17.05.1979
Sameinað þing: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4915 í B-deild Alþingistíðinda. (4256)

Almennar stjórnmálaumræður

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Ekki er það að ástæðulausu að margir eru nú uggandi um þróun verðlags- og launamála, og því er ekki að leyna að ríkisstj. er í miklum vanda stödd. Á síðustu vikum hefur þróun launamála vissulega orðið með allt öðrum hætti en áformað var þegar þessi stjórn hóf störf. Þá var það sett sem meginmarkmið að verja kaupmátt lægri launa og meðaltekna, en draga úr launamismun. Þess vegna var sett þak á vísitölugreiðslur sem við það var miðað að þeir, sem væru í efri hluta launastigans, fengju sömu krónutölu í verðbætur á laun og þeir sem væru í ákveðnum launaflokki BSRB. En á miðjum þessum vetri var þessari stefnu kollvarpað með óvæntum hætti. Þakinu var svipt af, fullar vísitölubætur voru greiddar á hæstu laun opinberra starfsmanna, og þó gekk fyrst fram af mönnum þegar vísitöluþakið fauk af launum flugmanna sem fengu þá sumir á þriðja hundrað þús. kr. í kauphækkun. Síðan hafa ýmsir hópar ofarlega í launastiganum boðað verkfallsaðgerðir. Það kom því fáum á óvart að við þessar aðstæður teldu opinberir starfsmenn óráðlegt að afsala sér 3% umsamdri launahækkun. Stórfelld hækkun á olíu og bensíni af erlendum toga sprottin var rétt að skella yfir, hækkun sem var óhjákvæmileg, en verður mörgum þung í skauti. Opinberar stofnanir höfðu auk þess fengið talsverðar hækkanir á þjónustustörfum sínum. Og þótt við ráðh. værum að vísu fremur skammaðir opinberlega fyrir of litlar hækkanir, m. a. af forustumönnum þess fjölmiðils sem útvarpar þessum umr. yfir land og lýð, var fólkið í landinu vafalaust á þveröfugri skoðun og þótti almennt nóg um.

Margur launamaðurinn hefur því spurt sjálfan sig að því undanfarnar vikur og það ekki að ástæðulausu: Er ég að dragast aftur úr örðum? Eiga hálaunamennirnir að komast upp með það að ná fram stórfelldum kauphækkunum á sama tíma og táglaunafólkið bíður átekta meðan baráttan við verðbólguna stendur sem hæst?

Þannig standa leikar í dag. Veður eru válynd og við höfum hrakist af réttri leið. Þó er það skoðun okkar Alþb.-manna að þrátt fyrir allt megi aftur ná réttum kúrs ef vilji er fyrir hendi.

Vika er nú liðin síðan við lögðum fram till. okkar um aðgerðir í launa- og kjaramálum. Í byrjun vikunnar lögðu framsóknarmenn fram sínar till., en þingflokkur Alþfl. hefur ekkert lagt til málanna enn þá. Ákvörðun má þó ekki dragast lengi úr þessu. Í till. okkar Alþb. manna er það grundvallaratriði nr. eitt að sett sé nýtt þak á vísitölugreiðslur og sama krónutala sé greidd á öll laun fyrir ofan 360–380 þús. kr. mánaðarlaun. Krónutölureglan hefur lengi átt mikinn hljómgrunn í okkar flokki. Þetta er stefnan sem samþ. var á seinasta Alþýðusambandsþingi haustið 1976, og þetta var stefna verkalýðshreyfingarinnar í kjarasamningum 1977. Bæði fyrir og eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar kom það fram af hálfu okkar Alþb.-manna að krónutölureglan væri eðlilegust á hæstu laun.

Ýmsir hafa reynt að snúa þessum staðreyndum við og fullyrða jafnvel blákalt að við höfum sagt eitt fyrir kosningar og annað eftir kosningar. Þetta er alrangt. Ég vil minna hér á að um miðjan júní á s. l. ári var ég spurður að því í sjónvarpsþætti, þar sem ég sat fyrir svörum af hálfu Alþb., hvort við gætum fallist á að þak yrði sett á vísitölugreiðslur á hærri laun. Ég svaraði því eindregið játandi, að við værum tvímælalaust hlynntir því að krónutölureglan væri látin gilda um hærri laun.

