18.05.1979
Efri deild: 108. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4947 í B-deild Alþingistíðinda. (4277)

310. mál, almannatryggingar

Bragi Níelsson:

Ég fagna því að þetta frv. er komið fram, þó að það sé svo síðkomið að engin leið verði að gera neitt það fyrir þetta frv. sem getur komið því í gegnum þingið á þeim fáu dögum sem eftir eru. Hins vegar, ef ég verð í hópi þeirra manna sem sitja hér í sætum næsta vetur og frv. verður endurflutt, skal ég gera mitt besta til að það nái fram að ganga og kannske hjálpa til við að sníða það svolítið betur að skoðunum mínum einnig.

En svo er annað mál að þetta er eiginlega fylgifrv. við annað frv., sem kom hér fram í vetur, er á þskj. 414, 208. mál, og er um breytingar á lögum um fóstureyðingar. Þar er ég algerlega andstæður hv. flm. Hins vegar er hér farin rétt leið, þar sem ég taldi í vetur að væri farin röng leið, byrjað á öfugum enda þá. Nú er verið að byrja á réttum enda.

Það er alveg víst að félagsleg vandamál verða ekki leyst með tryggingabótum einum. Konur, sem hafa orðið barnshafandi gegn vilja sínum, eiga oft við allt önnur vandamál að stríða en fjárhagsleg, þó að fjárhagslegu vandamálin séu hins vegar stundum aðalatriði. Vandi þeirra kvenna, sem um ræðir í fyrra frv., leysist nefnilega ekki með aurum einum saman. Vandamálin eru oft önnur, t. d. einstæðingsskapur, nám ungra stúlkna, fjölskylduvandamál margs konar, eins og sjúkdómar maka eða barna, andlegir eða líkamlegir. Svo kemur líka til kæruleysi og siðleysi, jafnvel alvarlegt siðleysi sem ekki teldist þó til nauðgana og gæti ekki fallið undir þann kafla fóstureyðingarlaga. Það eru ótal margir félagslegir þættir sem valda því að konur sækja eftir fóstureyðingu.

Ég vitna til reynslu minnar sem læknis og einnig persónulegrar almennrar reynslu, að konur gera það ekki nema að vel hugsuðu máli og eftir samráð við lækna, félagsráðgjafa og aðstandendur, ef þeir eru til, að leita fóstureyðingar.

Hið fyrra frv., sem ég talaði um, á þskj. 414, hefur verið til meðferðar í heilbr.- og trn. í vetur. Leitað hefur verið umsagnar og skýrslna frá fjölmörgum aðilum. Þær umsagnir hafa vissulega margar hverjar verið mjög neikvæðar fyrir frv. N. hefði getað skilað áliti þess vegna fyrir alllöngu, og ég held að það nál. mundi verða nokkurn veginn ef ekki alveg einróma. En það er ekki — ég tek það fram — af andstöðu við flm. að það nál. er ekki komið fram hér í deildinni.