18.05.1979
Efri deild: 108. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4950 í B-deild Alþingistíðinda. (4280)

310. mál, almannatryggingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hefði ástæðu til að ræða ýmis atriði hér ítarlega nú, en ég ætla ekki að gera það með tilliti til þess að ýmis fleiri verkefni bíða og svo skammt er þar til þingi lýkur. Ég ætla aðeins að segja örfá orð.

Ég vil byrja á að þakka öllum þeim, sem talað hafa í þessum umr., fyrir undirtektir þeirra undir efni þessa frv. Það hefur enginn mælt á móti því, að æskilegt væri að fá aðstoð við einstæðar mæður lögleidda í þessu formi eða í þessum anda, eins og sumir hafa orðað það. Fyrir þetta er ég þakklátur. En menn hafa komið inn á ýmislegt annað, sérstaklega og raunar eingöngu í sambandi við fóstureyðingarmálin, og við það hef ég ýmislegt að athuga. Þó hafa verið töluverð blæbrigði á afstöðu manna í þessu efni. T. d. fannst mér að síðasti ræðumaður væri ekki skeleggur baráttumaður fyrir því að halda inni félagslegum ástæðum sem heimild fyrir fóstureyðingu og ég fagna því. En aðrir hafa verið ákveðnari í þessu efni og hefur hér verið drepið á rök sem hafa heyrst fyrr og þá sérstaklega sjálfsákvörðunarrétt konunnar, eins og hv. 4. þm. Nourðurl. e. kom inn á.

Ég vil segja það aðeins, að ég er ákaflega mikið fylgjandi því að einstaklingarnir hafi sem mestan sjálfsákvörðunarrétt. Ég er fylgjandi frelsi til handa einstaklingum. En ég set einar skorður við þetta sem ég vil ekki víkja frá, að frelsi til handa einum má ekki vera ófrelsi handa öðrum og frelsi eins má ekki takmarka frelsi annars. Við heyrum þetta líka oft. Og hverjir eru það sem sérstaklega þarf núna að hafa í huga, eins og reyndar alltaf, og mikið er talað um réttilega nú tímum? Það þarf að aðstoða þann sem minni máttar er, lítilmagnann, til þess að hann geti notið sín og haft frelsi. Erum við ekki sammála um þetta? Jú. En þegar við erum að tala um þetta verðum við að hafa í huga hver er mestur lítilmagni, hver er umkomulausastur. Er það ekki það mannslíf sem á undir högg að sækja að vera fætt í þennan heim?

Hv. 8. landsk. þm. vék nokkuð að afstöðu sinni til fóstureyðinga. Það var mjög í sama anda og fram kom hjá honum í umr. fyrr á þessu þingi. Ég skal ekki fara að svara hv. 8. landsk. þm. Við áttum nokkur orðaskipti um þetta áður og ég læt það nægja í bili. En ég er að sjálfsögðu algerlega andstæður honum í afstöðunni til fóstureyðinga af félagslegum ástæðum. Hann nefndi siðleysi í ræðu sinni. Mér dettur það orð frekast í hug þegar mér kemur í huga fóstureyðing af félagslegum ástæðum.

Hv. þm. sagði að heilbr.- og trn. hefði fjallað um frv. sem ég flutti fyrr í vetur varðandi fóstureyðingar. Ég veit að hv. n. vinnur vel og samviskusamlega að málinu undir forsæti hins ágæta formanns síns, sem er hv. 8. landsk. þm., og hef að sjálfsögðu ekkert við það að athuga. Hann gaf í skyn að það hefðu komið ýmsar andstæðar umsagnir um þetta frv. Ég hef að sjálfsögðu ekkert við því að segja, en að gefnu tilefni vil ég líka láta það koma hér fram, að ég hef orðið allverulega var við undirtektir undir þetta frv. og mér hefur stundum dottið í hug, af því að ekki heyrist mikið um það, að þar sé hinn þögli meiri hluti í þessu máli. Ég segi: það heyrist ekki mikið um afstöðu þeirra sem eru sammála mér um þetta efni úti í þjóðfélaginu. En ég var að lesa frétt í einu Akureyrarblaði núna í dag þar sem sagt var að á fjölmennum aðalfundi sambands kvenfélaga á Akureyri hefði verið samþykktur eindreginn stuðningur við frv. mitt og áskorun til allra félagssamtaka í landinu að taka málið til meðferðar. Það mætti segja mér að það mundi eitthvað eiga eftir að heyrast frekar í þessa átt. En nú skal ég ekki fjölyrða um þetta mál.