Hitt er svo allt annað mál, að hjá stjórnendum Reykjavíkurborgar þróuðust þessi mál á annan veg en hjá ríkinu. Þar var ákveðið strax eftir borgarstjórnarkosningar að hálaunaðir embættismenn borgarinnar fengju verulega skertar vísitölubætur. Þetta olli ekki litlum hávaða á sínum tíma og ekki síst á síðum Morgunblaðsins, en endanlega var um það samið hjá borginni að þetta sérstaka þak stæði í 6 mánuði eða til áramóta. Síðan líða 3 mánuðir þar til núv. ríkisstj. er mynduð og tekur ákvörðun um nýtt vísitöluþak á hærri laun í fullu samræmi við stefnu okkar Alþb.-manna.

Auðvitað átti önnur tilhögun hjá Reykjavíkurborg frá eldri tíð ekki að breyta neinu um meginstefnu ríkisstj. í þessu máli, enda örfáir menn hjá Reykjavíkurborg sem hér áttu hlut að máli. En fljótlega kom í ljós að sótt var af miklu kappi úr ýmsum áttum að vísitöluþak á hálaunamenn væri afnumið. Hinn 12. febr. s. l. lagði forsrh. fram í ríkisstj. efnahagsfrv. sem hlaut óblíðar viðtökur af hálfu okkar Alþb.-manna, og var það talsverður hvellur eins og flestum mun í fersku minni. Meðal margra atriða, sem við gagnrýndum, var einmitt tillaga um afnám vísitöluþaksins. Þetta ákvæði var þó síðar strikað út við meðferð málsins í ríkisstj. Þremur vikum síðar, hinn 5. mars, gerðist svo það að Kjaradómur svipti vísitöluþakinu af hjá háskólamenntuðum ríkisstarfsmönnum. Í kjölfar þess var þakinu lyft hjá öðrum starfsmönnum ríkisins gegn mótmælum okkar Alþb.-manna sem lögðum eindregið til að aftur yrði sett á þak sem héldi. En þegar það var ekki gert hlaut hitt að dynja yfir fyrr eða síðar, að aðrir hópar hálaunamanna brytust undan þaki.

Þetta er undirrótin að þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. Skriðan hljóp af stað og þess var ekki að vænta að lengi héldist friður á vinnumarkaði nema hún væri stöðvuð. Einmitt þess vegna er aldrei meiri nauðsyn en nú að málum sé aftur snúið á rétta braut og aftur sett á vísitöluþak.

Við myndun þessarar stjórnar var að því stefnt að fresta gerð nýrra kjarasamninga út þetta ár. Ég ítreka það sem ég hef þegar sagt, að því aðeins getur láglaunafólkið unað við óbreytta samninga að aðrir hópar vinnumarkaðarins ofar í launastiganum komist ekki upp með að geysast langt á undan. Þess vegna er það till. okkar nr. tvö, að auk vísitöluþaks á hálaunamenn verði ákveðið að láglaunafólk og fólk með meðaltekjur fái 3% hækkun eins og opinberir starfsmenn hafa nú fengið fram. Þessa hækkun verður ríkisstj. að tryggja með lögum, einfaldlega til þess að almennu verkalýðsfélögin telji sér stætt á því að fresta kröfugerð til undirbúnings nýjum samningum fram til 1. des.

Hins vegar er það mesti misskilningur, sem sumir virðast illa haldnir af þessa dagana, að nú sé brýnust þörf á því að samningafrelsi almennra verkalýðsfélaga sé upprætt með lagaboði í rúmlega hálft ár. Bann við hvers konar samnings- og verkfallsrétti almennra verkalýðsfélaga í hálft ár gæti auðveldlega haft í för með sér áframhaldandi lögbann á verkalýðsfélögin til margra ára. Eða er einhver svo bjartsýnn að hann ímyndi sér að vandamálin í efnahagslífi Íslendinga verði gufuð upp eftir hálft ár? Auðvitað yrði þá aftur hrópað á bann við almennum kjarasamningum rétt eins og nú er gert. Við komumst aldrei út úr þeim vítahring, sem íslenskt efnahagslíf er í og fráfarandi ríkisstj. ber mesta ábyrgð á, með því einu að setja boð og bönn með lögum sem ganga svo freklega á viðurkenndan samningsrétt að þau yrðu aldrei virt í reynd. Þá er verr af stað farið en heima setið. Það þarf lagni og samvinnu ekki síður en stjórnsemi til að brjótast fram hjá erfiðleikum líðandi stundar.

