18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4964 í B-deild Alþingistíðinda. (4294)

298. mál, ríkisreikningurinn 1977

Frsm, meiri hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það er hvorki mitt hlutverk né löngun að fara að eiga orðaskipti við hv. 7. þm. Reykv. eða fást um öll þau stóryrði sem komu af munni þess hv. þm. Ég vil hins vegar segja hv. 7. þm. Reykv. það, að ég er honum sammála um að það verði að vera til og eru til að mínu mati viðskiptareglur í þessu landi sem fylgja beri. En það verða líka að vera til ákveðnar reglur þegar menn halda ræður, sem þeir verða að fara eftir, og ekki mega vera í þeim dylgjur um fjarstadda menn sem ekkert koma því máli við sem um er rætt. Því miður kom slíkt fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv. og það tel ég að verði líka að hafa í huga, því þó að hv. 7. þm. Reykv. telji sér margt leyfilegt, og hans mat gildir gagnvart honum sjálfum, er hæpið, og meira en hæpið að alþm. séu með dylgjur og aðdróttanir að mönnum sem eru fjarstaddir, hvorki hafa hér rétt eða möguleika til að verja sig né koma því máli við sem ræður hv. þm. snúast um.

Ég vil líka segja hv. þm, það, að Alþ. hefur fulltrúa í þessum málum. Það hefur kosið fulltrúa til rannsóknar þarna. Yfirskoðunarmenn ríkisreiknings eru kosnir af Alþ. Þeir eiga því eðlilega að fjalla um ríkisreikninginn og gera þær aths. sem þeir kunna við hann að gera. Þess vegna eru þeir, en ekki einstök n. í þinginu, trúnaðarmenn Alþingis.

Ég vil vekja athygli á því, að ræða sú, sem hv. þm. flutti, hefði e. t. v. ekki þurft að vera í þeim stíl sem hann flutti hana, það er önnur saga. En slík aths. var eðlileg þegar málið var til 1. umr. Þá hefði líka verið af hálfu þeirrar n., sem fékk málið, hægt að athuga málið eitthvað á annan veg en gert var. En við 1. umr. um málið voru engar aths. gerðar á hv. Alþ., að ég muni eftir, ég hygg að ég fari þar með rétt mál.

Á bls. 418 í ríkisreikningnum er aths. frá hendi yfirskoðunarmanna. Sú aths. skýrir þetta mál frá þeirra sjónarmiði og eðlilegt hefði verið að vitna í hana. Hún er það löng að nokkurn tíma tekur að lesa hana. Á bls. 426 er niðurstaða. Þetta, sem ég vitna til, er svarið sem gefið er af hálfu iðnrn. Niðurstaða yfirskoðunarmanna ríkisreikningsins er svo á bls. 426, svar eða niðurstaða eftir svar rn.

Nú vil ég taka það fram, sem ég hef áður látið í ljós á hv. Alþ., að ég tel miður farið að yfirskoðunarmenn ríkisreiknings séu allir utan Alþ. Ég gegndi því starfi um nokkurt skeið að endurskoða reikninginn og þá var sú venja, að við 1. umr. um málið á hv. Alþ. gerði ég grein fyrir þeim aths. eða skýrði þær aths. sem gerðar voru. Það hefur ekki tíðkast um nokkur ár, að þm. hafi sinnt endurskoðun þessari og þeir, sem sinna henni nú, eru ekki þm. Ég tel að miklu eðlilegra sé að þm. fjalli um þessi mál í yfirskoðun, enda gæti þá sá sem færi með það vald, skýrt málið á hv. Alþ. Ég vek athygli á þessu vegna þess og mér finnst óviðurkvæmilegt við þessa umr. hér á hv. Alþ. að fara að draga inn í umr. aðila sem ekkert koma þessu máli við.

