17.05.1979
Sameinað þing: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4905 í B-deild Alþingistíðinda. (4253)

Almennar stjórnmálaumræður

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þegar þessar eldhúsdagsumr. fara fram á Alþ. blasir við hvert sem litið er ömurleg staðreynd nær 9 mánaða stjórnleysis, sem með viku hverri hefur fært okkur nær því mesta efnahagsöngþveiti sem þjóðin hefur komist í á síðari árum. Þessi staðreynd staðfestir að í landinu er vinstri stjórn, þriðja vinstri stjórnin frá stofnun lýðveldisins. Þau gífurlegu vandamál, sem við blasa eftir nær níu mánaða valdaferil hæstv. ríkisstj., gefa tilefni til rækilegrar umfjöllunar um stefnu vinstri stjórna. Í því sambandi tel ég nauðsynlegt og lærdómsríkt að við lítum til baka og gerum okkur grein fyrir, hvernig fyrri vinstri stjórnum tókst til, og berum það saman við þær staðreyndir sem við blasa í dag.

Frá stofnun lýðveldisins hefur Sjálfstfl. verið aðili að stjórn landsins í 29 ár og þá haft forustu lengst af. Vinstri flokkarnir hafa hins vegar farið með stjórn landsins tvívegis, samtals í rúm 6 ár. Allar vinstri stjórnir hafa verið myndaðar af áhrifamönnum Alþb. og þar í forustu hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson, en hann hefur ætíð hagað því svo, að formaður Framsfl. hefur verið forsrh. Alþfl.-menn hafa verið með þegar Alþb. og Framsfl. hafa þurft á þeim að halda.

Á fyrstu 12 árum lýðveldisins lögðu forustumenn Sjálfstfl. höfuðáherslu á að móta utanríkis- og öryggismál þjóðarinnar í samvinnu við frjálsar vestrænar þjóðir. Þá var undirbúin og hafin sókn í landhelgismálum til þess að fá yfirráðarétt yfir auðlindum fiskimiðanna umhverfis Ísland og auka þannig í framtíðinni hagsæld íslensku þjóðarinnar.

Vitað var um vilja og tilraunir vinstri manna til myndunar ríkisstj. Á árinu 1956 náðu þeir því takmarki. Var þá „Hræðslubandalagið“ fræga stofnað og þess freistað að ná meiri hl. á Alþ. með minni hl. kjósenda að baki sér.

Til þess að koma vinstri stjórn saman var öryggismálum þjóðarinnar teflt í tvísýnu og hin fræga samþykkt gerð á Alþ. 27. mars 1956, þar sem vinstri flokkarnir samþykktu að varnarliðið hyrfi áf landi brott. Með vinstri stjórninni 1956 átti að koma til margháttuð skipulagning og ríkisforsjá í stað einstaklingsframtaks og athafnafrelsis. Til þess að hafa allt líf atvinnurekstrarins í hendi sér og skammta eftir pólitískum geðþótta var beitt margföldu gengiskerfi og það gert mjög flókið. En höfuðtakmarkið var að setja Sjálfstfl. til hliðar — og þá hugsuðu menn í áratugum. Þessi vinstri stjórn flosnaði upp. Allar ráðagerðir hennar voru fyrir fram dæmdar til að mistakast. Forsrh., Hermann Jónasson, sem var kjarkmaður mikill, viðurkenndi ósigur sinn og lýsti því yfir á Alþ. eftir rúmlega tveggja ára stjórnarsetu, að ekki væri samstaða um nein úrræði til lausnar þeim mikla vanda sem ríkisstj. og stjórnarflokkarnir áttu beinlínis sök á, og ríkisstj. sagði því af sér.

Árið 1958 varð millibilsástand. Minnihlutastjórn Alþfl., sem Sjálfstfl. varði vantrausti, framkvæmdi stöðvunaraðgerðir í efnahagsmálum, og samkomulag hafði náðst um breytingar á kjördæmaskipun landsins. Á ný tók Sjálfstfl. við forustu og mynduð var með Alþfl. viðreisnarstjórn, sem sat að völdum næstu 12 ár. Grundvöllur þeirrar stjórnarstefnu var einstaklingsframtak og athafnafrelsi með hagsmuni allra stétta fyrir augum.