Sá vandi, sem að steðjar, verður því aðeins leystur að samstarf haldist með ríkisstj, og meginhluta verkalýðshreyfingar, en á það samstarf hefur því miður borið nokkurn skugga í seinni tíð, eins og flestum er í fersku minni.

Alþb. mun engan þátt eiga í löggjöf sem leggur bönd á starfsemi verkalýðsfélaga, enda hefur margsinnis komið fram að fullur samstarfsvilji er enn fyrir hendi af þeirra hálfu ef ríkisvaldið reynir aðeins að tryggja að fólk með lág laun og meðaltekjur dragist ekki aftur úr.

Hitt er jafnljóst, að þegar láglaunafólkið sýnir biðlund vegna ríkjandi aðstæðna getur verið eðlilegt og óhjákvæmilegt að ríkisvaldið hafi bein afskipti af kjarabaráttu hálaunamanna. Það er siðferðilega rökrétt að önnur lögmál gildi um starfshópa sem hafa meira en tvöfaldar mánaðartekjur verkamanna.

Önnur brýn úrræði, sem við Alþb.-menn höfum gert till, um, varða hálaunaskatt og ákveðið þak á verðhækkanir vöru og þjónustu eftir sérstakri reglu.

Allt eru þetta óhjákvæmilegar ráðstafanir sem Alþ. á að taka ákvörðun um áður en því er slitið. Þetta yrðu fjórðu lögin sem sérstaklega væru sett á starfstíma þessarar stjórnar til að hamla gegn verðbólgu. Þau þrjú, sem þegar hafa verið sett, hafa verulega dregið úr skrið verðbólgunnar sem var langt fyrir 50% þegar stjórnin tók við.

En hver eru svo úrræði stjórnarandstöðunnar, forustumanna Sjálfstfl., sem mesta ábyrgð báru á því hvernig komið var í íslensku efnahagslífi þegar þessi stjórn tók við? Frá þeim heyrist varla hósti né stuna þegar efnahagsmál ber á góma hér á Alþ., enda hefur fátt komist að hjá þeim í marga mánuði annað en innbyrðis valdabarátta. Það eru einmitt megineinkenni stjórnmálabaráttunnar á þessum vetri, að stjórnarandstaðan situr á þingpöllum feimin og ráðvillt eins og ungmær á sveitaballi og horfir út í bláinn en stjórnarflokkarnir takast á fyrir opnum tjöldum svo að verulega hriktir í. Þetta þarf engan að undra. Íslenskt efnahagslíf hefur verið í slíkum ólgusjó að út úr honum verður ekki brotist án þess að mikið gangi á. Samstarfsflokkarnir í ríkisstj. verða að una því þótt nokkur átök eigi sér stað í samskiptum þeirra. Það sýnir aðeins að þeir hafa lagt sig alla fram.

Sjálfstfl. verður það skammgóður vermir, þótt hann haldi sig til hlés og láti sem minnst á sér bera. Þrátt fyrir allt verður það niðurstaðan þegar 3% almenn launahækkun hefur gengið yfir að loknum 9 mánaða starfstíma þessarar stjórnar, að atvinnuleysi hefur ekki aukist, launakjör fólks hafa haldist óbreytt í megindráttum og verðbólgan er á niðurleið. Ekki má það heldur gleymast, fleira varðar nokkru í íslenskum þjóðmálum en verðlags- og launamál, í þrengri merkingu.

