18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4989 í B-deild Alþingistíðinda. (4321)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta þing hefur verið með mjög óvenjulegum hætti allt frá því að það hófst og til þessarar stundar. Það má segja að þingtíminn hafi farið í rifrildi á milli stjórnarþm. alveg frá fyrsta degi og til þessa dags. Nú loksins þegar er búið að ákveða að ljúka þingi taka forsetar þingsins nokkurn fjörkipp og boða til þingfunda hvert kvöld í þessari viku að einu kvöldi undanskildu. Ég leyfi mér að vitna til eins elsta þm., þess manns sem hefur sennilega verið lengst af í stjórnarandstöðu, hv. 1. þm. Austurl., sem er allra manna samviskusamastur að mæta á þingfundum og hefur verið frá fyrstu tíð, að ég minnist þess að hann mótmælti kröftuglega ef það ætti að halda þrjú kvöld í viku kvöldfundi í þingi og taldi það ekki nokkra stjórn á þinginu og enga mannasiði að bjóða þm. það að fá ekki tækifæri !il að kynna sér allt það blaðaregn sem kemur á borð þm. Og verkstjórnin hér í þessari hv. þd. er með endemum. En ég ætla nú að tala við „generalforsetann“, en ekki 1. varaforseta. Ég veit ekki hvernig hefði farið í þessari hv. þingdeild ef forseti Nd. hefði ekki brugðið sér eitthvað suður á bóginn um tíma, því að það var 1. varaforseti sem vann með alveg sérstakri verklagni að því að koma hér málum áfram, enda voru margir stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna farnir að segja að það væri nær að kjósa forseta eftir gæðum, en ekki eftir einhverju flokkseyrnamarki.

Stjórn hæstv. forseta Nd. er með endemum. Það er hlaupið úr einu málinu í annað. Það er tekið fyrir hér mál kl. 9 sem ráðh. hafði mælt fyrir, frv. um eftirlaun aldraðra í stéttarfélögum, og þá tekur til máls 6 þm. Reykv. og talar langt mál, maður úr stjórnarherbúðunum. Ég bið um orðið — ég tilheyri nú stjórnarandstöðu — og um leið og komið er að mér er málið tekið út af dagskrá. Það er hlaupið úr einu í annað, það er engin stjórn, það veit enginn hvað er að gerast hérna, og sennilega síst af öllu forseti Nd. (Gripið fram í: Hvar er hann?) Jú, hann má gjarnan koma og svara fyrir sig á eftir. En þetta eru ekki vinnubrögð sem þm. geta viðurkennt að sé sæmilegt að viðhafa. (Gripið fram í: Er ekki rétt að láta forsetann vita af því.) Já, ég skal segja hæstv. landbrh. það, að ég hef fullt leyfi til þess að láta í ljós aths. (Gripið fram í.) Vill ekki forsetinn biðja landbrh. að loka túlanum á sér augnablik, hann er víst búinn að hafa hann nógu mikið upp á gátt í vetur sjálfum sér og landbúnaðinum til skammar, svo sem ég kem síðar að. En ég ætla að endurtaka það, að vinnubrögð forseta Nd. eru fyrir neðan allar hellur. Það er hlaupið úr einu í annað, það er lokað fyrir þegar kemur að stjórnarandstöðu, og hann hefur sýnt hér hlutdrægni sem er óviðkunnanleg. Í öll þau ár sem ég hef setið á þingi hefur aldrei setið forseti sem hefur sýnt jafnmikla hlutdrægni og hæstv. forseti Nd. (SV: Segðu þetta tvisvar.) Ég ætla nú að biðja hv. Stefán lagabæti að stilla sig.

Sá háttur hefur verið hafður á, að þegar líður að þinglokum ræðir ríkisstj. við talsmenn stjórnarandstöðu um það, hvaða frv. eigi að leggja áherslu á að verði að lögum, því að það er ekki hægt að halda viðstöðulaust áfram með líklega 20–30 mál á dagskrá. Hæstv. forsrh. sagði við talsmenn stjórnarandstöðu að hann legði ákveðna áherslu á að ljúka tilteknum örfáum málum. Síðan er haldið áfram með aragrúa af málum sem hann segist ekki leggja neina höfuðáherslu á. Þetta þinghald er orðið ein endaleysa og allt í hönk hér í þinginu og sérstaklega í Nd.