Með viðreisnarstjórninni, sem tók við völdum í árslok 1959, hófst eitt mesta framfaraskeið í sögu landsins, en þar var lagður grundvöllur að traustu og heilbrigðu efnahagskerfi þjóðarinnar þrátt fyrir efnahagsleg áföll og átök hagsmunahópa. Helsta ástæðan fyrir því, að svo vel tókst til, var að þá var í miklu ríkara mæli en áður stuðst við einstaklingsframtakið og atvinnufrelsi með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Er síst orðum aukið, að á þessu tímabili hafi þessi meginstefnumið Sjálfstfl. notið sín betur en nokkru sinni fyrr. Var á þessu tímabili lagður grundvöllur að aukinni hagnýtingu auðlinda landsins og upphafi stóriðju.

Eftir 12 ára tímabil viðreisnar kaus þjóðin sér aðra vinstri stjórn. Þá var líka kominn nýr formaður hjá framsóknarmönnum, og hv. 1. þm. Austurl. var vel ljóst að hann vildi gjarnan spreyta sig. Önnur vinstri stjórnin lifði að vísu hálfu ári lengur en sú fyrsta, enda tók hún við mjög góðu búi frá viðreisnarstjórninni. En allt fór á sömu leið. Hún hrökklaðist frá völdum, missti meiri hl. á Alþ. eftir að hafa gersamlega mistekist að ná tökum á efnahags- og kjaramálum, en hafði kallað yfir þjóðina þá verðbólgu sem glímt hefur verið við síðan.

Lýsingu á viðskilnaði þeirrar vinstri stjórnar er að finna í grg. með því frv. sem ríkisstj. lagði fyrir Alþ. á útmánuðum 1974, en þar er gerð grein fyrir því að verðbólgan magnist, að atvinnuöryggi og skipulegri viðleitni til efnahagslegra framfara sé teflt í tvísýnu, og verðbólgan fór á því ári í 54%.

Þannig var ástandið þegar Sjálfstfl. enn á ný tók við forustu þjóðarskútunnar og Geir Hallgrímsson myndaði ríkisstj. sína í ágúst 1974. Þeirri óvissu, sem ríkti í öryggismálum fyrir stjórnarmyndunina, var eytt og ríkisstj. tryggði áframhaldandi varnarsamstarf við vestrænar lýðræðisþjóðir. Stórfelldari breytingar urðu á sviði fiskveiðiréttarmála og hafréttarmála en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar. Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur, brottför Breta og Þjóðverja úr fiskveiðilögsögunni eftir veiðar í nálega 6 aldir við landið og óskoruð yfirráð Íslendinga sjálfra yfir fiskimiðalögsögu sinni er stærsti sigur þessarar þjóðar frá því að lýðveldi var stofnað. Friðunaraðgerðir og stjórnun veiða hafa verið tekin föstum tökum og engin önnur fiskveiðiþjóð hefur gengið lengra í þessum aðgerðum en við á þessu tímabili.

Vinstri verðbólgan var hins vegar ekki sigruð. Það tókst að minnka hana verulega og árið 1976 var hún 32% í stað 54% 1974, og um mitt árið 1977 var verðbólgustigið komið niður í 26%. Tekist hafði að draga úr ríkisútgjöldum og þau stórlega lækkuð sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, og hallalaus ríkisbúskapur var 1976.

Alþingiskosningar fóru fram á s. l. ári. Í þeim kosningum var þyrlað upp meira blekkingamoldviðri en nokkru sinni fyrr. Fulltrúar stjórnmálaflokkanna í stjórnum almannasamtaka voru látnir misnota samtök sín og umfram allt gerðar kröfur um „samningana í gildi“.

Þegar sýnt var að undir forustu sjálfstæðismanna tókst að tryggja öryggismálin og vinna sigur í landhelgismálinu, þá voru vinstri flokkarnir sammála um að sá árangur, sem náðst hafði í efnahagsmálum, skyldi eyðilagður og það notað til þess að koma á þriðju vinstri stjórninni. Hv. 1. þm. Austurl. kaus nú að gerast yfirráðherra án stjórnardeildar, að erlendri fyrirmynd, en formaður Framsfl. var reiðubúinn í forsrh.-stólinn enn á ný, og ekki stóð á Alþfl.-þm. að taka höndum saman við þennan forna vin sinn.

