17.05.1979
Sameinað þing: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4924 í B-deild Alþingistíðinda. (4258)

Almennar stjórnmálaumræður

Ellert B. Schram:

Gott kvöld, góðir hlustendur. Það er vá fyrir dyrum í okkar litla þjóðfélagi. Verkföll lama atvinnulíf og bjóða vöruskorti heim. Hafís fyllir flóa og firði og frostnætur valda kali á jörðu og búsifjum hjá bændum. Olíuverðshækkanir skapa risavaxinn vanda fyrir útgerð og annan atvinnurekstur, og bensín og hitunarkostnaður stígur upp úr öllu valdi. Kröfur og hótanir berast hvaðanæva að og launamismunur og verðbólguástand skapar glundroða og örvæntingu hjá stéttasamtökum sem einstaklingum. Spáð er verðbólgu allt frá 50–100% á þessu ári, og þrátt fyrir vor og hækkandi sól er óhugur og kvíði í fólki. Sá kvíði stafar ekki síst af þeirri vá að í landinu situr ríkisstj. sem virðist ekki hafa minnstu möguleika, hvað þá getu til að takast á við vandamálin og veita þjóðinni þá forustu sem nú er brýnni en nokkru sinni fyrr.

Mér dettur auðvitað ekki í hug að skella allri skuld á ríkisstj. vegna þeirra vandamála sem að framan eru rakin. Hún ræður hvorki við hafís né vorharðindi, olíuverðshækkanir né óbilgjarnar kröfur. En það verður að gera þá kröfu til ríkisstj., að hún hafi stefnu, samstöðu og þrek til að takast á við erfiðleikana og leiða þjóðina í gegnum þá. Í þeim efnum hefur hún gjörsamlega brugðist og að svo miklu leyti sem efnahagsmál eru á valdi stjórnvalda hefur ríkisstj. fyrir löngu grafið eigin gröf.

Yfir þessari staðreynd gæti stjórnarandstaðan hlakkað. Það geri ég þó ekki. Þjóðin krefst þess að viðnám gegn verðbólgu beri árangur, og skiptir þá ekki máli hverjir sitja í stjórn. Verðbólgan er slíkur vágestur, að það er skylda ábyrgra stjórnmálamanna og reyndar hvers einasta Íslendings að óska þess, að rétt kjörinni ríkisstj. takist vel upp í þessari örlagaglímu. Okkur getur greint á í hinum ýmsu þjóðfélagsmálum, og við sjálfstæðismenn drögum enga dul á andstöðu okkar við þá ríkisstj. sem boðar aukinn áætlunarbúskap, ríkisforsjá og skattpíningu. En við höfum ekki lagt stein í götu ríkisstj. ef um hefur verið að ræða viðleitni til hjöðnunar á verðbólgu. Sú viðleitni hefur hins vegar verið í lágmarki og oftast sýndarmennskan ein, — eða hver er nú uppskeran af bráðabirgðaráðstöfununum í sept., efnahagsaðgerðum í des., fjárlögum um áramót, efnahagslögum í apríl eða öllum stóru orðunum um samráð við launþegahreyfinguna? Uppskeran er eins og til er sáð: algjör upplausn og ringulreið hvert sem lítið er. Og hvernig á öðruvísi að fara þegar ósamkomulag er í hverju máli og stjórnarsinnar hugsa um það eitt að koma höggi hver á annan.

Þinghaldið í vetur hefur einkennst af tortryggni og hatrömmum deilum milli stjórnarflokkanna innbyrðis, og mér er til efs að stjórnarfar hafi áður verið með slíkum endemum hér á landi. Allt hefur þetta leitt til stjórnleysis og þess sem verra er: trúnaðarbrests milli fólks og stjórnar. Opinberir starfsmenn hafa hafnað því samkomulagi sem ríkisstj. hafði gert við stjórn BSRB. Vinnuveitendasambandið vísaði á bug þeirri ósk að aðilar innan ASÍ fengju 3% hækkun eins og opinberir starfsmenn. Og farmenn neita að verða við tilmælum ríkisstj. um frestun verkfalls og hnykkja á með þeim orðum, að það verði til einskis að samþ. lög um verkfallsbann, eftir þeim verði ekki farið, enda séu nú menn í ríkisstj. sem fyrir stuttu hafi gefið þar fordæmi með því að hvetja fólk til að virða slík lög að vettugi.

