09.11.1978
Sameinað þing: 17. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

55. mál, jöfnun upphitunarkostnaðar í skólum

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég er þakklátur þeim tveimur hv. þm., sem hafa tekið undir þessa tillögu. Út af því sem hv. 3. þm. Austurl. sagði og bar saman þá till., sem ég hef hér mælt fyrir, og fyrri afgreiðslu, þá er ljóst og ég vil leggja á það nokkra áherslu, að þær eru ekki alveg samstofna. Mér finnst ákaflega þýðingarmikið að reynt verði að fara þá leið að einhverju marki að ná því markmiði, sem till. gerir ráð fyrir, með öðru en beinum peningagreiðslum úr ríkissjóði, þ.e.a.s. með öðru en rekstrarstyrk, og þá á ég við það, sem ég legg áherslu á í till., að það verði gerð úttekt á kyndingarbúnaði skóla og það verði þá alveg sérstaklega athugað, hvar sé hægt að ganga frá rafhitun í skólum, m.a. með tilliti til þess, hvort orka sé fyrir hendi, og einnig með tilliti til þess, að hún sé þá á því verði sem sambærilegt geti talist. Ég held að það yrði hægt að minnka þennan vanda mikið ef þessi leið væri farin. Ég legg líka á það áherslu í þessu sambandi, að þessi könnun þyrfti ekki að vera kostnaðarsöm fyrir ríkissjóð. Það er ekkert eðlilegra í þessum efnum heldur en sveitarfélögin láti gera þetta sjálf. Sums staðar eru meira að segja til áætlanir um þetta, þannig að hér er fyrst og fremst um ákveðna vinnu að ræða sem þyrfti ekki að kosta mikið fjármagn. Ég held að við verðum í vaxandi mæli, þegar svona stendur á, að reyna að leysa málin með vissri hagræðingu og með því að nota aðra orku. Þetta vil ég alveg sérstaklega leggja áherslu á.

Út af því, sem hv. 5. þm. Vesturl., Alexander Stefánsson, sagði hér í sambandi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, vil ég alveg sérstaklega taka það fram og undirstrika það, að minni sveitarfélögin, litlu sveitarfélögin bera á vissan hátt skarðan hlut frá borði við skiptingu á Jöfnunarsjóði. Þar kemur m.a. það til, að í þeim efnum er höfðatölureglan lögð til grundvallar. Hún er óhagkvæm fyrir litlu sveitarfélögin. Ég vil líka leggja á það áherslu og satt að segja vara við því, þegar skipting er gerð á milli ríkis og sveitarfélaga, eins og hefur verið gert oftar en einu sinni, þá vil ég vara sérstaklega við þeim jöfnuði, sem er dreginn á milli sveitarfélaganna annars vegar og ríkisvaldsins hins vegar, og það einfaldlega vegna þess, að verkefnin, sem falla í hlut sveitarfélaganna, eru ákaflega misjafnlega kostnaðarsöm fyrir þau hvert og eitt.

Ég vil svo aðeins í lokin undirstrika það alveg sérstaklega, að þau sveitarfélög, sem reka sína skóla, eru ekki í neinum vanskilum og þau ráða við þessi verkefni. En í framhaldi af því, sem hv. þm. Alexander Stefánsson sagði hér um tekjustofna sveitarfélaganna, þá eru þeir afmarkaðir. Og það er í rauninni það sem er hættulegast í þessu máli, að þegar því fjármagni, sem sveitarfélögin hafa til umráða, hefur verið deilt á þjónustuliðina, þá er orðið lítið eftir til að gera ýmislegt af því sem er lífsnauðsynlegt í öllum þeim byggðarlögum sem vilja skapa einhverja framþróun.

Ég endurtek svo þakklæti mitt, og ég veit að þessi till. mun fá greiða afgreiðslu hér á Alþ. Og ég efast ekki um það, að að því leyti sem hæstv. orkumálaráðh. mun fjalla um hana, þá muni hann einnig greiða veg þessa máls.