Sú vinstri stjórn, sem nú situr að völdum, er sú ógæfulegasta þeirra allra. Henni hefur tekist að kollsigla nær öllu á mun skemmri tíma en þeim fyrri. Frá fyrsta degi til dagsins í dag hafa stjórnarflokkarnir ekki náð samstöðu um nein mál er varða lausn aðsteðjandi vandamála, en þeir hafa hins vegar verið sammála um að hörfa 20 ár aftur í tímann og beita sömu aðferðum og fyrsta vinstri stjórnin gerði 1956–1958. Eitt eru þó ráðh. sammála um. Það er að sitja í ráðherrastólunum lengur en sætt er.

Alþfl.-menn hafa til þessa róað sjálfa sig með því að gefa út stórorðar yfirlýsingar og úrslitakosti með dagsetningum, en alltaf gefist upp fyrir Alþb.-mönnum og forsrh. Við eigum sjálfsagt eftir að heyra yfirlýsingar og úrslitakosti hér í kvöld af hálfu Alþfl.-manna — og allt verður jafnmarklaust og áður.

Á meðan stjórnarliðar brigsla hver öðrum um svik hallast æ meira á ógæfuhliðina. Stjórnin kemur sér ekki saman um stefnu í efnahagsmálum og fjármálum né kjaramálum, eins og fram kom í svari hæstv. forsrh. á Alþ. í dag. Sett eru lög um stjórn efnahagsmála sem nánast er pappírsgagn. Að svo miklu leyti sem eitthvað er þar bitastætt er það þverbrotið af ríkisstj. og stjórnarliði næstum dag hvern og ríkisútgjöldin aukin í stað þess að draga úr þeim. Fjmrh. skýrði frá því á Alþ. í dag, að aðeins eitt rn. hefði enn skilað till. um niðurskurð samkv. 10. gr. laga um efnahagsmál, en þar er gert ráð fyrir niðurskurði á ríkisútgjöldum um 1 milljarð kr. fyrir 15. maí. Gera má ráð fyrir mikilli aukningu ríkisútgjalda á þessu ári, jafnvel 33% af þjóðarframleiðslu, sem er það mesta sem verið hefur. Fyrirsjáanlegur er mikill halli á ríkissjóði. Verðhækkanir hafa aldrei verið meiri en eftir setningu efnahagslaganna. Búast má við 20—30% hækkun á smásöluverði landbúnaðarvara um næstu mánaðarmót. Verðbólgan æðir áfram og er spáð að hún verði um 45% á þessu ári, en aðrar spár herma að hún verði miklum mun meiri. Þegar þannig stendur á vill forsrh. senda þingið heim og nýtur að sjálfsögðu stuðnings yfirráðh., hv. 1. þm. Austurl., sem segir þingið búið að sitja nógu lengi. Og Alþfl.-mennirnir munu beygja sig eins og fyrri daginn.

Góðir áheyrendur. Ekki er óeðlilegt að menn spyrji nú: Hvað vill Sjálfstfl.? Hvernig vill hann taka á þeim vandamálum sem við er að etja á vinnumarkaðinum og í launamálum um þessar mundir? Svarið er þetta: Sjálfstfl. telur að gera eigi út um kaup og kjör á vinnumarkaðinum í frjálsum samningum vinnuveitenda og launþega, bæði um grunnlaun og vísitöluákvæði kjarasamninga. Afskipti ríkisvalds af kjarasamningum eru andstæð grundvallarstefnu Sjálfstfl. Þá er sagt: Sjálfstfl. hefur hvað eftir annað, þegar hann hefur átt sæti í ríkisstj., beitt sér fyrir afskiptum af kjarasamningum. Það er rétt. En Sjálfstfl. hefur aldrei talið að afskipti ríkisvalds af launamálum ættu að standa til frambúðar eða gætu staðið í langan tíma, heldur væru slíkar aðgerðir neyðarúrræði sem ekki gæti staðið nema stuttan tíma í senn.

Nú kann einhver að segja sem svo: Reynsla okkar af frjálsum kjarasamningum er ekki slík að það sé traustvekjandi að láta aðila vinnumarkaðarins um að taka ákvarðanir sem ráða úrslitum um þróun efnahagsog kjaramála. Frjálsir kjarasamningar voru gerðir á vinnumarkaðinum í febr. 1974 og í júní 1977 og í báðum tilvikum fylgdi kollsteypa í efnahagsmálum í kjölfarið. — Svar mitt er þetta: Það er rétt; að í febr. 1974 og í júní 1977 voru gerðir kjarasamningar sem voru gersamlega óraunhæfir og enginn grundvöllur var fyrir. Engu að síður teljum við sjálfstæðismenn að frjálsir samningar aðila vinnumarkaðarins eigi að vera aðalreglan og afskipti ríkisvaldsins alger undantekning. Reynsla okkar af afskiptum ríkisvalds er engu betri. Í kjölfar febrúarlaganna fylgdu harðorðar mótmætaaðgerðir verkalýðssamtaka sem höfðu mjög neikvæð áhrif á atvinnulífið og afkomu þjóðarbúsins. Núv. ríkisstj. hefur hins vegar stjórnað kjaramálum, frá því að hún tók við völdum, með tilskipunum og lagasetningu. Afleiðingin er sú, að algert öngþveiti blasir við á vinnumarkaðinum, margfalt erfiðara úrlausnar en þau vandamál sem upp komu í kjölfar febrúarlaganna.

