegna útflutnings sjávarafurða. Aðgangur atvinnulífsins að erlendu fjármagni verði rýmkaður. Tilgangur breytinga á skipan gjaldeyris- og viðskiptamála í framangreinda átt er að gera íslenska krónu jafnverðmikla erlendum gjaldeyri, efla innlenda fjármálastjórn með erlendri samkeppni í lánsfjárþjónustu og ávöxtun fjár, gera innflutningsversluninni kleift að bæta lífskjör þjóðarinnar með auknu framboði á ódýrum vörum, leggja grundvöll undir frjáls og sjálfstæð útflutningsfyrirtæki.

Þetta er sú frjálsræðisstefna sem Sjálfstfl. hefur fylgt. Hann hefur ítrekað þá stefnu og mótað ljósum orðum í ályktun um efnahagsmál á þessum vetri og einnig í ályktun nýliðins landsfundar.

Þetta frv. kann að einhverju leyti að stefna í frjálsræðisátt, en í svo veigamiklum atriðum gengur það gegn stefnu Sjálfstfl. að hann getur ekki stutt það. Þar nægir að nefna þær heimildir sem veittar eru gjaldeyriseftirliti til að kanna reikninga og bókhald, svo og að framkvæma á starfsstað nauðsynlegar athuganir, eins og segir í 6. gr. frv. Með slíku ákvæði er gjaldeyriseftirliti veitt heimild sem það hingað til hefur þurft að fá með tilstilli dómstóla. Ákvæði sem þetta er hins vegar í fullu samræmi við hugsjónir sumra þm., sem styðja núv. ríkisstj., og eflaust sumra ráðh. um lögregluríkið.

Sjálfstfl. vill fara aðrar leiðir en hér er gert ráð fyrir. Hann vill fara þær leiðir sem stefna í frjálsræðisátt að því er tekur til gjaldeyris- og viðskiptamála yfirleitt. Þetta frv. gerir það hins vegar ekki. Grátlega seint hefur gengið að koma viðskiptum með erlendan gjaldeyri hér á landi í eðlilegt og frjálst horf og til samræmis við þá þróun sem orðið hefur í löndunum umhverfis okkur.

Núverandi ástand í þessum málum má rekja til kreppuáranna eftir 1929 þegar almennt haftatímabil hófst í milliríkjaviðskiptum. Fyrstu lög um verulegar hömlur á kaupum og sölu á erlendum gjaldeyri á Íslandi voru sett árið 1935. Til þess tíma voru slík viðskipti frjáls, þótt frá 1924 hafi verið heimild í lögum til vissra afskipta. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar hefur þróunin orðið í átt til frjálsra utanríkisviðskipta. Þróun í meðferð gjaldeyris hefur verið hluti af þessu.

Almennt ríkir frelsi í nágranna- og viðskiptalöndum okkar í viðskiptum og meðferð gjaldeyris. Þróunin hér á landi hefur ekki orðið hin sama og í nágrannalöndunum. Við búum enn í dag við veruleg höft þrátt fyrir það að rétt skref hafi verið stigin. Við höfum dregist aftur úr. Erlendur gjaldeyrir er hér enn skammtaður og jafnvel lítið á hann sem sérstakan munað.

Núverandi lög um skipan gjaldeyrismála eru að meginstofni frá árinu 1960. Lögin, sem þá voru sett, voru liður í hinni þýðingarmestu umsköpun í efnahagsmálum sem hér hefur orðið á síðari tímum. Þáverandi gjaldeyrisskömmtunarkerfi var lagt niður og það gert að meginstefnu að innflutningur á vörum og þjónustu skyldi frjáls og ráðstöfun gjaldeyris í því skyni óheft. Önnur ráðstöfun og meðferð gjaldeyris var hins vegar áfram bundin. Á þessari skipan voru þó ýmsir gallar og skal ég nefna þessa helsta:

Þeim, sem eignast erlendan gjaldeyri, er að meginreglu gert að skila honum án óeðlilegs dráttar, eins og það heitir, til íslensku gjaldeyrisbankanna. Þeim, sem afla hans, er almennt ekki heimilt að ráðstafa gjaldeyrinum í öðrum viðskiptum eða geyma þar sem þeim best hentar. Þeir verða að skila gjaldeyrinum á því verðmæti eða gengi sem gildir á hverjum tíma á Íslandi. Verðið er sem sagt skammtað. Hafi þeir tækifæri til að ráðstafa fénu með hagkvæmari hætti erlendis er það óheimilt. Allt annað en innflutningur á vörum og þjónustu er óheimill. Þannig er gjaldeyrir til ferðalaga Íslendinga allur háður smásmugulegu og fyrirferðarmiklu leyfakerfi. Það sem verra er í þessu sambandi, er að sá munaður, sem felst í því að fá gjaldeyri til ferðalaga erlendis, er nú skattlagður sérstaklega með því að krefjast 10% viðbótargjalds af ferðamannagjaldeyri. Með því er skapað tvöfalt gengi. Og það má nærri geta hvort sú ráðstöfun er til þess fallin að auka innstreymi til innlendra banka á erlendum gjaldeyri eða gjaldeyrisstreymi eftir þeim leiðum sem ætlast er til. Allar lántökur til langs tíma, þ. e. til lengri tíma en eins árs, eru óheimilar án sérstaks leyfis. Allar lántökur til skamms tíma, þ. e. vörukaupalán, eru óheimilar án leyfis, utan innflutningur með gjaldfresti á ákveðnum vöruflokkum og venjulega aðeins til þriggja mánaða. Verulegar hömlur eru á fjármagnsflutningum úr landi, t. d. vegna búferlaflutninga, arðs eða jafnvel eftirlauna.

