18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4956 í B-deild Alþingistíðinda. (4293)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Hér eru til umr. óskir um að hv. Alþ. samþykki og lýsi blessun sinni yfir ríkisreikningi fyrir árið 1977. Ég hygg að rétt sé að staldra við eitt augnablik og velta fyrir sér nokkrum aths. sem yfirskoðunarmenn, sem eru Halldór Blöndal, Halldór Kristjánsson og Haraldur Pétursson, gera við ríkisreikninginn fyrir árið 1977 sem hér er til umr. Ég vil vekja athygli d. á nokkrum liðum sem gerðar eru aths. við.

Í 9. lið er fjallað í nokkrum atriðum um fyrirtæki sem frægt er orðið að endemum í þessu landi. Það er Kröfluvirkjun. Þar er m. a. fjallað um að Kröflunefnd hafi gert á árinu 1976 samninga við fyrirtæki sem heitir Rafafl og mun vera samvinnufyrirtæki nokkurra rafiðnaðarmanna. Og í stuttu máli er sagan sú, eins og segir í aths., að hið upphaflega tilboðsverð Rafafls svf. var 28 millj. 485 þús. kr., en samningsupphæðin var 30 millj. 382 þús. kr. — Því má svo skjóta inn, að hvernig á þessum mismun stendur er mér ekki kunnugt um og á því er ekki sérstök skýring. — Hins vegar halda þeir áfram og engin furða að mennirnir geri aths., því að greiðslur til Rafafls svf. námu alls 123 millj. 748 þús. kr. M. ö: o. eru greiðslur vel rúmlega fjórfaldar á við það sem samið var um. Og nú er von að spurt sé: Til hvers er ríkisvaldið eða þeir aðilar, sem fyrir þess hönd semja yfir höfuð, að hafa úfboð um verk? Hvaða tilgangi á það að þjóna, ef það á að vera látið óátalið að endanlegar greiðslur nemi fjórfaldri þeirri upphæð sem um var samið? Það er óljóst hvernig á þessari hækkun stóð. Að hluta til virðist vera um að ræða verðbætur, að hluta til verkefni, sem við bættust þegar fram liðu stundir, og að hluta til óskilgreint. Þeim aðilum, sem falið er eftirlit opinberra fjármuna eða meðferð þeirra og gera slíka samninga, bruðla svo með almannafé, fjármuni skattborgaranna sem hér um ræðir, á náttúrlega ekki að líðast það óátalið.

Hér er stofnun, hv. Alþ., sem á að fara með eftirlitshlutverk með opinberum fjármunum. Hér eru saman komnir eftirlitsaðilar almannasjóða, eftirlitsaðilar fyrir hönd skattborgaranna í landinu. Augljóst er að þetta eru ekki peningar eða fjármunir sem af himnum ofan koma eða úr iðrum jarðar, heldur er þetta fé sótt beint í vasa skattborgaranna eins og aðrir hliðstæðir fjármunir og með þá fjármuni hefur verið bruðlað og greitt fyrirtækjum í fullkomnu heimildarleysi. Ég er ekki tilbúinn, þó ekki væri nema eingöngu af þessum ástæðum, að ljá nafn mitt sem fulltrúi skattborgaranna í landinu á tillöguplagg sem er til þess gert að hleypa frv. þessu óátalið fram hjá fulltrúasamkomu m. a. skattborgaranna í landinu.

En þetta mál, sem hér um ræðir, viðskipti svokallaðrar Kröflunefndar og hins tiltekna fyrirtækis, fór ekki fram hjá skattborgurum eða öðrum í þessu landi á sínum tíma. Þessu var harðlega mótmætt, m. a. á aðalfundi Landssambands ísl. rafverktaka sem haldinn var í húsinu Domus Medica í Reykjavík í nóvembermánuði 1977. Þá var viðskiptasamningi þessum harðlega mótmælt og því þá þegar haldið fram, að hann væri í meira lagi skrýtinn, það væri aldeilis útilokað að það verk, sem þarna var uni að ræða, væri unnið fyrir þá upphæð sem þarna kemur fram, og af þeim sökum var farið fram á að þetta mál yrði kannað. Því var ekki sinnt, hvorki af handhöfum eftirlitsvaldsins né öðrum. En nú, tveimur árum seinna þegar þetta mál og önnur slík eiga væntanlega að vera úr sögunni, eru fulltrúar skattborgaranna beðnir um að hleypa því, og væntanlega án aths., í gegnum sína síu!