Og ekki eykur það tiltrúna á ríkisstj., að ráðh. og áhrifamenn innan stjórnarliðsins bera nú hver annan sökum hvernig komið sé. Við heyrðum áðan hjá hæstv. ráðh. Ragnari Arnalds lítið sýnishorn af þessum orðaskiptum, enda virðis hann telja það samstarfinu til sérstakra tekna að það „hrikti í“, eins og hann tók til orða. Það er ekki von að vel gangi.

Ráðh. gerði þaklyftingu af launum hjá borgarstjórn Reykjavíkur að umræðuefni. Í þeim efnum hefur hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson bent. á að sú þaklyfting sé orsök ófaranna, en Alþb. hafi haft alla forustu um þá ákvörðun. Þetta endurtók hæstv. ráðh. Steingrímur Hermannsson áðan. Á móti þessu heyrum við svo fullyrðingar Lúðvíks Jósepssonar og annarra Alþb.-manna þess efnis, að það hafi verið Framsfl. og þó einkum Tómas Árnason sem barist hafi fyrir þaklyftingunni. Garmurinn hann Ketill, Alþfl., hafi síðan staðið þétt við hlið Tómasar í þessu efni.

Það er sennilega gleggsta dæmið um ástandið, að þegar Vilmundur Gylfason lýsti því yfir í síðustu viku að stefna ríkisstj. væri gjaldþrota þótti sú yfirlýsing engum tíðindum sæta, hvað þá að einhverjum dytti í hug að mótmæla henni. Hér var aðeins verið að segja það sem allir vissu.

Nú þegar þessar eldhúsumræður fara fram eiga sér stað enn ein átökin innan stjórnarliðsins og sennilega eru það dauðateygjurnar. Allir hafa stjórnarflokkarnir raunverulega gefist upp, en hugsa um það eitt hvernig megi bjarga sér á flóttanum. Í gærkvöld var haldinn fundur í Alþfl. þar sem tekin var sú afstaða að afnema alla gildandi kjarasamninga og leggja það í vald aðila vinnumarkaðarins hvað í staðinn kæmi. Jafnframt var þess krafist, að þingi verði ekki slitið fyrr en ljóst sé til hvaða úrræða ríkisstj. hyggst grípa. Ef taka á þessar samþykktir alvarlega þýða þær ekkert annað en vantraust á ríkisstj. og höfnun á þeim efnahagsaðgerðum sem hinir stjórnarflokkarnir leggja til með lagasetningu. Það væri sannarlega kaldhæðni örlaganna ef stjórnin færi nú frá vegna ágreinings um það, hvort lögbinda ætti grunnkaup, vísitöluþak og bann við verkföllum eða afnema alla kjarasamninga og þá um leið allar væntanlegar verðbætur í einu lagi.

Þetta eru þær till. sem nú eru til umræðu í ríkisstj., — till. sem hingað til hafa heitið á máli Þjóðviljans „íhaldsúrræði og fjandsamleg afstaða til launþega“. Líf ríkisstj. er sem sagt undir því komið ekki aðeins að skerða eða afnema gerða kjarasamninga, heldur að stöðva allar grunnkaupshækkanir og banna yfirstandandi verkföll með lögum. Þetta eru dapurleg örlög fyrir þá stjórnmálamenn sem ráku kosningabaráttu sína fyrir tæpu ári á því slagorði að samninga bæri að virða og kosningar væru kjarabarátta. Skyldi ekki margur maðurinn sjá kosningaslagorð og atburði síðasta árs í nýju ljósi?

Um þetta er óþarfi að fjölyrða. Það er í rauninni tímaeyðsla að tíunda alla þá gagnrýni sem fram mætti setja á núv. ríkisstj. Það hefur ekki aðra þýðingu en þá að vara við slíku stjórnarsamstarfi í framtíðinni. Meira máli skiptir það sem fram undan er. Hvað er til ráða? Hvernig er unnt að snúa kvíða fólks í bjartsýni, ráða niðurlögum verðbólgunnar og treysta atvinnulíf og framfarir í landinu? Menn spyrja hvort Sjálfstfl. sé betur fær til þeirra verka, hvernig hann mundi leysa þann vanda sem nú steðjar að. Sjálfstfl. útilokar ekki takmarkanir á verðbótum launa eða vísitöluþak á hærri laun, og hann mundi leggja áherslu á óskertan kaupmátt lægstu launa. Hvort tveggja eru leiðir sem Sjátfstfl. hefur áður lagt til að farnar yrðu, a. m. k. til skamms tíma. Hins vegar hygg ég að sjálfstæðismenn hafi lært þá lexíu á síðasta vetri, að það er óhyggilegt og varasamt að grípa inn í gerða kjarasamninga, hvað þá að banna beinlínis verkföll. Slíkar aðgerðir munu mæta andstöðu, hverjir sem í hlut eiga, og varla bera annan árangur en þann að magna upp ófrið.