Þessar hömlur jaðra í mörgum tilvikum við að vera skerðing á persónufrelsi manna. Þær eru ekki í samræmi við þann tíðaranda, sem ríkir í dag á Vesturlöndum, og ég efast um að þær séu í samræmi við samþykktir og sáttmála alþjóðastofnana, sem við erum aðilar að, um persónuréttindi manna.

Kannske er það ein þýðingarmesta breytingin, sem hefur orðið á meðferð gjaldeyrismála hér á landi síðan 1960, þegar innlendum aðilum var heimilað seint á árinu 1977 að stofna gjaldeyrisreikninga í íslenskum gjaldeyrisbönkum. Þróunin í notkun þessara reikninga sýnir best þörfina á að mismunandi möguleikar séu við meðferð gjaldeyris. Þessi breyting var viðurkenning á óviðunandi ástandi.

Hömlur af því tagi, sem ég hef hér nefnt, eru yfirleitt ekki til í nágrannalöndum okkar. Þær hafa fyrir löngu verið þar afnumdar og frelsi í gjaldeyrismálum hefur orðið til þess að auka utanríkisviðskipti þessara landa og hagsæld íbúanna yfirleitt.

Með þessu frv., sem hér er til umr., eru þessir gallar, sem ég hef talið upp á gildandi löggjöf, ekki afnumdir. Þeim er meira og minna viðhaldið með áframhaldandi leyfa- og eftirlitskerfi sem stendur allri framþróun fyrir þrifum. Aukið frelsi á þessu sviði sem öðrum hefur í för með sér aukna hagkvæmni, það eflir menn til framtaks og tryggir betri afkomu. Aukið frjálsræði í viðskiptum með erlent fjármagn er hliðstæða frjálsra viðskipta og verðmyndunar á innlendu fjármagni. Tilhugsunin um frjáls gjaldeyrisviðskipti er okkur þó e. t. v. fjarri vegna þess hversu lengi við höfum vanist hinu gagnstæða. Hér er þó ekki um neitt nýtt fyrirbrigði að ræða, heldur almenna reglu á Vesturlöndum að gjaldeyrisviðskipti séu að stærstum hluta frjáls. Heft gjaldeyrisviðskipti og óraunhæf gengisskráning hafa ekki styrkt útflutningsatvinnuvegina eða örvað útflutning, heldur hefur þetta dregið úr gjaldeyristekjum. Þetta takmarkar ferðafrelsi landsmanna, það leiðir til erlendrar skuldasöfnunar og það býður heim margvíslegri spillingu. Þessu þarf að breyta með frjálsum gjaldeyrisviðskiptum sem heimila öllum landsmönnum að eiga, kaupa og selja erlenda mynt þegar þeir óska. Verð erlendra gjaldmiðla ræðst þá af markaðsástæðum.

Kostir frjálsrar gjaldeyrisverslunar eru ótvíræðir og breyta miklu í atvinnulífinu. Almenningur og fyrirtæki hefðu fullt frelsi til að eiga, kaupa og selja erlenda mynt, rekstrargrundvelli útflutningsatvinnuvega yrði ekki stefnt í hættu vegna rangrar gengisskráningar og verulegur halli í utanríkisviðskiptum myndaðist ekki af þeim sökum. Gjaldeyrisstaðan yrði traustari, gjaldeyrir til ferðalaga yrði frjáls og án takmarkana. Kaup og sölu erlends gjaldeyris þarf að sjálfsögðu að einfalda og aðgang atvinnulífsins með erlendu fjármagni verður að rýmka eftir almennum reglum, og það þarf að afnema mismunun milli atvinnuvega og létta höftum af atvinnulífinu.

Ég hef í þessum orðum mínum gert að umtalsefni það sem Sjálfstfl. telur nauðsynlegt að framkvæmt verði í frjálsræðisátt í sambandi við gjaldeyris- og viðskiptamál. Þetta er í samræmi við það sem gerst hefur og er ríkjandi í öllum okkar nágranna- og viðskiptalöndum. En þetta frv., sem við erum að ræða, er ekki til þess fallið að leiða okkur að þessu marki og þess vegna getum við sjálfstæðismenn ekki stutt það.

Með hliðsjón af því, sem ég hef rakið, lýsir minni hl. n. fullri andstöðu við frv. og leggur til að það verði fellt.