Aðalfundur Landssambands ísl. rafverktaka gagnrýndi það þegar í stað, að hér hefðu verið gerðir skrýtnir samningar. Í fyrirsögn eins dagblaðanna frá þessum tíma segir: „Frá aðalfundi Landssambands ísl. rafverktaka. Kanna viðskipti rafverktaka og Kröflunefndar.“ Og í undirfyrirsögn segir: „Gagnrýna afskipti stjórnmálaflokka og alþm. af samningum í þágu ákveðinna verktaka.“ Þar kann að vera komið að kjarna þessa máls.

Svo sem kunnugt er voru viðskipti Kröflunefndar og hinna tilteknu rafverktaka ekki hið fyrsta sem gagnrýnt var í kúnstugri fjármálasögu þessa stórfellda fjármálaævintýris. Áður höfðu verið gerðir samningar við japanskt fyrirtæki, sem hét Mitsubishi, um kaup á túrbínum. Þeir samningar voru aldrei skýrðir til neinnar hlítar. Mér er ekki kunnugt um að alþm., 60 að tölu, hafi gert við það aths. þegar ríkisreikningar þeirra ára voru til umr. á Alþ. Áður höfðu verið gagnrýnd viðskipti Kröflunefndar við fyrirtæki sem Miðfell hét og reisti hús á þessum svæðum. Mér er ekki kunnugt um að fulltrúar skattborgaranna í landinu hafi gert aths. við það á sínum tíma, hvernig svo sem meðferð á almannafé kann að hafa verið. En hér er til umr. ríkisreikningur fyrir 1977 og þar eru aths. við þetta fjármálaævintýri og við það sem sá ríkisreikningur nær til, og nú er kominn tími til að staldrað sé við fyrir hönd skattborgaranna í landinu.

Það er sagt svo frá þeim tiltekna aðalfundi, sem hér hefur verið minnst á, að hann gagnrýni afskipti stjórnmálaflokka og alþm. af samningum í þágu ákveðinna verktaka. Er ekki kominn tími til að annaðhvort stjórnmálaflokkar og alþm. beri þetta af sér eða þá að afstaðan til þessa máls sé skoðuð og jafnvel endurskoðuð? Eins og allir vita sátu í Kröflunefnd fimm aðilar. Þrír af þeim voru fulltrúar stjórnmálaflokkanna: Einn úr Sjálfstfl., hann var foringi nefndarinnar, annar úr Alþb., sá er nú hæstv. menntmrh., og sá þriðji úr Framsfl., sem nú er forseti þessarar virðulegu deildar. Á sínum tíma voru þessir menn fulltrúar 53 af 60 alþm. eftir venjulegri fulltrúaskilgreiningu. Að auki sátu tveir, sem taldir voru vera fulltrúar kunnáttunnar eða hinnar tæknilegu kunnáttu, í Kröflunefnd. Hv. þm. Jón G. Sólnes var oft gagnrýndur sem höfuðábyrgðarmaður þeirra sérkennilegu viðskiptasamninga sem Kröflunefnd virtist vera að gera, út um allan heim m. a. s., en þó er ég ekki viss um að aðalfundur Landssambands ísl. rafverktaka eigi við harm sérstaklega í þessu tiltekna máli. Þeir gagnrýna afskipti stjórnmálaflokka og alþm. af samningum í þágu ákveðinna verktaka. Ég hygg að nokkuð ljóst megi vera við hvað er átt. Það er átt við að það séu pólitísk tengsl á milli t. d. setu hæstv. ráðh. Ragnars Arnalds í Kröflunefnd og hinna sérkennilegu samninga sem gagnrýndir voru þegar í stað þegar þeir voru gerðir og reyndust síðan kosta skattgreiðendur meira en fjórfalt á við það sem skattgreiðendum var sagt á sínum tíma.

Og þetta mál hélt áfram í blöðum. „Eitthvað loðið við Kröflusamningana?“ er spurt 4. 11. 1977. Og þar er talað um nauðsyn á rannsókn á samningum við verktaka. Um þessar mundir var farið að biðja um að ráðh. gæfi skýrslu um Kröflumál, — þáv. orkumálaráðh. og iðnrh. var að ég hygg hv. þm. Gunnar Thoroddsen. En í öðru blaði er rætt um að tilboð Rafafls hafi verið langlægst, 20% undir kostnaðaráætlun. Ég giska á að þetta sé úr Þjóðviljanum! Þar er talað um að hér sé um að ræða framleiðslusamvinnu í stað einkabrasksins, og í undirfyrirsögn segir: „Svar við óhróðri hræddra atvinnurekenda.“ — Ég er á móti svindli, hvort sem það er framið í nafni einkabrasks, samvinnu eða réttlætis. Í hvaða nafni sem svindlið og braskið á sér stað er það alltaf svindl og brask.

