18.05.1979
Efri deild: 108. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4942 í B-deild Alþingistíðinda. (4271)

316. mál, stofnun og slit hjúskapar

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Svo er mál með vexti, að fram hefur verið lagt í hv. d. frv. til l. um barnalög, sem að vísu verða ekki afgreidd á þessu þingi. Það frv., sem hér er um að ræða, er fylgifrv. með því frv.

Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa um þetta langt mál. Rétt þótti að bæði frv. yrðu sýnd nú. Frv. til barnalaga er ákaflega mikill bálkur og hefur reyndar verið lagt fram nokkrum sinnum, en þótt orðið sé svo áliðið þings sem nú er þótti rétt að leggja það fram enn einu sinni með nokkrum breytingum, þannig að það mætti sýna og skoða fram á haustið þegar málinu verður hreyft að nýju. Get ég haft sömu orðin fyrir því frv. sem er hér til umr. Það er, eins og ég sagði, fylgifrv. með frv. til barnalaga.

Eins og segir í aths. við lagafrv. hefur þótt rétt að meginreglan um forsjá barna sé í frv. til barnalaga. Því er lagt til í frv. þessu að breytingar verði gerðar á lögum nr. 60/1972 til samræmis við þær reglur sem fólgnar eru í frv. til barnalaga.

Ég hef þessi orð ekki fleiri, en legg til að að lokinni þessari umr., herra forseti, verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.