Framfaraspor hafa verið stigin á flestum sviðum og fjöldamörg mál, sem varða réttindi og hagsmuni hins almenna manns, eru nú í undirbúningi. Ég nefni þrjú dæmi: Verkamenn og iðnaðarmenn, sem forfallast frá vinnu vegna atvinnusjúkdóma eða slysa á vinnustað, eiga nú rétt á 6 mánaða launum. Allir verkamenn eiga rétt á ókeypis læknisrannsókn á tveggja ára fresti. Lög hafa verið sett um afnám eftirvinnu í áföngum, þannig að á þessu ári er eftirvinna afnumin á föstudegi og síðan á öðrum dögum vinnuvikunnar á næstu 4 árum. Eins mætti nefna ýmis dæmi um félagsleg umbótamál sjómanna, sem nú er unnið að af fullum krafti.

Framhaldsskólafrv. er nú á góðri leið í gegnum þingið þrátt fyrir harða andstöðu nokkurra íhaldsmanna og eftir margra ára starf utan þings og innan. Með samþykkt þessa frv., ef að lögum verður, er verklegt nám og bóklegt sett á sama bekk fjárhagslega og stjórnunarlega og lýkur þar með hinni skaðlegu forréttindaaðstöðu sem bóknámið hefur löngum haft. Þetta nýja kerfi fjölbrautaskóla er verulegt hagsmunamál fyrir landshlutana fjarri höfuðborgarsvæðinu og á eftir að stuðla að fjölþættari menntun ungs fólks, auknu valfrelsi til náms og auknum áhuga á hagnýtri menntun. Jafnframt er nú stefnt að stórauknu framlagi ríkisins til byggingar verknámsaðstöðu víða um land, eins og þegar kemur fram í fjárlögum þessa árs. Verulega aukin fullorðinsfræðsla er nú í athugun og undirbúningi. Ég er sannfærður um að þess er skammt að bíða, að um það verði samið að sérhver vinnandi maður eigi rétt til endurmenntunar í hálft ár a. m. k. að loknu 10 ára starfi. Allir hafa þörf fyrir endurmenntun, bæði í þágu sjálfs sín og í þágu atvinnuvega og þjóðfélags. Fólk á ekki að þurfa að grotna niður við sömu handtökin áratugum saman. Breytt viðfangsefni eru hverjum manni nauðsyn, og alls staðar er þörf á því að starfsmenn hafi raunverulega aðstöðu til að kynnast nýjungum og breyttum viðhorfum.

Nýtt frv. liggur nú fyrir Alþ. um Lánasjóð ísl. námsmanna sem ágæt samstaða hefur skapast um milli fulltrúa námsmanna og ríkisvalds. Frv. þetta, ef að lögum verður, mun mæta fullri umframfjárþörf námsmanna að þrem árum liðnum, en jafnframt verður endurgreiðslum til sjóðsins hraðað frá þeim mörgu sem miklar tekjur hafa að námi loknu.

Bygging leikskóla og dagvistarstofnana hefur tekið mikinn fjörkipp um land allt nú í ár, eftir að framlag ríkisins var tvöfaldað á fjárlögum þessa árs, og þessari sókn þarf að halda áfram af fullum krafti.

Orku- og iðnaðarmálum er mikið um að vera um þessar mundir. Unnið er markvisst að jöfnun raforkuverðs. Þegar ríkisstj. tók við var munur á raforkuverði komin upp í 88%, en þessi munur hefur nú aftur lækkað verulega og er nú rúmlega 50%. Fullur skriður er nú á undirbúningi þess að stofnað verði landsfyrirtæki um orkuöflun með samruna Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar. En endurskipulagning raforkukerfisins er forsenda þess að skynsemi og réttlæti ríki í orkumálum Íslendinga.

Iðnrh. hefur haft forustu um nýja stefnumörkun í iðnaðarmálum í þeim tilgangi að lyfta þessum atvinnuvegi á hærra framleiðnistig, skapa nægilega atvinnu og tryggja forræði landsmanna yfir íslensku atvinnulífi og auðlindum. Fullt samkomulag er nú fengið um aðgerðir til að vernda íslenskan iðnað fyrir ótímabærri samkeppni innfluttra vara með samþykkt aðlögunargjalds sem jafnframt verður varið til eflingar íslenskum iðnaði.