Í löngu máli eru kynntar staðreyndir málsins, sem eru sagðar hafa verið að fjögur tilboð hafi borist í þá tilteknu framkvæmd sem hér um ræðir og tilboð Rafafls hafi orðið langlægst, 28 millj. 485 þús. kr. Það kemur illa heim og saman við ríkisreikning, þar sem greiðslur til Rafafls námu 123 millj. rúmum. En þetta hét sem sagt óhróður hræddra atvinnurekenda sem þyldu ekki hina fögru samvinnuhugsjón og væru að reyna að troða einkabraskinu að.

Blöðin fjölluðu meira um þetta á sínum tíma og um það má í sjálfu sér hafa langt mál. Það var kallað að hér væri um pólitískan áróður að ræða, m. a. af hálfu manns sem þá var frambjóðandi Alþfl. til Alþ. og stendur nú í þessum ræðustól, og því var svarað til, að hér væri um pólitískar ofsóknir að ræða á hendur tilteknu fyrirtæki sem gerði betur við sitt fólk en aðrir. Tilfinningarök af því tagi heyrðust mjög á þeim tíma.

Þá var á það bent, að sagan væri ekki öll sögð með þessu. Orðið var ljóst í opinberum blöðum, að fyrirtækið sem samdi um 28 millj. rúmar og loks 30 millj., en fékk greiddar samkv. ríkisreikningi 123 millj. vel rúmar, nær 124, hafði ekki lokið viðskiptum sínum og viðskiptasögu sinni með þessu. Á sama tíma stóð svo á, að dagblað í Reykjavík, sem Þjóðviljinn heitir, var að skipta um húsnæði, flutti sig til, seldi gamalt húsnæði. Og gamla húsið, sem þeir seldu, kostaði, að mig minnir, einhvers staðar á bilinu 40–50 millj. Kaupandinn var Rafafl svf. Nú vil ég spyrja að því, t. d. félaga mína og vinnufélaga í Alþb., þá sem hér eru, en þarna munu vera einhver tengsl á milli: Ef þetta væri húsbyggingarsjóður í öðrum flokki, t. d. Framsfl., og ef þetta væri viðskiptasamningur sem þekktur fjáraflamaður í þeim flokki hefði gert, þætti mönnum þá ekki ástæða til að þessi saga væri athuguð? Sér ekki hvert barn að hér er um gersamlega óeðlilega hluti að ræða, í besta falli mjög torkennilegar tilviljanir? Ég er þeirrar skoðunar, að ef hér væri um að ræða húsbyggingarsjóð Framsfl., sem er fræg fjármálastofnun, a. m. k. í Reykjavík, og ef Kristinn Finnbogason hefði gert samninga í þessa veru og ef væri verið að gera aths. við það á Alþ. og núv. hæstv. dómsmrh., Steingrímur Hermannsson, formaður Framsfl. — ég er að ímynda mér þetta allt saman — stæði upp og færi í vörn fyrir þetta hygg ég að við og kommarnir gætum um það sameinast að hér þyrfti athugunar við, svo að ekki sé meira sagt. Gerður var samningur við ríkið í nafni skattgreiðenda, samið í nafni skattgreiðenda um verk fyrir 30 millj., en greiddur 123 og eitthvað millj. og um leið keypt gömul húseign af flokksmálgagni, væntanlega með þokkalegum greiðslukjörum. Það mundi verða spurt um ýmislegt ef aðrir og kannske þekktari fjármálasnillingar ættu hlut að máli. Þess vegna er hér spurt. Það er enn fremur spurt: Hver eiga að vera viðbrögð Alþ. við svona aðstæður? Um þetta var skrifað á sínum tíma og því var svarað, þó að ævinlega botnaði ég lítið í svörunum. Rafafl svaraði sjálft og hótaði m. a. málsókn út af atvinnurógi. Mér hefur aldrei verið stefnt fyrir dómstól út af þessu máli!