Ég kem þá að lokum að hv. 3. þm. Austurl. Hann var ekki undrandi á neinu í sambandi við þetta mál, nema að það skyldi koma úr þessari átt, eins og hann orðaði það, frá sjálfstæðismanni, till. um þær félagslegu umbætur sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Mig undrar að hv. þm. skuli segja þetta. Ég veit að hann hefur áhuga og lætur sig varða mjög félagsmál. Hann er þeim því kunnugur. Hann á því að vita að margt af því besta, sem gert hefur verið í félagslegum málum, tryggingamálum og húsnæðismálum, hefur verið gert ýmist fyrir frumkvæði eða tilstuðlan Sjálfstfl. Við sjálfstæðismenn erum ekkert óvanir að koma með róttækar till. um félagslegar umbætur.

Hv. þm. hafði nokkrar áhyggjur af því, að ég stæði einn í Sjálfstfl. í þessu máli, og dró þá ályktun af því að ég er einn flm. að frv. því sem hér liggur fyrir. Ég var einn flm. að frv. um breytingar á ákvæðunum um fóstureyðingar. Ég vil ekki leyna því og það er engu að leyna. Ég hef verið töluvert mikið einn í því máli. Ég bar fram brtt. við frv. til l. um fóstureyðingar þegar það var til umr. 1975, frv. að núgildandi lögum, nákvæmlega sömu till. og ég ber nú fram í sjálfstæðu frv. Sú till. fékk eitt atkv. hér í hv. d. En till. þarf ekkert að vera lakari fyrir það, þó hún fengi ekki nema eitt atkv., það hvarflar ekki að mér. Og með því að ég var með þetta í huga og með því að það frv., sem ég núna ber fram, er borið fram í framhaldi af þessari hugsun, sem hefur ekki fengið meiri undirtektir, ákvað ég að vera einn flm. þessa frv. Það þýðir ekki að Sjálfstfl. sem slíkur þurfi að vera á móti málinu. Það hefur ekki verið tekin slík formleg afstaða til þess í Sjálfstfl. En ég hef fullkomna heimild til þess frá flokknum að bera upp það frv. um breytingar á fóstureyðingarlögunum, sem ég hef áður borið fram, og líka þetta frv. Það kemur í ljós síðar, hvern stuðning þetta mál fær. Ég óttast mest að það fái ekki nægan stuðning hjá þeim sem ráða nú. Það nær ekki fram að ganga nema stjórnvöld séu hlynnt og vilji að þetta mál nái fram að ganga, því að þetta er mikið fjárhagsspursmál, ég geri mér grein fyrir því.

Ég hef engar sérstakar áhyggjur í sambandi við Sjálfstfl. í þessu máli. Ég geri ráð fyrir, að þegar þetta mál er komið lengra og það verður borið fram til annars en aðeins að sýna það, eins og þetta mál er núna borið fram, verði það tekið til meðferðar. Ég er ekki að skuldbinda eða segja að Sjálfstfl. sé fyrir fram með þessu. Ég get ekkert um það sagt. En ég vil reyna að leitast við að vinna þessu máli fylgi hvar sem er, í öllum flokkum, og mér finnst að undirtektirnar undir efni þess frv., sem hér er til umr., lofi góðu um framgang þessa máls.