Það hefur verið hér til umr. annað mál: um framhaldsskóla. Það var lokað á þær umr. í fyrradag, en alltaf er málið látið vera á dagskrá. Það á sem sagt að lauma því áfram ef einhverjir ákveðnir menn fara út úr þd. Ég hef aldrei þekkt slík vinnubrögð fyrr hjá forseta deildar, og það eru fleiri þdm. en ég sem segja og hugsa það sama.

Því frv., sem hér liggur fyrir um Framleiðsluráð landbúnaðarins og er flutt sem stjfrv., var fylgt úr hlaði af landbrh. sem hefur ferðast vítt um landið á undanförnum vikum og mánuðum og verið allur af vilja gerður að bjarga landbúnaði og íslenskri bændastétt. Hann hefur lagt fram hér mjög merka bók um stefnumörkun í landbúnaði, sem er með efnisyfirliti upp á 112 bls. Sjálfstæðismenn hafa lagt fram hér till. til þál, um stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins sem er flutt af þm. flokksins í öllum kjördæmum. Það er ítarleg grg. um stefnumörkun í landbúnaðarmálum. Og nú í lok þingsins flytur landbn. brtt. við frv. sem hér liggur fyrir, ákvæði til bráðabirgða, að Sexmannanefnd skuli án tafar taka til meðferðar þá tekjuskerðingu sem við framleiðendum landbúnaðarafurða blasir vegna söluerfiðleika á þeirri framleiðstu sem er umfram innanlandsþarfir. Skal n. fyrir 1. sept. 1979 leggja fyrir ríkisstj. till. um lausn þess vanda þannig að tekjuskerðing bænda verði sem minnst. Ríkisstj. er heimilt að ábyrgjast lán allt að 3.5 milljörðum kr. er Framleiðsluráð landbúnaðarins tekur til framkvæmda á till. nefndarinnar.

Það er furðulegt að stjfrv., sem lagt er fram, skuli vera lagt fram án þess að samkomulag hafi náðst í hæstv. ríkisstj. um framgang málsins, þrátt fyrir það að stjórnarflokkarnir hafi komið sér saman um samstarfsyfirlýsingu þegar ríkisstj. var mynduð 1. sept. á s. l. ári. Í þeirri samstarfsyfirlýsingu segir um landbúnað:

Stefnt verði að sem hagkvæmustu rekstrarformi og rekstrarstærð búa og að framleiðsla landbúnaðarafurða miðist fyrst og fremst við innanlandsmarkað. Skipuð verði samstarfsnefnd bænda og neytenda sem stuðli að aukinni fjölbreytni í búvöruframleiðslu og til samræmingar óskum neytenda með aukna innanlandsneyslu að marki. Endurskoðað verði styrkja- og útflutningsbótakerfi landbúnaðarins með það að marki að greiðslur komi bændum að betri notum en nú er. Lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins verði breytt m. a. á þann hátt, að teknir verði upp beinir samningar fulltrúa bænda og ríkisvaldsins um verðlags-, framleiðslu- og önnur hagsmunamál landbúnaðarins. Jafnframt verði Framleiðsluráði veitt heimild til að hafa með verðlagningu áhrif á búvöruframleiðslu í samræmi við markaðsaðstæður. Rekstrar- og afurðalánum verði breytt þannig að bændur geti fengið laun sín greidd og óhjákvæmilegan rekstrarkostnað svipað og aðrir aðilar fá nú.“

Þetta eru sem sagt þau markmið sem núverandi stjórnarflokkar settu sér, þegar þessi ríkisstj. var mynduð, í sambandi við framkvæmd landbúnaðarstefnu.

Í framhaldi af því, eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Suðurl., leggur landbrh. till. fram í ríkisstj. þess efnis, að ríkisstj. beiti sér fyrir tilteknum aðgerðum til lausnar þeim vanda sem að bændastéttinni steðjar vegna umframframleiðslu landbúnaðarafurða á yfirstandandi verðlagsári. Þar segir að Framleiðsluráði landbúnaðarins verði heimiluð lántaka allt að 3.5 milljörðum til þess að greiða fyrir sölu á umframframleiðslu landbúnaðarafurða erlendis eða til innlends iðnaðar, að fengnu samþykki landbrh., til viðbótar þeim útflutningsbótum sem veittar eru úr ríkissjóði samkv. lögum. Ríkisábyrgð verði veitt fyrir þessari lántöku. Og síðan segir að lán þetta verði að fullu endurgreitt ásamt kostnaði á 5 árum, og eru þar tilteknir þrír liðir.

