18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 4999 í B-deild Alþingistíðinda. (4326)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki að skipta mér af deilum samþm. minna úr Vestfjarðakjördæmi, en það er út af fyrir sig fróðlegt að það skuli hafa verið hv. 1. þm. Vestf. sem menn höfðu í huga þegar þeir sömdu hina athyglisverðu grg. með þáltill. hæstv, landbrh. Ég vil aðeins taka það fram, að í máli því, sem hér um ræðir, er mikill ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna.

Ég tel mjög óæskilegt að þetta mál sé rætt á þessum tíma, klukkan að ganga 12, skömmu áður en þinglausnir eiga væntanlega að fara fram, ef svo heldur sem horfir, og óska mjög eindregið eftir því við hæstv. forseta að hann fallist á að fresta frekari umr. um málið til næsta fundar, svo að menn þurfi ekki að setja á langar tölur um ágreiningsmál milli ríkisstjórnarflokkanna á næturfundi þegar ráðh. Alþfl., sem ætlaði að tjá sig um þetta mál sérstaklega, gefst því miður ekki kostur á vegna annarra starfa að vera viðstaddur. Ég færi sem sagt fram formlega þá ósk við hæstv. forseta að hann fallist á að fresta umr. um mál þetta. (Forseti: Hér eru enn allmargir hv, þm. á mælendaskrá og hér er mál sem mér skilst — og ég held að ég skilji það rétt — að hæstv. ríkisstj. sækir mjög á um að nái fram að ganga. Ég tel mér engan veginn fært að verða við þessari beiðni. Ég fer fram á það við hv. þdm., að þeir hafi við okkur forsetana góða samvinnu. Það er að okkur sótt, og umr. heldur nú áfram.) Hæstv. forseti. Ég mun verða að hlíta þessum úrskurði, en ég vek athygli á því, að hér er það formaður þingflokks ríkisstjórnarflokks, sem óskar eftir frestun á frekari umr. um mál, og það kemur í hlut hæstv. forseta, sem er úr stjórnarandstöðuflokki, en gegnir þó skyldum sem forseti, að kveða upp þann úrskurð að hæstv. landbrh. liggi svo mikið við að afgreiða málið að hann vilji ekki verða við tilmælum um að það sé rætt á öðrum tíma en um eða eftir miðnætti. Hæstv. ráðh. vill sem sé ekki fallast á að þau verk, sem þarf að vinna í sambandi við þetta mál, séu unnin á öðrum tíma en á næturþeli. Ég vil þess vegna leita eftir því við hæstv. forseta, hvort hann vilji hafa samband við hæstv. landbrh., sem hér er staddur, og vita hvort hæstv. landbrh. vilji fallast á þau tilmæli að umr. um málið verði frestað. (Forseti: Að höfðu samráði við hæstv. landbrh. er það a. m. k. ákveðið að umr, verður ekki lokið á þessum fundi. Frekari ákvörðun í málinu hefur ekki verið tekin. 2. umr. verður ekki lokið á þessum fundi en óráðið hversu lengi henni verður fram haldið.) Ég þakka hæstv. landbrh. þessar viðtökur við beiðni minni og mun því halda máli mínu áfram. Þó vera kunni að ýmsir aðrir Alþfl.-menn hafi aths. við þetta mál að gera við framhaldsumr., þá verður hún á skaplegum tíma.

Ég vil einnig taka það fram, að mér finnst mjög óæskilegt að afgreiða mál eins og þessi á þessum tíma, þegar haft er til hliðsjónar að þm. þurfa nú að sitja stöðuga fundi bæði í nefndum og í þm.-hópum í sambandi við afgreiðslu vegáætlunar frá því árla morguns og langt fram á nætur. Þm. er ekkert ofverk að vinna fyrir kaupinu sínu. En það er hætt við því, þegar mál eru svo hart fram keyrð að þm. gefist ekki kostur á að skoða þau, að vinnubrögð hv. Alþ. verði ekki eins vönduð og ástæða væri til. E. t. v. er það tilgangurinn með því að mönnum liggur nú svo mjög á að fá þetta mál afgreitt.

Ég vil aðeins taka það fram, að það hefur komið fram hjá mér úr þessum ræðustól áður að sú skipan verðábyrgðar umframframleiðslu landbúnaðarafurða í landinu, sem gilt hefur í allmörg ár, hefur beinlínis stuðlað að varanlegri mikilli offramleiðslu á landbúnaðarafurðum. Verðábyrgð þessi er, eins og menn vita,10% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, þar með talið framleiðsluverðmæti allra hliðarbúgreina, svo sem fiskræktar, veiðibúskapar, dúntekju o. fl., o. fl. Jafnvirði 10% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar er síðan ríkissjóði gert að ábyrgjast til þess að greiða með útfluttum landbúnaðarafurðum. Þessi skipan verðábyrgðar hefur orðið til þess að festa varanlega í sessi mjög mikla offramleiðslu í landbúnaði á tilteknum afurðum. Þessi offramleiðsla getur numið í magni til allt að 40%, og flest þau ár, eða 8 af 14, sem þessi verðábyrgð hefur verið í gildi hefur hún verið notuð að lögleyfðu hámarki, þó svo að áður en verðábyrgðin gekk í gildi hafi mesti útflutningur landbúnaðarafurða numið röskum 5% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar.