Á vegum viðskrh. hefur markvisst verið unnið að rannsókn á innflutnings- og útflutningsverslun landsmanna. Verið er að koma upp nýju eftirlitskerfi til að unnt sé að fylgjast náið með því að umboðslaunum frá erlendum aðilum sé skilað í íslenska banka, og jafnframt er hafin reglubundin söfnun upplýsinga um verðlag erlendis.

Ákvæði laga um frjálsa, óhefta álagningu hafa verið felld niður, og á það reynir þessa dagana hvort meiri hl. Alþingis sé reiðubúinn að samþ. frv. viðskrh. um gjaldeyrismál sem stefnir að meiri festu í þessum málum og strangari viðurlögum við lagabrotum.

Olíustyrkur til þeirra, sem kynda hús sín með olíu, hefur verið tvöfaldaður á starfstíma þessarar stjórnar. Á vegum samgrn. er nú unnið að till. um samræmda flutninga á landi, í lofti og á sjó, en þróun þessara mála og skipulag hefur mjög mótast af tilviljun og handahófi fram að þessu.

Á undanförnum árum hafa framlög til nýbyggingar vega farið verulega rýrnandi ár frá ári. Í nýrri vegáætlun er þessari öfugþróun snúið við og algjör umskipti verða í uppbyggingu veganna frá og með árinu 1980. Því miður var ekki samstaða um að þessi stefnubreyting kæmist í framkvæmd þegar í stað, enda miklar aðhaldsaðgerðir í gangi þetta árið. Þess vegna mótast fjárframlög til vegamála á þessu ári í aðalatriðum af vegáætlun frá árinu 1977 sem gerð var þá til þriggja ára. En á næsta ári hækka framlög til nýbyggingar stofnbrauta og þjóðbrauta úr 4300 millj. kr í rúma 10 milljarða kr., sem er um 70–80% aukning að framkvæmdagildi ef tekið er tillit til áætlaðrar verðbólgu milli ára.

Á fáum sviðum er íslenskt þjóðfélag jafnfrumstætt miðað við nálæg lönd og einmitt í vegamálum. Stefnubreyting til stóraukinna framkvæmda er mikið nauðsynjamál sem verður að fylgja fast eftir.

Ríkisstj. hefur mikið verk að vinna hvert sem augum er litið, en til þess þarf hún starfsfrið. Því miður hættir mörgum til að mæna á launabreytingar sem upphaf og endi alls ills. Sóknin gegn verðbólgunni snýst þá upp í sókn gegn kaupmætti launa. Menn ímynda sér að unnt sé að losna við verðbólguna með því að strika út verðlagsbætur á laun með einu pennastriki löggjafans og skera framkvæmdir niður við trog.

Sá, sem er staddur á bröttu fjalli og horfir út yfir hengiflugið, veit að stysta leiðin niður er að henda sér fram af brúninni. Þó velur hann vafalaust lengri og seinfarnari leið niður brattann. Ég er sannfærður um að mikill meiri hluti fólks kærir sig ekki um um að henda sér út í atvinnuleysi, stórfellda kjaraskerðingu láglaunafólks og villtar kjaradeilur í þeim tilgangi að útrýma verðbólgu á fáeinum mánuðum. Það skilur að við verðum skynseminnar vegna að velja lengri og seinfarnari leið og beita nokkurri lagni og samvinnuvilja. Stöðugt fleiri gera sér þar að auki ljóst að lausnin á efnahagsvanda Íslendinga snýst ekki fyrst og fremst um nokkra prósentutölu upp eða niður við þessi mánaðamótin eða hin. Margt vegur miklu þyngra. Atvinnuvegir okkar eru illa búnir tækjum, illa skipulagðir. Milliliðakerfið er mjög dýrt og er að sliga þessa fámennu þjóð. Þar þarf að grisja og draga verulega úr kostnaði. Allt tekur þetta sinn tíma.

Góðir hlustendur. Við verðum umfram allt að sameinast um gagngerar kerfisbreytingar sem gera okkur kleift að skipta þjóðartekjum á réttlátari hátt. — Ég þakka áheyrnina.