1. Að hluta með nokkru af því fjármagni sem veitt er samkv. jarðræktarlögum, en ekki kann að verða notað til slíkra framkvæmda næstu 5 árin, enda samþykki Alþ. breytingar sem nauðsynlegar eru á jarðræktarlögum í því skyni.

2. Að hluta með því fjármagni sem heimilt er samkv. lögum að veita til útflutningsbóta, en ekki kann að reynast nauðsynlegt að nýta að fullu einstök ár næsta 5 ára tímabil, enda veiti Alþ. heimild til slíkrar ráðstöfunar útflutningsbóta með nauðsynlegum breytingum á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

3. Með fjárveitingum á fjárl. næstu 5 árin að svo miklu leyti sem ekki reynist unnt að endurgreiða umrætt lán og kostnað að fullu eftir ofangreindum leiðum. Af útflutningsbótum samkv. 2. lið skulu þó greiðast a. m. k. 3.5 milljarðar kr.

Þá segir enn fremur: „Ofangreindar ráðstafanir eru háðar því, að þegar verði hafist handa um að snúa við þeirri þróun vaxandi framleiðslu landbúnaðarafurða sem verið hefur undanfarin ár og áætlun gerð til 5 ára um þróun landbúnaðarframleiðslunnar, þar sem að því verði stefnt að framleiðsla búvöru verði sem næst þörfum þjóðarinnar og íslensks iðnaðar, enda veiti það Alþ., sem nú situr, nauðsynlegar heimildir, svo sem með auknum heimildum til Framleiðsluráðs landbúnaðarins til þess að hafa stjórn á landbúnaðarframleiðslunni og til þess að leggja á verðjöfnunargjald þannig að spornað verði gegn aukinni framleiðslu búvöru; í öðru lagi breytingu á jarðræktarlögum þannig að heimilt verði að ráðstafa jarðræktarframlögum að hluta eins og að framan greinir; í þriðja lagi breyting á lögum um Framleiðsluráð o. fl. þannig að teknir verði upp beinir samningar um kjaramál bænda á milli bænda og ríkisvaldsins og heimilt að ráðstafa útflutningsbótum eins og að framan er greint; í fjórða lagi mörkun þeirrar stefnu sem fylgja ber við gerð áætlunar á sviði landbúnaðarmála og í kjarasamningum á milli bænda og ríkisvaldsins. Tillögur um ofangreind efni, sem ekki liggja þegar fyrir Alþ., munu verða lagðar fram á næstu tveim vikum, segir í þessari till. landbrh. sem hann lagði fyrir ríkisstj.

Ég fyrir mitt leyti tel þessa tillögu hina mestu grautargerð, afar illa samda og ruglingslega, svo að ég get ekki álasað veslings krötunum í ríkisstj. að þeir hafi ekki gleypt þessa till. eins og hún er lögð fram. Þó að þeim sé nú álasað fyrir margt, þá held ég að það sé ósanngjarnt að álasa þeim fyrir að sporðrenna ekki þessum graut frá hæstv. landbrh.

Til hvers er ríkisstj. í einu landi ef hún á ekki að marka stefnu? Til hvers eru flokkar að koma sér saman um myndun ríkisstj. ef þeir geta ekki markað stefnu í ákveðnum málum. Til hvers hafa þeir gert samstarfssamning að stjórna landinu? Svo er komið með málin til landbn., og vegna þess að það horfir illa í landbúnaðarmálum á að reyna að koma hér inn till. í ákvæði til bráðabirgða, að ríkisstj. sé heimilt að ábyrgjast lán upp á aðeins 3500 millj. sem Framleiðsluráð landbúnaðarins tekur til framkvæmda á till. n. Ég tel þessa till. eins og hún liggur fyrir fráleita. Og þá segi ég ekki að ég sé á móti því að greiða fyrir landbúnaði og úr erfiðleikum bænda. En það verður að vinna að þeim málum af einhverri festu, en ekkí vera akandi um allt land og flytja ræður í tíma og ótíma um nýja stefnumörkun, sem er engin stefnumörkun eins og sannarlega kemur í ljós ef menn hafa haft tíma til og hafa nennt að lesa þessa bók sem landbrh. hefur lagt hér fram á Alþingi.