Nú er það orðið ljóst, að m. a. þetta hefur orðið til þess að alger sprenging hefur orðið í landbúnaðarframleiðslunni. Ljóst er orðið að á undanförnu ári þurfti að fara fram yfir lögleyfð hámörk verðábyrgðar ríkissjóðs til þess að standa undir útflutningi á offramleiðslu landbúnaðarafurða. Að því er hæstv. ráðh. hefur sjálfur sagt úr þessum ræðustóli hefur sú þróun haldið áfram á s. l. ári. Sökum góðs árferðis, sem hefur verið meginorsök mikillar framleiðslu að sögn þeirra beggja, hæstv. landbrh. og búnaðarmálastjóra, hefur mikil offramleiðsla orðið í landbúnaði. Þessar niðurstöður hafa verið túlkaðar sem sérstök byrði fyrir landbúnaðinn. M. ö. o.: það hefur skapað vandamál í landbúnaði að árgæði hafi verið mikil. Þessi staðreynd, að náttúruöflin hafa verið góð við framleiðendur landbúnaðarafurða, hefur valdið því, að framleiðslan hefur orðið meiri en við var búist, og aukna byrði þarf því að leggja á ríkissjóð. Þetta hefur skapað það furðulega öfugmæli, að gott árferði er túlkað sem baggi á landbúnaði, en illt árferði þá væntanlega sem búhnykkur fyrir landbúnaðinn. Hef ég aldrei fyrr heyrt slíka röksemdafærslu.

Nú er það alveg ljóst, að í ýmsum öðrum framleiðslugreinum koma oft upp slíkar aðstæður, að það er erfitt að selja framleiðstuna. Slíkt gerist í fiskiðnaði t. d., en eins og kunnugt er og þm. er kunnugt liggja menn nú uppi með miklar birgðir af fiskafurðum sem framleiddar voru á síðasta ári og enn hefur ekki tekist að selja. Það má t. d. nefna heilfrysta grálúðu sem mörg frystihús unnu fyrir ári og hefur ekki tekist að selja enn. Þessi vinnsla stafaði af því, að fyrir einu ári mæltu stjórnvöld fyrir um að ekki mætti veiða nema ákveðið magn af öðrum fisktegundum, þannig að á þeim tíma sem veiðibann var í gildi urðu fiskiskip að sækja í svokallaða vannýtta fiskstofna með þeim afleiðingum að afurðir þeirra hlóðust upp og ekki hefur verið hægt að selja þessar afurðir núna í rúmlega heilt ár. Engum hefur þó komið til hugar að þessar staðreyndir ættu að verða til þess að ríkissjóður hlypi undir bagga með viðkomandi framleiðendum og borgaði kostnaðinn sem af því hlýst að framleiðslan hefur orðið meiri en nemur eftirspurninni. Þennan kostnað hafa framleiðendur sjálfir orðið að bera, og þeir hafa orðíð að standa undir öllum þeim kostnaði sem á hefur fallið vegna þess að ekki hefir verið hægt að selja þessa tilteknu afurð sem framleidd var fyrir einu ári.

Þá hefur það einnig oft gerst, að erfiðleikar hafa orðið í framleiðslu- og sölumálum einstakra atvinnufyrirtækja á Íslandi. Nú nýlega gerðist það t. d. að niðursuðuverksmiðja K. Jónssonar & Co. á Akureyri lenti í því óhappi að selja gallaða vöru til eins af helstu viðskiptalöndum þjóðarinnar. Þetta áfall hefði getað valdið því að starfræksla verksmiðjunnar legðist niður. Engum datt það í hug, þó svo að sjávarútvegur sé undirstöðuatvinnugrein í landi okkar og eigi sér á Alþ. marga formælendur, að ríkissjóður ætti að borga þennan brúsa, að ríkissjóður ætti að standa undir því og bera kostnaðinn af því að þetta tiltekna framleiðslu- og atvinnufyrirtæki ætti í erfiðleikum með sölu á afurðum sínum. Það var hins vegar talið sjálfsagt og eðlilegt að aðstoða fyrirtækið við það að dreifa áfallinu á mörg ár, þannig að það þyrfti ekki að leggja upp laupana vegna þess að áfallið kæmi á eitt einstakt ár. Þetta var gert með því að fyrirtækinu var auðveldað að taka lán til þess að dreifa áfallinu yfir lengri tíma, en fyrirtækið þurfti auðvitað sjálft að standa undir bæði vöxtum og afborgunum lánsins og engum kom til hugar að leggja þá byrði á ríkissjóð.