Hv. núv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson skrifaði lengstu kjallaragrein í sögu Dagblaðsins, að ég hygg, um þetta mál og árásirnar á þetta fyrirtæki, sem hann taldi einvörðungu af pólitískum toga spunnar, gerðar af mönnum sem skildu ekki fegurð samvinnuhugsjónarinnar. Og hann notaði orð eins og „alger bullukollur“, „málefnalegt hallæri“, „kjaftæði“, „fíflaskrif“, „alls konar kjaftæði“, Þetta er til dæmis um að þarna var á ferð alvörumál og er það raunar.

Allt um það hef ég ekki fengið málsókn, en síðan ég stóð í því að skrifa um þetta hafa þær breytingar orðið á högum mínum að ég stend hér sem þm. og þar með sem eftirlitsaðili fyrir hönd skattborgaranna í landinu. Undir þennan ríkisreikning skrifa ég ekki, og ég hygg að fleiri fulltrúar almannasjóðanna og eftirlitsaðilar þeirra ættu að fara í spor mín að því er það varðar. Alþ. er alls ekki í stakk búið til þess að afgreiða þennan ríkisreikning, lýsa blessun sinni yfir m. a. fjármálaævintýri af þessari gerð, svo að ekki sé minnst á aðrar aths. um Kröfluvirkjun í þessari bók. En ég vil halda mig við þetta og þetta eitt. Þetta er fullkomlega nægjanleg ástæða til þess að aðilar á vegum Alþingis fari ofan í þessi mál. Hvernig stendur á því að gerðir eru samningar upp á 23 millj. kr., greitt yfir 30. og eitthvað millj. kr. og síðan greitt úr almannasjóðum yfir 120 millj. kr.? Á Alþ. að láta bjóða Sér það? Og ef þetta er svona þarna er þá ekki kominn tími til að fara líka aftar í söguna? Hvað með túrbínurnar? Hvað með Miðfell? Hvað með önnur þau ævintýri sem við Kröflunefnd margfræga eru kennd? Það hefur farið í gegnum þessa virðulegu stofnun hér, en þetta á ekki að fara hér í gegn.

Það má í sjálfu sér hafa mörg orð um þetta. Umræður um Kröflunefnd margfræga eru ekki nýjar af nálinni. En um það hefur verið spurt, m. a. á aðalfundi Landssambands íslenskra rafverktaka, og fullyrt að kanna þurfi samskipti stjórnmálamanna og útboða vegna þess að þau virðast ekki standast fyrir neinum skynseminnar lögum eða leikreglum. Og það er alveg ljóst af því, sem hér hefur verið rakið, að eitthvað meira en lítið skrýtið er á ferðinni. Það er alveg augljóst að þetta þarf að kanna miklu betur og borgarar úti um landið hafa hina fyllstu ástæðu til þess að spyrja um það. M. a. vegna þess, sem um hefur verið spurt, um hv. þm. Jón Sólnes og alls konar viðskiptasamninga sem aldrei voru skýrðir til neinnar hlítar, er fullkomlega eðlilegt að svo sé einnig spurt: Er eitthvert samband á milli þáv. hv. þm. Ragnars Arnalds og setu hans í nefndinni og þessa skringilega viðskiptamáta sem hér hefur verið gert að umræðuefni? Var þetta dúsan sem stungið var upp í kommann í nefndinni, svo að þeir væru góðir? Var þetta ástæðan fyrir því, að Alþb. var aldrei tilbúið til þess að taka þátt í aðfinnslum siðaðra borgara við Kröflunefnd, Kröfluvirkjun og fjármálasukkið allt þar í kring? Um það var oft spurt, hvernig á því stæði að Alþb. var alltaf þegjandi um þetta mál. Sjálfur hef ég aldrei skilið það. Ég hélt einmitt að slík mál sem þetta væru eitur í beinum heiðarlegra komma. Ég hef auðvitað vitað að þeir botna ekkert í viðskiptum og ekkert í efnahagsmálum, en ég hélt að í hinum mórölsku málum hefðu þeir skoðanir samstiga við mínar. (Gripið fram í: Hvar hefur þú verið?) Ég hef verið aðili að stjórnarsamstarfi í vetur.