Í þessari bók er sagt að samdrætti í framleiðslu búfjárafurða megi ná á tvo vegu: annars vegar með fækkun gripa og hins vegar minni afurðum eftir grip. Á eftir er svo fjallað um mismunandi áhrif þessara þátta á afkomu bænda og gengið út frá því að engar útflutningsbætur séu greiddar og umframframleiðsla á mjólk sé 20 millj. lítra. Síðan kemur um fækkun gripa: Fækkun gripa getur í megindráttum orðið á tvennan hátt: í fyrsta lagi fækkun framleiðenda og í öðru lagi fækkun gripa á framleiðanda. — Það er efnilegt fyrir bændur að bíða eftir því hvernig þessi fækkun framleiðenda verður framkvæmd. Hann ber sig vel, formaður landbn., hann er sennilega í náðinni þar. Hér segir í stefnumörkun landbrh. um fækkun gripa:

„Fækkun gripa mun í bili auka framboð á nautgripakjöti, en eftirspurn eftir því hefur aukist stöðugt á undanförnum árum. Einnig má benda á að kýr, sem fyrirsjáanlegt er að mundu verða arðlitlar vegna heilsuleysis, erfiðleika í sambandi við frjósemi, fastmjólka kýr, kýr með skapgalla o. fl. ættu að koma frekar til greina, þegar um fækkun er að ræða. Sparnaður í tilkostnaði er því í reynd meiri, ef slíkum kúm er fargað, heldur en meðaltölur sýna.“ Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum: „Þá bása, sem auðir yrðu, mætti nýta til kjötframleiðslu.“ Það verður seig undir tönn sú kjötframleiðsla ef á að framleiða kjöt úr auðum básum.

Ekki er nú að spyrja um stefnumörkun í dýraverndinni. Hún lýsir sér í þessari setningu: „Áhrifaríkasta leiðin til að draga úr afurðum eftir grip er að takmarka magn og gæði fóðurs.“

Það er farið út í margt, og það eru fundnar nýjar tekjuöflunarleiðir og stórfelldur nýr útflutningur: „Aðrar tekjuöflunarleiðir af hrossum, sem vert er að athuga, eru aukin hagnýting húða, bæði af folöldum og fullorðnum hrossum, nýting á hrosshári til iðnaðar, framleiðsla á kaplamjólk til útflutnings sem barnamjólk og handa sjúklingum og loks hirðing á þvagi og blóði úr hrossum til lyfjaframleiðslu.“ Við þurfum ekki að kvíða framtíðinni þegar þetta allt verður orðið að veruleika. Ekki þarf að sækja sjó lengur og elta síðasta þorskinn þegar verður hægt að flytja út allt þetta hrossahland til lyfjaframleiðslu í öðrum löndum.

Og þá stendur hæstv. landbrh. sig ekki illa þegar hann fer í loðdýraræktina. Þá segir hann: „Hús fyrir eina minkalæðu ásamt rými fyrir hluta úr högna og fyrir hvolpana er um 1.5–1.7 m2.“ Það væri fróðlegt að fá að vita hvaða hluti úr högna eigi að vera þarna í húsinu hjá læðunni ef ráðh. kemur hér upp á eftir. (LJós: Er það ekki gefið mál?) Ja, það veit ég ekki. Ég er ekki svo vel heima, hv. 1. þm. Austurl., í þessum nýju fræðum, en við eigum sennilega eftir að fá betri og gleggri skýringar á þessari nýju stefnu í landbúnaðarmálum. Hún er alveg stórkostleg, þessi nýja stefna, og það er von, að þeir drúpi höfði, bændaleiðtogarnir, að hafa fengið slíkan landbrh.

