18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4969 í B-deild Alþingistíðinda. (4299)

244. mál, hvalveiðar

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er ekki þörf á að mæla fyrir þessu frv. í löngu máli. Eins og fram kemur í aths. er aðalástæðan fyrir flutningi þess sú, að refsiákvæði hvalveiðilaganna eru orðin úrelt, enda verið óbreytt í 30 ár. Sektir eru nú 100 þús. kr. og þær hafa að sjálfsögðu ekki sömu varnaðaráhrif og árið 1949.

Það hefur ekki reynt á þessi ákvæði fyrr en s. l. sumar, og er það sjálfsagt orsök þess að þeim hefur ekki verið breytt. Þá var um að ræða norskan hrefnuveiðara sem staðinn var að ólöglegum hrefnuveiðum í íslenskri fiskveiðilandhelgi. Skipstjórinn hlaut aðeins 50 þús. kr. sekt og 45 daga fangelsi í samræmi við gömlu refsiákvæðin. Fangelsinu getur hann losnað undan með því að vísa á tryggingarfjárhæð, 1 millj. kr., sem honum var gert að inna af hendi. Þá var aðeins gerð upptæk ein hrefna sem hann var talinn sannur að að hafa skotið í íslenskri fiskveiðilögsögu, en báturinn var að sögn að koma af Grænlandsmiðum og var hlaðinn hrefnukjöti sem var mörgum sinnum verðmætara en sekt, tryggingarfé og andvirði upptæks afla saman lagt. Hinn norski skipstjóri áfrýjaði ekki þessum dómi til Hæstaréttar, heldur undi honum. Það er til ábendingar um að hann hafi unað honum vel.

Hér á að strengja á þeim sektum, sem hér er um að ræða. Gert er ráð fyrir að sektarfjárhæðir séu hækkaðar verulega og verði í samræmi við sektarákvæði laga nr. 81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Það ættu að vera augljós rök til þess að hafa a. m. k. jafnhá refsiviðurlög við ólöglegum hvalveiðum og ólöglegum fiskveiðum. Sektirnar eru miðaðar við gullkrónur, eins og í fiskveiðilögunum, og eins og þar er er gert ráð fyrir að allur afli skips í veiðiferð sé gerður upptækur ef skip er staðið að broti, en ekki bara sá hluti aflans sem hægt er að sanna að sé ólöglega tekinn.

Ég vísa að öðru leyti til aths. við frv., hef þessi orð ekki fleiri en vænti þess að frv. þetta hljóti skjóta afgreiðslu og verði sem fyrst afgreitt sem lög frá þessu þingi, um leið og ég geri að till. minni að því verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.