Nei, það er alveg furðuleg þögn þeirra um þetta mál, svör þeirra og t. a. m. viðbrögð hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, sem skrifaði á sínum tíma kjallaragrein í Dagblaðið, fimmtudaginn 27. apríl 1978, undir nafninu: „Hneyksli á dag kemur fylginu í lag“ — um að sá væri lýðskrumari í kosningaham sem væri að skrifa um Rafafl og Kröflunefnd — sennilega vegna þess að hv. þm. er þeirrar skoðunar að öll skrifin um Kröflunefnd og aðfinnslurnar hafi aldrei verið annað en ódýrt kosningamál, þar hafi aldrei verið neitt við neitt að athuga. Var Mitsubishi pínt? Var Miðfell pínt? Rafafl, það var „elegant“ hvernig að er staðið. Og af því að ég sé að hv. þm. er kominn hérna ætla ég að lesa fyrir þingheim upp úr varnargreininni fyrir Rafafl. En þá voru m. a. notuð þessi orð: „alger bullukollur“, „málefnalegt hallæri“, „kjaftæði“, ,;aumingjaskapur“, „lygavefur“, „bullgrein“, „ömurlegt óðagot“, fíflaskrif“, „alls konar kjaftæði“, svo dæmi séu tekin. Ég skrifaði svargrein sem hét: „Alfreð er kominn aftur“. Ég man raunar ekki við hvað ég átti.

Varnargrein Ólafs Ragnars er eiginlega grein um að hér hafi verið eitthvað meira en lítið að. Og greinin fjallaði auðvitað um ættarlegan uppruna minn, en eins og kunnugt er er þm. sérstakur sérfræðingur í foreldrum mínum og afa og ömmu, ef ég man rétt, en að öðru leyti fjallaði greinin um Rafafl. Eina setningu man ég sem mér þótti alveg frábær í þessari grein. Þar segir:

Sér Vilmundur ekki hve vel fer á því, að þar sem áður voru ritstjórnarskrifstofur og prentsmiðja verkalýðsblaðs, sem áratugum saman flutti varnargreinar og sóknarskrif fyrir málstað íslenskrar alþýðu, skuli nú félagssamtök iðnnema og framleiðslusamvinnufélag ungra iðnaðarmanna hafa bækistöðvar sínar? Sér Vilmundur þetta ekki?

Jú, það er engin furða þó að spurt sé. Þetta er svo fallegt að við liggur að tárin hrynji niður eftir kinnunum á manni!

Hugmyndin er auðvitað sú, að hér er verið að tala um mál sem við t. d., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og fleiri skrifborðskommar áreiðanlega erum sömu skoðunar um að er auðvitað bara venjulegt svindlmál. Svindl á að vera eitur í okkar beinum. Það er svindl að gera samning fyrir hönd skattgreiðenda upp á 28 millj., en greiða 123 millj. Við Ólafur Ragnar Grímsson hefðum verið sammála um, ef um væri að ræða húsbyggingarsjóð Framsfl., að kalla svona viðskiptamáta svindl, — hreint svindl. Þegar ég er beðinn um það sem alþm. og fulltrúi skattborgaranna m. a. að ljá nafn mitt til samþykktar á svona svínaríi segi ég nei og ég vænti þess að fleiri hv. þm. séu mér sammála. Á þessu vil ég fá miklu fyllri skýringar, t. d. frá hæstv. núv. iðnrh. eða þeim fyrrv. Það er víst sá núv. sem ber núna ábyrgð á þessu rn., þó að hann eigi mér vitanlega engan þátt í því sem hér er verið að ræða um. — Þannig háttar til, að ríkisreikningur kemur mörgum árum seinna. Við erum að fjalla nú, á árinu 1979, um ríkisreikning fyrir árið 1977.

Alþ. á að hafa eftirlit með almannafé. Það er skylda Alþ. að sjá svo um, að ekki sé sólundað almannafé. En það er miklu frekar skylda Alþ. að sjá svo um að ekki sé farið óheiðarlega með almannafé. Þegar borin er á borð fyrir okkur bók, þykk bók, þar sem greint er frá í aths. undirrituðum af þremur yfirskoðunarmönnum ríkisreikninga og af tölum má ráða að ekki er um annað að ræða en það sem við í öðrum tilfellum a. m. k. mundum kalla hreint svindl, þá á Alþ. ekki að láta slíkt fara frá sér öðruvísi en með hinum fyllstu hugmyndum um hvernig við skuli bregðast, því að hvar væri ríkisvaldið statt ef það væri almenn og viðurkennd leikregla í þessu landi og ekkert athugavert að fulltrúar ríkisvaldsins, í þessu tilfelli fulltrúar þriggja stjórnmálaflokka undir forustu Jóns G. Sólness, hv. þm., gerðu viðskiptasamning upp á tiltekna upphæð og borguðu svo út fjórum sinnum meira, en kæmu með einhverjar skýringar eftir á? Hvar væri ríkisvaldið statt ef ekkert væri að athuga við slíka leikreglu? Það er stórkostlega margt við hana að athuga og fullkomlega eðlilegt að borgarar í þjóðfélaginu biðji áfram um viðskiptasöguna um þessi mál, þegar ljóst er að fyrirtækið lét ekki staðar numið í viðskiptum sínum.

