18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4982 í B-deild Alþingistíðinda. (4306)

271. mál, heilbrigðisþjónusta

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Frv. þetta er samið í heilbr.- og trmrn. og er með því lagt til að lögfestar verði nokkrar breytingar á skipan umdæma samkv. lögum nr. 57 frá 20. maí 1978, um heilbrigðisþjónustu. Frv. þetta var lagt fram í Ed. og náðist um það góð samstaða. Það er nú komið til hv. Nd. í nokkuð breyttu formi. Það virðist hafa brenglast eitthvað og vil ég vekja athygli á því, að samkv. 1. gr. er talið að heilsugæslustöðvar geti verið með tvennu móti, heilsugæslustöð H 2 og heilsugæslustöð H 1. Ég held að það hljóti að vaka fyrir löggjafanum að heilsugæslustöðvar verði hér eftir sem hingað til í þrem flokkum, H, H 1 og H 2. Það getur verið að þetta sé prentvilla. En í aths. við 1. gr, er það skýrt tekið fram, að heilsugæslustöð án læknis er H stöð. Ég læt útrætt um þetta atriði, en vík aðeins að þeirri breytingu sem var gerð í Ed. að því er varðar skipan umdæma á Vesturlandi.

Þar er nú komið inn í 2. gr., í Stykkishólmsumdæmi, Grundarfjörður H 1, starfssvæði Grundarfjörður, Eyrarsveit. Ég vil geta þess, að Eyrarsveit og Stykkishólmshreppur hafa mjög lengi undanfarið haft ágæta og nána samvinnu um heilbrigðismál. Læknar hafa farið frá Stykkishólmi til Grundarfjarðar og látið íbúunum í té þjónustu sína. En það er ofureðlilegt að eftir því sem hin unga byggð í Grundarfirði vex — íbúar í Eyrarsveit munu nú vera orðnir milli 800 og 900 — komi upp áhugi á því að fá þar fastbúsettan lækni. Að því lýtur sú breyting sem hér er gerð.

Þetta er ekki nýtt mál fyrir mér. Ég veit að að þessu hafa margir unnið á undanförnum mánuðum og jafnvel árum. Mér er kunnugt um að Kristófer Þorleifsson héraðslæknir í Ólafsvík hefur unnið að þessum málum við heilbrigðisstjórnina. Og ég get getið þess, að í desembermánuði komu að vestan sveitarstjóri þeirra Grundfirðinga og hreppsnefndarmenn og áttu tal við alla þm. Vesturl. og fóru þess m. a. á leit að þeir ynnu að þessu máli. Ákveðið var þá í des., að fresta málinu þar til síðar á þessum vetri. Þegar þetta frv. var lagt fram í Ed., lögðu þm. Vesturl., sem sæti eiga í þeirri d., fram brtt. sem gekk í þessa átt og nú er felld inn í frv. Ég fagna þessari breytingu og styð hana heils hugar.

En ég vil að lokum vekja athygli á því, að þrátt fyrir þá skiptingu umdæma, sem ég hef hér minnst á, er í 4. gr. endurtekið bráðabirgðaákvæðið í núgildandi lögum er segir á þá leið, að þrátt fyrir framangreinda skiptingu og þar til öðruvísi verður ákveðið skuli heilsugæslustöðin í Stykkishólmi þjóna Flateyjarhreppi og heilsugæslustöð í Búðardal sjá um læknismóttöku á Reykhólum. Þessi skipan hefur komist á. Íbúar Flateyjarhrepps sækja ýmsa þjónustu til Stykkishólms, m. a. læknisþjónustu, og Austur-Barðstrendingar og Dalamenn eru bundnir samningum um heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu. Ég held að það fari vel á þessu. Tekist hefur góð samvinna milli þessara umdæma með eðlilegum hætti. Mér segir svo hugur um og vil undirstrika það, að þessi skipan muni lengi haldast.