17.05.1979
Sameinað þing: 97. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4930 í B-deild Alþingistíðinda. (4260)

Almennar stjórnmálaumræður

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Þessar útvarpsumr. hér í Sþ. í kvöld eru fyrir ýmissa hluta sakir merkilegar. Þær eiga sér stað undir lok þings sem kannske hefur verið venju fremur róstusamt, — þing sem hefur einkennst af því að stjórnarmyndunarviðræðunum, sem hófust eftir kosningar í fyrrasumar, eru eiginlega hreint ekki lokið enn þá. Þessar umr. hafa leitt í ljós að það er ágreiningur milli stjórnarflokkanna um hvernig leysa skuli þann vanda sem nú er við að etja. Þetta er ekki ný bóla og kemur líklega fáum á óvart. Síðast, en ekki síst hafa þessar umr. væntanlega endanlega staðfest öllum landslýð það sem raunar var mætavel kunnugt áður, að stærsti flokkur landsins, stjórnarandstaðan, Sjálfstfl., hefur í vetur bókstaflega ekkert bitastætt haft til málanna að leggja. Þar er hins vegar hver höndin upp á móti annarri — að hjálpa hinni væntanlega, eins og góður maður komst nýlega að orði. Forustudeilur og heimilisböl marka þar störf og stefnu, eins og raunar hv. þm. Ellert B. Schram vék að áðan er hann minntist á þau hjaðningavíg sem átt hafa sér stað innan Sjálfstfl. nú að undanförnu.

Fyrir réttu ári voru menn að búa sig undir orrahríð kosninganna, hita sig upp fyrir bardagann. Í raun réttri var kosningabaráttan af hálfu okkar Alþfl.-manna aðeins háð um eitt meginmál. Hún var háð um það að ráða niðurlögum verðbólgunnar með gerbreyttri efnahagsstefnu. En Alþfl. var sannarlega ekki eini flokkurinn sem gerði baráttuna við verðbólguna að meginþætti kosningabaráttunnar. Það gerðu hinir flokkarnir raunar líka, þar skarst enginn úr leik. En það er þannig með verðbólguna, eins og einn frægasti núlifandi hagspekingur lét um mælt, að það tala allir um hana, en enginn fæst til að gera neitt gegn henni.

Fyrir kosningarnar lagði Alþfl. fram raunhæfa stefnuskrá að því marki að ná varanlegum árangri í áratugabaráttu við verðbólguna. Stefna Alþfl. í þessum málum átti hljómgrunn meðal fólks og flokkurinn vann mesta kosningasigur í allri sögu sinni. Jafnframt beið stefna ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar skipbrot og Sjálfstfl. og Framsfl. guldu meira afhroð en dæmi voru um áður. En hvað hefur síðan gerst? Það er fróðlegt að hugleiða.

Allt frá því að núv. ríkisstj. var mynduð hefur Alþfl. unnið að því, — unnið markvisst og af festu að því að sett væru skynsamleg markmið í verðbólgumálum, og það sem meira er: bent á raunhæfar leiðir til að ná þessum markmiðum. Það er skoðun okkar að það hafi tvímælalaust verið rétt að ganga til samstarfs við Framsfl. og Alþb. að loknum kosningum. Um annað var ekki að tefla. Ég fullyrði líka að Alþfl. hefur allan þennan tíma unnið að því af fullkomnum heilindum að reyna að hemja verðbólguna sem stefnir ekki aðeins hinni veraldlegu, heldur líka hinni andlegu velferð þessarar þjóðar í hættu.

En hvað er það þá sem hefur brugðist? Hvað er það sem er að? Við því er ekkert eitt svar. Okkar stjórnkerfi og okkar flokkakerfi, þar sem enginn einn flokkur hefur meiri hl., — þrátt fyrir óskhyggju sjálfstæðismanna í þá veru sem kom hér fram áðan og styðst væntanlega ekki við nein rök, — er kerfi samsteypustjórna, kerfi stjórna tveggja eða þriggja flokka. Staðreyndin er sú, að þriggja flokka stjórnir, sem stundum eru ill nauðsyn, eru ákaflega gallaðar. Það sér hver maður að það gerist ekki sársauka- eða hljóðalaust þegar þrír fyrrum fjendur með margháttaðan skoðanaágreining eiga allt í einu að koma sér saman um alla skapaða hluti. Meginorka slíkrar stjórnar fer í að koma sér saman um einföldustu atriði. Vinnufriður verður lítill. Tíminn fer í að leysa raunveruleg og ímynduð vandamál sem oftast eða oft eru sprottin af pólitískri afbrýðisemi vegna kosningaúrslita.