Þetta mál er auðvitað, hvernig sem á það er litið, gersamlega óþolandi. En þetta mál er eins og ein kórónan enn á litríka og skrautlega viðskiptasögu sem tengd er Kröfluvirkjun. Þetta mál er ekkert einsdæmi. Túrbínukaupin frá Japan fjalla um miklu stærri upphæðir. Byggingin á stöðvarhúsunum og samningarnir við Miðfell orkuðu mjög tvímælis þá gerðir voru, svo að ekki sé meira sagt. Einhverjir kunna að vera þeirrar skoðunar, að hér sé verið að fjalla um litlar upphæðir. Það er auðvitað rétt, þegar þess er gætt að Krafla kostar um 20 milljarða beint upp úr vösum skattgreiðenda. En það er ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá, að hér er um óþolandi fordæmi að ræða, hér er um sannanlega misnotkun á almannafé að ræða, og þegar svo er rétta alþm. ekki upp höndina í sinnuleysi. Við erum beinlínis skyld til ess að hafast öðruvísi að. Alþ. á að hafa eftirlit.

Ég hef verið þeirrar skoðunar, að nefndir Alþ. eigi að gegna eftirlitshlutverki í miklu ríkari mæli en gert hefur verið. Ég sit sjálfur í fjh.- og viðskn. Málið kemur þar væntanlega fyrir milli 2. og 3. umr. sé þess óskað. Ég hef enga ástæðu til annars, ef 2. umr. verður alls ekki lokið hér, sem viturlegra væri, en að kalla fyrir — við ættum eiginlega að hafa vald til þess — fulltrúa Rafafls og Jón G. Sólnes, formann nefndarinnar, og spyrjast fyrir um hvort á þessu séu einhverjar skýringar. Hvernig stendur á þessu, ef hér er ekki um misnotkun að ræða? Ef einhverjar skýringar, sem við sjáum ekki í fljótu bragði, eru á því að um 100 millj. hafa runnið út um einhver göt á ríkiskerfinu er kannske ekkert við því að gera. En ef þetta er af hinu taginu, þá er n. auðvitað ekki dómstóll og ekkert dómskerfi í landinu. Aðrir hafa dómsvaldið í þessu landi. Alþ. verður þá að láta um það vita og réttir aðilar, dómstólarnir, að taka við.

Það á að vera skylda Alþ. að gegna því eftirlitshlutverki sem hér hefur verið gert að umræðuefni. Eins og lögum nú háttar hafa þm. kannske ekki vald til þess að kalla fyrir sig borgara. Það er slæmt að svo skuli vera, vegna þess að þegar um almannafé er að ræða og notkun á því ættu þm. að geta kallað fyrir sig alla þá, sem taldir eru skipta máli í því sambandi, og borið fram hverja þá spurningu, sem nauðsynleg kann að vera og er í þágu almannasjóða og skattgreiðenda í þessu landi.

Þetta mál fjallar í sjálfu sér ekki um stórar upphæðir, þó að um það hafi verið notuð stór orð á sínum tíma, rn. a. af hv. núv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni. En hér er um að ræða fullkomið „prinsipmál“; sem hv. Alþ. ber að taka til rækilegrar íhugunar og að ég hygg endurskoðunar. Á Alþ. að líða að gerður sé viðskiptasamningur og beitt útboði og því logið að þjóðinni að með útboði sé verið að leita að lægsta verði, eða svo skilst mér að sé, — jafnvel þegar hv. þm. Jón G. Sólnes, Ingvar Gíslason og Ragnar Arnalds eiga í hlut mun með útboði eigi að síður leitað að lægsta verði, — koma síðan og ljúga því að þjóðinni að tilteknir rafverktakar hafi boðið lægsta verð og aðrir hafi ekki fengið verkið vegna þess að þeir buðu hærra, en koma svo tveimur árum seinna til Alþ. og segja: Því miður voru einhver mistök þarna og við greiddum óvart 4–5 sinnum meira en um var samið? Geta þetta verið undir einhverjum kringumstæðum eðlileg vinnubrögð? Ég segi nei. Þetta eru undir engum kringumstæðum eðlileg vinnubrögð, og þarna ber Alþ. að grípa í taumana og t. d. á fjh.- og viðskn., þar sem sitja rannsóknarþm. eins og ég og hv. 1. þm. Austurl., ekki að láta staðar numið.