Við sjálfstæðismenn viljum afnema þær leifar haftakerfisins sem enn haldast. Við viljum afnema verðlagsákvæði og skapa þar með grundvöll að stóraukinni samkeppni milli aðila í verslun og viðskiptum. Verslunin sjálf hefur sannað það í verki hvers frjáls verslun er megnug. Með því að afnema öll verðlagshöft er boðið upp á verðsamkeppni á öllum sviðum viðskipta og þjónustu. Eini aðilinn, sem getur hagnast á því svo að um munar, er neytandinn, launþeginn í landinu. Við höfum áratugareynslu af hörðum verðlagsákvæðum. Þau hafa fremur stuðlað að verðbólguþróun heldur en þau hafi dregið úr henni. Við höfum reynslu af því, að verðlagshöftin duga ekki í baráttunni gegn verðbólgunni. Hvers vegna ekki að reyna nýjar leiðir og sjá til hvers frjáls verðsamkeppni getur leitt. Við höfum í rauninni engu að tapa.

Við sjálfstæðismenn viljum líka afnema þau höft sem verið hafa á fjármagnsmarkaðinum. Til hvers hafa þau leitt? Sparifé landsmanna hefur dregist saman, skortur hefur verið á lánsfé, lánin hafa verið með þeim vaxtakjörum, að hver króna, sem tekin hefur verið að láni, hefur þýtt gróða fyrir lántakandann, en tap fyrir þann sem lánaði, sem í raun er sparifjáreigandinn. Við viljum afnema þetta kerfi sem er hliðhollt verðbólguhugsunarhættinum. Við viljum raunvexti sem munu tryggja sparifjáreigendum sanngjarnt endurgjald fyrir sparifé sitt, stuðla að auknu framboði lánsfjár og greiðari aðgangi einstaklinga og fyrirtækja að lánsfé og um leið draga úr óheilbrigðri verðbólgufjárfestingu. Við höfum áratugareynslu af lánsfjárhöftum og vaxtahöftum. Við vitum til hvers þessi höft hafa leitt. Hvers vegna ekki að reyna nýjar leiðir? Við höfum engu að tapa. Við sjálfstæðismenn viljum líka afnema gjaldeyrishöftin í landinu. Við Íslendingar erum eina þjóðin í okkar heimshluta sem býr við það leiðindaástand í gjaldeyrismálum sem allir þekkja.

Góðir áheyrendur. Við sjálfstæðismenn viljum skapa skilyrði til þess að dugnaður og framtak einstaklingsins fái að njóta sín til fulls. Við trúum því, að með því að opna allar gáttir og auka frjálsræði fólksins muni okkur takast að rífa okkur upp úr óðaverðbólgunni og þeirri stöðnun í efnahagsmálum sem hefur hamlað framþróun íslenska þjóðfélagsins í heilan áratug. Við viljum afhenda fólkinu sjálfu ákvörðunarvaldið í eigin málum og trúum því, að það sé þjóðarheildinni fyrir bestu. Reynslan sýnir okkur að stjórnartímabil Sjálfstfl. hefur einkennst af festu í stjórnarfari, markvissri uppbyggingu og framförum ásamt aukinni hagsæld landsmanna.

Sjálfstfl. hefur ávallt verið reiðubúinn til forustu í þjóðmálum og er það nú. Hann leggur á það áherslu með tilliti til ríkjandi ástands, að fólkið í landinu fái hið fyrsta tækifæri til að láta í ljós skoðun sína og velja á milli hafta og ríkisforsjár, sem hefur einkennt störf vinstri stjórna, og þeirrar grundvallarstefnu Sjálfstfl. sem byggist á frjálshyggju einstaklingsins. — Góða nótt.