Enn hefur eitt nýtt gerst í landbúnaðarmálum og þá um leið í kaupgjalds- og kjaramálum. Og það er nýja mjólkurfræðingaverkfallið. Aldrei fyrr hefur það gerst að menn fái fullt kaup og séu í verkfalli. Hvernig getur þetta viðgengist. Aldrei hefur mönnum dottið í hug að borga Dagsbrúnarmönnum kaup fyrir að vera í verkfalli, t. d. að skipa upp úr skipunum, en setja afgreiðslubann á vörurnar. Nú er þessi nýi háttur tekinn upp og það er verið að vinna úr þessum afurðum í lægstu verðflokka. Þjóðhagslega séð sé ég ekki hagnað af því, en það getur vel verið að ókunnugleiki minn á því valdi því að ég sjái það ekki. Það væri fróðlegt að fá frá hinum stefnumarkandi og glaða landbrh. einhverjar skýringar á því, hvað sé á bak við. Hafa þessi mjólkurbú fengið uppáskrift á víxilinn, að það sé hægt að láta menn vinna í verkfalli því að það muni verða borgað síðar af þjóðfélagsþegnunum, af skattborgurunum. Meira að segja 7. þm. Reykv., sem telur sig hér sjálfkjörinn fulltrúa skattborgaranna í landinu, hefur ekki orðað þetta einu orði. Hann hlýtur að eiga eftir að koma inn á það. Á að verja því fjármagni, sem ætlað er samkv. þessu frv., til þess að halda mönnum uppi í verkfalli með því að borga þeim fullt kaup og ná þeim eina tilgangi að koma í veg fyrir að þessar afurðir seljist og komist niður í Íslendinga sjálfa, þær nái ekki til neytenda langtímum saman? Þetta er ekki sú stefna sem ég hélt að hæstv. landbrh. mundi marka þegar hann fór af stað og gerði víðreist um landið á fundi bænda á s. l. hausti og í raun og veru í allan vetur.

Ég skil ekki í því hvernig hæstv. landbrh. hefur tekist að skapa þá sundrung sem hann hefur gert í landbúnaðinum sjálfum? Ég heyrði í útvarpsumr. í gærkvöld að einn versti maður á þingi fyrir landbúnaðinn væri Pálmi Tónsson, hv. 2. þm. Norðurl. v. Þessi hv. þm. hefur lagt sig fram um það að mynda stefnu og viljað hafa sem nánast samstarf um mótun heilbrigðrar stefnu í landbúnaðarmálum. Hann var 1. flm. að stefnumörkunarþáttill. sjálfstæðismanna þar sem segir:

Alþ. ályktar að stefnumörkun í málefnum landbúnaðarins skuli byggjast á eftirfarandi grundvallaratriðum:

1. Treyst verði sjálfseignarábúð bænda á jörðum og eignarréttur einstaklinga og sveitarfélaga á landi og hlunnindum verndaður.

2. Unnið verði markvisst að aukinni hagkvæmni í landbúnaðinum ásamt fjölbreytni í framleiðslu og fullvinnslu búvara.

3. Landbúnaðinum verði búin þau skilyrði að unnt sé að tryggja bændum sambærileg lífskjör og aðrar fjölmennar stéttir þjóðfélagsins búa við.

4. Framleiðsla landbúnaðarafurða miðist fyrst og fremst við það, að ávallt verði fullnægt þörfum þjóðarinnar fyrir neysluvörur og hráefni til iðnaðar. Auk þess verði tekið fullt tillit til þjóðhagslegs gildis þeirra atvinnutækifæra annarra sem landbúnaðarframleiðslan veitir.

5. Tryggð verði í megindráttum núverandi byggð í sveitum landsins. Komið verði í veg fyrir miklar sveiflur í landbúnaðinum, sem geti valdið óvæntri búseturöskun, og í því skyni verði m. a. nýttir allir hagrænir möguleikar til atvinnu- og framleiðslustarfsemi sem byggjast á nýtingu lands-, vatns- og sjávargæða. Iðnaðar- og þjónustustarfsemi í sveitum verði aukin.

6. Sveitafólki verði með lögum veitt sambærileg félagsleg réttindi og þorri annarra þegna þjóðfélagsins nýtur. Aukið verði jafnræði í aðstöðu til mennta og til þjónustu opinberra aðila án tillits til búsetu.

7. Gætt verði hófsemi í umgengni við landið og náttúru þess. Tryggt verði svo sem tök eru á að varðveitt séu sérstæð náttúrufyrirbrigði, gróður, dýralíf og hlunnindi. Öllum verði gefinn kostur á að njóta samskipta við náttúru landsins og í því skyni séð fyrir nægilega mörgum opnum svæðum til útivistar, þjóðgörðum og tjaldstæðum.“

Síðan er farið ítarlega út í þær leiðir, sem farnar eru til þess að ná framangreindum markmiðum, í mjög ítarlegri grg.