Ég sting upp á þeirri vinnuaðferð að kalla fyrir þá sem hlut eiga að máli svo sitjum við í forsæti rannsóknarréttarins, við Lúðvík, og fyrir framan okkur gætu t. d. setið Ragnar Arnalds, Jón G. Sólnes, Ingvar Gíslason, Rafaflsmenn og aðrir þeir sem þessa viðskiptasamninga gerðu, því að fjölmörgu er ósvarað í þessum efnum. — Genginn er í salinn hv. 1. þm. Austurl. og formaður fjh.- og viðskn. Veit ég að hann er mér sammála um hvert orð sem ég hef sagt, og hef ég enga ástæðu til þess að ætla annað, enda er hann móralskur maður í alla staði.

Alþingi ber að taka svona mál til meðferðar. Það fer ekki milli mála að hér rekumst við á sannarlega misnotkun á fjármunum skattgreiðenda, til að kalla það ekki stærri eða sterkari orðum. Þegar um það er að ræða koma alþm. gjarnan og setja hausana niður og hendurnar upp og samþykkja. Slíkt ber að stöðva og kanna málin til hlítar: í fyrsta lagi, hverjar séu skýringar, og í öðru lagi, hvað beri að gera. Og handhafi framkvæmdavaldsins og ríkissjóðs, hæstv. fjmrh., hlýtur að vera mér sammála um að svona má ekki og á ekki að fara með almannafé.

Auðvitað gefur þetta mál fyllstu ástæðu til að fara lengra aftur á bak og áfram og rekja fleiri sóðasögur af fjármálaævintýrinu norður við Kröflu. Auðvitað gefur þetta mál eitt og 9. aths. yfirskoðunarmanna ríkisreikninga hina fyllstu ástæðu til að rifja upp samningana við Mitsubishi, samningana við Miðfell, bílakostnaðinn þarna, sem raunar er önnur aths. um og hún um milljónatugi — bílakostnaðinn við Kröflu sem yfirskoðunarmenn segja að sé gersamlega óskiljanlegur. Auðvitað gefur þetta fyllstu ástæðu til að rannsóknarnefnd þingsins fari ofan í allt þetta ævintýri mörg ár aftur í tímann, hvernig þessir viðskiptasamningar voru gerðir, hvernig stóð á túrbínukaupunum með þeim hætti, sem var, hvernig stóð á samningunum við Miðfell. Auðvitað hefur Alþ. fyrir löngu borið skylda til þess arna. En gott og vel! Tilefnið er hér til staðar. Það er aths. í ríkisreikningi fyrir árið 1977, að vísu ekki um Mitsubishi eða Miðfell og samninga við þá, heldur samninga við Rafafl svf., og þessa aths. yfirskoðunarmanna ríkisreikninga tel ég hina fyllstu ástæðu til að Alþ. taki mjög alvarlega, svo að ekki sé meira sagt.

Alþ. má ekki láta það henda sig að láta þennan ríkisreikning sigla fram hjá sér án þess að að verði gert. Það má ekki henda virðulega stofnun, sem m. a. á að gæta bæði hófs og siðsemi í meðferð almannafjár. Það er beinlínis skylda alþm., þegar svona mál kemur upp, að taka í taumana. Og auðvitað eru þessi mál miklu fleiri út um samfélagið allt. En við þetta er aths. í ríkisreikningum. Það er skylda Alþ. að gera allt sem í þess valdi stendur til að kanna í fyrsta lagi af hverju þetta gerðist og í öðru lagi að búa svo um hnútana að slíkt gerist ekki aftur. Það verður að vera til eitthvað í landinu sem heitir viðskiptasiðferði. Ég veit að menn eru mér sammála um að það að gera samning við ríkið um tiltekna upphæð, láta ríkið greiða sér 4–5 sinnum meira og ábyrgðina á öllu saman ber pólitískt skipuð nefnd og að sama fyrirtæki geri svo stórkostlega viðskiptasamninga við flokksblað, þetta eru svo einkennilegar tilviljanir að einhvern tíma hefðum við sagt eitthvað — og ég endurtek: t. d. við hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, ef Framsfl. og viðskiptajöfrarnir þar hefðu átt hlut að máli.