Sjálfstfl. hefur kynnt þá stefnu sína, að í framtíðinni verði að treysta á samninga aðila vinnumarkaðarins sjálfs og þeir sem semja verði að bera ábyrgð á þeim ákvörðunum í stað þess að varpa afleiðingunum yfir á ríkisvaldið. Þessi afstaða kemur fram í þeirri stefnuyfirlýsingu sem Sjálfstfl. hefur sent frá sér og ber nafnið „endurreisn í anda frjálshyggju“. Sú stefnuyfirlýsing markar tímamót í stjórnmálum. Hún hefur vakið umtal og vonir, — vonir um afdráttarlausa stefnu stjórnmálaflokks sem þorir að leggja til atlögu við efnahagsvanda og aðra erfiðleika á grundvelli frjálsræðis og trúar á fólkið sjálf. Þessi stefna leiðir ekki til heimskreppu, eins og Steingrímur Hermannsson lætur sér detta í hug, heldur hefur örugglega sömu áhrif til velmegunar og framfara og í öllum öðrum vestrænum löndum. Við lifum nefnilega á árinu 1979, en ekki árinu 1929.

Góðir hlustendur. Núv. ríkisstj. er að syngja sitt síðasta. Dagar hennar eru taldir í þeim skilningi að hún geti haft stjórn á þessu landi. Vel má vera að hún lafi enn um sinn. Það breytir engu. Enn einu sinni hefur samsteypustjórn ólíkra flokka orðið sjálfri sér sundurþykk og nærri því sjálfdauð. Ég segi: Er ekki kominn tími til að veita einum flokki brautargengi svo hann nái meirihlutaaðstöðu á þingi, nái að framfylgja stefnu sinni án samkrulls við aðra flokka.

Sjálfstfl. á að fá þetta tækifæri. Hann lofar ekki gulli og grænum skógum, en heitir því að snúa ofan af ríkisíhlutun og skattpíningu. Hann lofar því að framkvæma gjörbreytta stefnu í verslunar- og atvinnumálum. Hann heitir valddreifingu í stjórnsýslu og eflingu menningar og mennta í anda frjálshyggju. Sjálfstfl. er reiðubúinn að láta dæma sig af stefnu sinni og framkvæmd hennar. Ég skora á landsmenn að ganga til liðs við Sjálfstfl. og veita honum tækifæri til að stjórna einum.

Það hefur verið fundið flokknum til foráttu að deilur hafi staðið um forustu í honum. Sá ágreiningur þarf ekki að vera óeðlilegur. Í stórum flokki geta menn haft mismunandi skoðun á því, hver sé best til forustu fallinn. Nú hefur landsfundur 900 trúnaðarmanna flokksins valið sér formann og varaformann. Það kjör er óumdeilt. En forusta í einum flokki byggist ekki á einum eða tveim mönnum. Innan vébanda Sjálfstfl. er stór hópur hæfra manna sem leggur á ráðin og mun fá aukin áhrif nú og á næstunni. Það er fólk úr öllum stéttum, kjördæmum og aldurshópum, — fólk sem sækir styrk sinn til lífsins eins og það er án fordóma eða fræðikenninga, — fólk sem er frjálshuga og umburðarlynt, sjálfstæðir einstaklingar. Sjálfstfl. er til orðinn fyrir slíkt fólk og hann sækist eftir stuðningi þess — ekki sjálfs sín vegna, heldur vegna þessara sömu einstaklinga og þjóðarinnar allrar.

Ég hef þá trú að brátt muni eiga sér stað þáttaskil í íslenskum stjórnmálum. Núv. ríkisstj. hefur reynst ófær til að stjórna. Að því leyti hefur hún aukið enn á glundroðann og upplausnina í þjóðfélaginu. En hún hefur gert gagn að því leyti, að Íslendingar munu hafna vinstri stjórnum í næstu framtíð. Hún hefur skapað Sjálfstfl. skilyrði til sóknar og styrks til að móta og framfylgja þeirri stefnu sem mun snúa óhug í kjark, vonleysi til áræðis, fjötrum í frelsi. Það er undir þér komið, hlustandi góður, hvort þessi möguleiki getur orðið að veruleika. — Þökk þeim sem hlýddu.