18.05.1979
Efri deild: 108. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4940 í B-deild Alþingistíðinda. (4266)

318. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Þetta frv. er nokkuð sambærilegt við það síðasta sem verið var að afgreiða hér til 2. umr., því að það er flutt af fjh.- og viðskn. þessarar deildar.

Fyrir n. hefur legið að undanförnu frv. til l. um breyt. á lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins, um að stofna þar sérstakan sjóð til að styrkja fiskrækt. Það varð niðurstaðan eftir umr. í fjh.- og viðskn., að eðlilegra væri að efla heldur Fiskræktarsjóð sem hefur þetta hlutverk á hendi hvort sem er, og þess vegna er þetta frv. til l. um breyt. á lögum um lax- og silungsveiði flutt hér. Það er efnislega samhljóða hinu að því leyti að gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi Fiskræktarsjóði til 900 millj. kr. á næstu 5 árum og auk þess er sjóðnum heimilt að fengnu samþykki ríkisstj. að taka lán til starfsemi sinnar.

Það er sérstök ástæða nú til að flytja þetta mál, þar sem á það hefur verið bent að fiskrækt kynni að vera leið til að auka fjölbreytni í landbúnaði og koma að einhverju leyti í staðinn fyrir þær búgreinar sem um stundarsakir að undanförnu a. m. k. hafa verið nokkrir erfiðleikar á að selja allar framleiðsluvörurnar frá. Enn þá vantar meiri tilraunir á þessu sviði, en þó vantar sérstaklega fjármagn til þess að þeir, sem áhuga hafa á þessu og hafa sýnt mjög mikið framtak sumir hverjir í brautryðjendastarfi, geti haldið áfram starfi sínu. Ég held að það sé því tvímælalaust að þarna sé mjög þörfu máli hreyft.

Ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr., en af sömu ástæðum og með málið sem rætt var hér á undan sé ég ekki ástæðu til þess að vísa því aftur til fjh.- og viðskn.