Ég held að það sé ekki neitt áhorfsmál, það sé opið fyrir öllum, að landbúnaðarframleiðslan í þessu landi er orðin meiri en svo að við getum nýtt hana sjálfir og því fer útflutningur mjög vaxandi, og útflutningur á mjólkurafurðum og kjötafurðum sömuleiðis er okkur þjóðhagslega séð óhagkvæmur þó að við getum aldrei áætlað nákvæmt í sambandi við framleiðslu á landbúnaðarafurðum hvað mikið selst innanlands, og þá verður eitthvað að vera upp á að hlaupa til þess að selja úr landi þó það sé okkur á margan hátt óhagstætt.

Þá komum við auðvitað fyrst og fremst að því, að til þess að fólk flýi ekki umvörpum sveitirnar þarf að koma upp öðrum atvinnurekstri við hliðina á landbúnaðinum, margvíslegum iðnrekstri, til þess að fólkið haldist í sínum heimabyggðum. Þar á fyrst og fremst að koma stuðningur á margan hátt til þess að reisa slík atvinnufyrirtæki, ekki með gjafafé eða styrkjum, heldur með hagstæðum lánum til langs tíma og ákveðinni vel uppbyggðri áætlun til þess að gera atvinnulífið í sveitunum fjölbreyttara en það er nú, til þess að viðhalda byggð um allt land þar sem byggð er á annað borð lífvænleg. Á þetta er lítið litið og lítið um hugsað. Í þessum stóra doðranti landbrh. er verið að fílosófera um allar mögulegar leiðir og ómögulegar, og niðurstaðan eiginlega í hverjum kafla er sú, að það kemur ekkert út úr því. Ef menn lesa þessa stefnumörkun lið fyrir lið, þá held ég að enginn geti verið hrifinn af þessari framleiðslu hæstv. landbrh., og ég trúi því ekki að hann sé það sjálfur, a. m. k. ef hann hefur lesið bókina sína tvisvar. (Gripið fram í.) Já, það er ljóti samsetningurinn.

Ég tel mikils virði þegar jafnilla árar og nú, ekki eingöngu í landbúnaði, einnig við sjávarsíðuna, sérstaklega norðanlands og austan, að ríkisvaldið hraði því að koma til móts við alla þá sem þar eiga við stórkostlega erfiðleika að búa. Ég tel það mikils virði að Alþ. sameinist um aðgerðir í þeim efnum. En hitt tel ég skyldu ríkisstj., að hún móti fyrst og fremst þessa stefnu þar sem hún ein ber ábyrgðina á því hvernig fjármagni er varið í þessu skyni. Það er eitt dæmið enn um grátlega óhamingju þessarar ríkisstj., þrátt fyrir allar hinar löngu umr, um landbúnaðarmál á þessu þingi í vetur, að hún skuli ekki nú nokkrum dögum áður en þingi á að slita hafa komið sér saman um neinar aðgerðir til verndar íslenskum landbúnaði. Það hlýtur að liggja í því, að klaufalega hefur verið á þessum málum haldið frá hendi hæstv. landbrh. í ríkisstj. og við samstarfsflokkana. Enn á að heita svo að þessir flokkar eigi samleið því að þeir eiga þó allir enn þá fulltrúa í ríkisstj. Ég álit að-það sé í alla staði óeðlilegt að komið sé til Alþ. með ágreiningsmál í ríkisstj. Og þar álasa ég þá, sem hafa ekki viljað fallast á till. landbrh., fyrir að hafa ekki lýst yfir strax við 1. umr. þessa máls að þeir væru ekki stuðningsmenn þessa frv. Eins og þessa till. um ákvæði til bráðabirgða ber að get ég ekki greitt atkv. með henni þó að ég feginn vilji koma landbúnaðinum til hjálpar eftir því sem hægt er. En það verður að vera byggt á ákveðinni samræmdri stefnu sem hefur það markmið að draga úr framleiðslunni, en ekki með þeirri grautargerð sem till. landbrh. í ríkisstj. er.