Nú virðist vera allmikill áhugi á því að hv. þm. taki hér til máls. Ég vil taka skýrt fram, að þáttur minn er ekki annar en tala fyrir málinu á hv. Alþ., en ég komst ekki að neinni dómsniðurstöðu um það mál sem hér um ræðir. Hins vegar tekur alllangan tíma ef ég ætti að fara að lesa það svar sem iðnrn. gaf við aths. þeim sem yfirskoðunarmenn gerðu við þennan lið ríkisreikningsins. En með leyfi hæstv. forseta ætla ég að grípa niður í þetta svar, sem ber yfirskriftina „Kröflunefnd“. Iðnrn. svaraði aths. með svofelldu bréfi fyrrv. framkvæmdastjóra Kröflunefndar, dags. 15. jan. 1979:

„1. Verðbætur.

Um verðbætur yfirleitt er það að segja að þær urðu í hærra lagi vegna þess hve verkið dróst fram yfir áætlaðan verktíma vegna jarðumbrota á svæðinu.

Verðbætur eru tvenns konar:

a) Verðbætur bundnar byggingarvísitölu.

b) verðbætur bundnar beinni hækkun vinnulauna. Byggingarvísitala hækkaði úr u. þ. b. 101 í 176 á samningstímanum. Aukning launakjara var talsvert hærri og staðbundin þróun þeirra yfir tímabilið nokkuð á annan veg. Aukning tímaskrifta vegna staðaruppbóta og ferðalaga í fríum jókst t. d. án þess að slík kjaraaukning endurspeglaðist í byggingarvísitölu er byggðist á þróun landsins alls.

Eðli verkþáttarins, sem um er að ræða, hefur af framangreindum ástæðum afgerandi áhrif á magn verðbóta er á verkið reiknast. Byggingarverkþátturinn er verðbættur samkv. byggingarvísitölu, enda er efnishluti þeirra verksamninga stór hundraðshluti samningsupphæðar. Vélauppsetningar-, pípulagna- og rafmagnsverkþættirnir eru að mestu leyti vinnusamningar, þar sem efnishlutinn er á bilinu 10–20% samningsupphæðar að aukaverkum meðtöldum. Þeir verksamningar, sem gerðir voru vegna síðastnefndra verkþátta, voru því næstum að fullu verðbættir í samræmi við launakjör hverju sinni.

Flestir verkþættir framkvæmdanna við Kröfluvirkjun voru boðnir út að lokinni frumhönnun og hluta fullnaðarhönnunar. Var þessi háttur á hafður til þess að verktaki fengi nauðsynlegan undirbúningstíma til verksins án þess að verktafir hlytust af.

Hlutfall aukaverka er því mælikvarði á:

a) breytingar þær sem verða frá hönnunarstigi verkþáttarins við útboð uns fullnaðarhönnun hans er lokið.

b) breytingar þær sem gera þarf við framkvæmd verkþáttarins.

Hið háa hlutfall aukaverka í verkþáttum við raf- og pípulagnir á því orsakir sínar í þeim hlutfallslega miklu breytingum sem urðu við fullnaðarhönnun og framkvæmd þessara verkþátta.

Eftirfarandi tölulegur samanburður á greiðslum til þriggja verktaka sýnir greinilega að verðbætur til Rafafls svf. voru í fullu samræmi við verðbætur til þeirra verktaka er unnu verk svipaðs eðlis.“

Þá er það Stálsmiðjan, Hamar og Héðinn: Framkvæmd hluta samnings 48.3%, verðbætur á verksamning 11.8%, aukaverk, verðbætur meðtaldar, 39.9%.

Verðbætur aukaverka eru hér ekki sundurliðaðar, heldur reiknaðar inn í sjálfar kostnaðartölur aukaverkanna. Verðbætur á samning eru 19.6%.

Slippstöðin hf.: 26.9% framkvæmdir samningar, verðbætur á verkin 6.8%, aukaverk 27.4%, verðbætur á aukaverk 12.9%. Óverðbætt 26% . Heildarverðbætur eru þannig 26.6% samnings. — [Ræðu ekki lokið vegna þess að ræðumaður fékk aðsvif.]