Alþingi ber ábyrgð á því að viðskiptasiðferði sé í heiðri haft á þeim sviðum sem það ræður yfir, t. d. í fjármálum ríkisins, og þegar augljóst er af aths. ríkisreikninga að svo hefur ekki verið er skylda Alþ. að grípa inn í. Ég hef lýst hverjar till. mínar eru um hvernig að verði staðið.

Hér er um að ræða eitt af þessum litlu hneykslismálum, þeim litlu ómerkilegu smámálum þar sem verið er að draga sér upphæðir úr almannasjóðum í skjóli pólitísks kerfis og á ábyrgð pólitískrar nefndar. Svo á að koma tveimur árum seinna og renna þessu hægt og hljóðalaust í gegnum þingið og þar með á málið að vera úr sögunni og allir væntanlega ánægðir. En ég er ekki ánægður og skattgreiðendur hafa enga ástæðu til að fagna svona vinnubrögðum heldur, þvert á móti. Þeir eiga líka sinn rétt. Þeir, sem í almannasjóðina greiða og ekki eru í aðstöðu til þess að mata krók inn í kerfinu, eiga líka sinn rétt og það er skylda Alþ., hverjir sem hlut eiga að máli og hvar í flokki sem menn standa, að sjá um að svona lagað gerist ekki. Það er skylda Alþ. gagnvart því fólki sem oft án aths. og oftast lætur fjármuni af hendi rakna til almannaþarfa. Okkur er treyst til að fara með þá og við eigum ekki að fara svona með það fé.

Þó svo hér hafi verið fjallað um eitt tiltekið fyrirtæki er það auðvitað aðeins vegna þess að,það er nafngreint í ríkisreikningnum. Að hér hefur verið fjallað um eitt tiltekið blað er aðeins vegna þess að samvinnufyrirtækið gerði við það samninga um húsakaup. Þá hefur verið fjallað um einn nafngreindan stjórnmálaflokk. Hann er auðvitað hvorki betri né verri en aðrir stjórnmálaflokkar. Það er aðeins gert vegna þess að hvert barn í landinu veit að þar eru tengsl á milli. Að öðru leyti er ekki verið með sérstakar aðfinnslur við nafngreinda aðila í því skyni að koma sérstaklega á þá höggi. Hér er verið að tala um „prinsipmál“ sem Alþ. ber að taka hið fyllsta tillit til. Það er skylda okkar og skattborgararnir eiga heimtingu á því.

Kröfluhneykslið allt er búið að kosta skattgreiðendur ótalda milljarða. Hér er aðeins ein saga um lítið dæmi í stóru hneyksli, hvernig samtryggingarkerfið á Íslandi kom þremur af mönnum sínum fyrir hönd 53 af 60 alþm. í framkvæmdanefnd og gaf þeim, að því er virðist, ótakmarkað leyfi til að bruðla með almannafé. Við vitum að eftir stendur hálfónýt virkjun norður í landi, og við vitum að auðvitað hafa fjölmargir, Rafafl er ekki eitt um það, af gæðingum í tengslum við hið pólitíska vald, í tengslum við hið viðurstyggilega samtryggingarkerfi, matað krókinn, grætt, fengið verkefni að alls konar skrýtnum útboðsleiðum sem augljóslega virðast aldrei hafa verið neitt nema nafnið tómt. Auðvitað hafa þeir fjármunir runnið eitthvað annað og væntanlega að hluta til runnið til að styrkja hið pólitíska samtryggingarkerfi í landinu, svo sem í þessu einstaka tilfelli. Þetta er lítil saga, sem nær yfir allan þennan áratug, um verðbólguástandið eins og það hefur verið, hið slæma viðskiptasiðferði, afskipti stjórnmálaflokkanna, hvernig þeir hafa teygt sig inn í þetta mál og önnur slík. Þetta kerfi er auðvitað komið að fótum fram. Þetta kerfi getur ekki lifað og varað nema á því séu gerðar verulegar breytingar. Þessi litla saga ætti að vera okkur víti til varnaðar. Þetta kerfi allt saman þarf að taka til rækilegrar endurskoðunar. Rafafl og viðskiptasaga þess við Kröflu er aðeins eitt lítið dæmi um ástand sem þarf að gera miklar breytingar á.