Auðvitað þykir okkur Alþfl.-mönnum að samstarfsflokkar okkar í ríkisstj. hafi skaddað og skemmt okkar góðu stefnu í efnahagsmálum og þar með gert viðleitnina til að draga úr verðbólgunni að litlu sem engu. Okkur finnst að þeir hafi þvælst fyrir og tafið og eyðilagt á stundum myndun samræmdrar stefnu í efnahagsmálum sem Alþfl. lagði fram í frv. sínu í vetur. Þar átti Alþfl. óumdeilanlegt frumkvæði. Útkoman, endanlegt frv. sem ekki var svo samþ. fyrr en í aprílbyrjun, var hins vegar útþynnt og allt of síðbúin. Hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson sagði í umr. um það frv., ekki einu sinni, heldur tvisvar, að nú væri kominn tími til að menn stæðu við stóru orðin frá því í kosningabaráttunni um að ráða niðurlögum verðbólgunnar. Þetta er auðvitað rétt, þessi tími er löngu kominn. En við erum þeirrar skoðunar, að hjá samstarfsflokkunum, einkum þó Alþb., hafi þennan vilja skort. Orð og gerðir þeirra í þessari stjórn bera þess ekki vitni að það sé vilji þeirra, raunverulegur vilji, að ráðast gegn verðbólgunni. Þetta er auðvitað miður, en staðreynd er þetta engu að síður sem ekki verður undan skotist. Og hvað er þá fram undan? Ófriður á vinnumarkaði, — og ekki eru það hinir lægst launuðu núna sem þar valda um. Sérhagsmunahóparnir, sem hafa aðstöðu, beita henni og sjást hvergi fyrir.

Verðbólgan er á fullri ferð og herðir á sér verði ekki að gert. Við þm. Alþfl. vorum ekki kjörnir á þing til að kynda elda 50–60% eða hver veit hvað mikillar verðbólgu. Við vorum ekki heldur kosnir á þing til að hlaupa á milli hæða, hlaupa á milli vísitöluþaks og kjallara í kerfi sem er orðið svo flókið að venjulegt fólk er löngu hætt að botna upp né niður í launakerfi eða samningum. Við vorum ekki kosnir til þess og þetta ætlum við ekki heldur að gera.

Í þessum umr. í kvöld hefur verið gerð grein fyrir þeim viðhorfum sem Alþfl, lýsti í ríkisstj. í morgun. Verði á þau fallist og verði hægt að gera till. um 3% hér og 3% þar, kjallara hér og þak þar, þá mun Alþfl. að sjálfsögðu leggja fram nánari og fastmótaðar tillögur. Á þeim mun ekki standa. Um þessi viðhorf eru auðvitað skiptar skoðanir, en þetta er það sem við teljum að þurfi að gera.

Ein af meginorsökum þess, hvernig nú er komið, er að um mörg undanfarin ár hefur það haldist, að menn hafa gert óraunhæfa samninga í trausti þess að ríkisstj. sæi um að borga bakreikninginn. Þessu verður að linna. Semjendur verða að standa ábyrgir gerða sinna. Bakreikningana verða þeir að greiða sjálfir.

En það, hvernig komið er í þessu þjóðfélagi, á sér ekki bara þessar orsakir. Þetta eru yfirborðsorsakirnar. Við Alþfl. menn fjölmargir erum æ meir að hallast að þeirri skoðun, að það kerfi, sem við höfum búið við í áratugi, hafi hreinlega gengið sér til húðar, að kerfið sé ekki lengur nothæft í því þjóðfélagi sem við búum í, ekki hafi tekist að laga það að breyttum tímum og þjóðfélagsháttum. Þetta er djúpstæður vandi sem hlýtur að taka verulegt rúm í allri þjóðmálaumr. hér næstu missiri.

Við þurfum að fara inn á nýjar brautir og gætum að okkar hyggju t. d. gert það með því að breyta stjórnarskrá okkar í þá átt að efla framkvæmdavaldið, gera ljósari mörk milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds. En auðvitað eru þessar hugmyndir ekki fullmótaðar, auðvitað þarf að ræða þær miklu ítarlegar, en áreiðanlega stefna þær þó í rétta átt út úr þeim ógöngum sem við nú erum í.

Það mætti t. d. hugsa sér þetta í þá veru, að forseti landsins væri kjörinn í beinum kosningum á fjögurra ára fresti og færi með núverandi valdssvið forsrh. Hann skipaði síðan með sér 8 einstaklinga í ríkisstj. Hafa mætti svipaðan hátt á um kjör forseta og gerist t. d. í Frakklandi, þar sem fyrst er kosið um marga frambjóðendur, en síðan viku frá fyrri kosningum milli þeirra tveggja er flest atkv. hlutu. Forseti og ríkisstj. færu síðan með framkvæmdavald, Alþingi hefði að sjálfsögðu áfram löggjafarvald og stefnumótun í utanríkismálum, og einnig mætti hugsa sér að þing yrði kosið til fjögurra ára svipað og gert er Noregi, þar sem ekki er heimild til þingrofs.

Ýmsum kunna að finnast þessar hugmyndir næsta byltingarkenndar og kannske óraunhæfar. Þær eru þó engan veginn nýjar af nálinni, því jafnágætir fræðimenn og núv. forsrh: Ólafur Jóhannesson og dr. Gylfi Þ. Gíslason skrifuðu um þær fyrir 35 árum, skömmu eftir lýðveldisstofnunina.

Það kerfi, sem við búum við, er ekki best af því að við höfum búið við það lengi og þekkjum það best. Þvert á móti, okkur er nú svo ljósir gallar þess og ókostir að við hljótum að leita nýrra leiða, og þessar leiðir eru meðal þeirra sem til greina koma og við eigum hiklaust að kanna. Þetta er mál sem við vissulega verðum að hugleiða og skoða, en þarna gætu verið leiðir út úr þeim ógöngum sem íslenskt þjóðfélag hefur ratað í.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið og þakka þeim er hlýddu.