Landbúnaðurinn virðist hins vegar njóta sérstakra forréttinda á þessu sviði. Ef honum tekst ekki að selja framleiðsluvöru sína, sem e. t. v. vex vegna þess að um árgæði er að ræða, þá er talið næsta sjálfsagt að ríkissjóður hlaupi undir bagga og beinlínis kaupi þá umframframleiðslu, sem ekki selst. Þetta er alger forréttindaaðstaða sem einn hópur framleiðenda í landinu nýtur umfram aðra. Þetta er áþekkt og samið væri við t. d. framleiðendur sjávarafurða eða framleiðendur skófatnaðar um að það skipti engu máli hversu mikið þeir framleiddu og hversu lítið þeir seldu, ríkissjóður mundi ábyrgjast að taka á sig byrðarnar af því að framleiðslan næmi meiru en salan.

Nú er það ljóst, þrátt fyrir þá rökfærslu hæstv. landbrh. og búnaðarmálastjóra að þessi mikla offramleiðsla í landbúnaði stafi fyrst og fremst af sérstökum árgæðum á s. l. ári og ætti því ekki að vera baggi á landbúnaðinum, heldur þvert á móti, — þrátt fyrir þessa rökfærslu er ljóst að það að geta ekki selt nema hluta þessara afurða getur haft þau áhrif gagnvart bændastéttinni að það rýri nokkuð kjör hennar og jafnvel mjög mikið. Því er sjálfsagt og eðlilegt að hið opinbera komi til móts við bændur með sama hætti og hið opinbera mundi koma til móts við framleiðendur í öðrum atvinnugreinum sem yrðu fyrir slíku áfalli. Þetta ætti að sjálfsögðu að gera með því móti að hjálpa viðkomandi framleiðendum til þess að dreifa áfallinu á mörg ár, fleiri ár en eitt. En þetta á ekki að gera með því að ríkissjóður hlaupi undir bagga og borgi brúsann, einfaldlega vegna þess að þar er verið að gefa ákveðið fordæmi sem án efa verður fylgt á næstu árúm. Þar er verið að ákveða að fara fram úr lögleyfðri verðábyrgð ríkissjóðs vegna offramleiðslu á landbúnaðarafurðum fyrir árið 1978–1979, og verði slíkt fordæmi gefið er ljóst að því verður fylgt á árunum 1980, 1981 og 1982 verði þörf á því.

Ég hef lagt fram á þskj. 675 brtt. við upphaflega till. hæstv. landbrh., þess efnis, að sem allra fyrst verði aflað sem nákvæmastra upplýsinga um þann vanda sem skapast hefur í landbúnaði sökum þess að framleiðsla umfram innanlandsþarfir hefur orðið meiri en svo að hæsta lögleyfð verðábyrgð ríkissjóðs nægi. Ég hef í þeirri till. sérstaklega óskað eftir því, að athugað verði hversu hár geymslu-, sölu- og annar milliliðakostnaður hefur á umframframleiðsluna fallið og þarf að greiða af verðábyrgðarfé ríkissjóðs. Hér er um að ræða aðila sem annast sölustarfsemi fyrir landbúnaðinn og að geyma fyrir hann afurðir sem Íslendingar geta ekki notað sjálfir. Þessi sölukostnaður er allhár og tekur ekkert tillit til þess, hvaða verð fæst fyrir vöruna á erlendum markaði. Geymslukostnaðurinn t. d. fyrir eitt kg smjörs getur numið hundruðum króna á ári. Samkv. núgildandi kerfi er þessum aðilum fyrst greiddur af verðábyrgðarfé ríkissjóðs allur kostnaður þeirra upp í topp og bændunum síðan það sem eftir stendur. Ég vil fá að sjá hversu mikið af þeim vanda, sem lýst hefur verið að sé vegna þessarar offramleiðslu, sé vegna þess að milliliðirnir og geymsluaðilarnir hafa krafist þess að fá greiðslu úr ríkissjóði fyrir þeim kostnaði sem þeir telja sig hafa lagt út og eiga rétt á að fá. Ég vil fá að sjá hve mikið við erum að greiða af skattfé almennings til Sambands ísl. samvinnufélaga og annarra söluaðila sem geyma þessar afurðir, hve mikið er verið að leggja á skattborgarana til að greiða þessum aðilum þjónustu þeirra og hve mikið er í raun og veru verið að inna af höndum til bænda. Ég tel sjálfsagt og rétt að allir aðilar, bæði bændur og þeir sem selja og geyma afurðir þeirra, taki á sig einhvern skell, vegna þess að hér er ekki síður um að ræða stefnu sem mótuð hefur verið af þessum aðilum, sem annast geymsluna og söluna á afurðunum, en bændum sjálfum. Jafnframt hef ég í till. mínum óskað eftir því, að n. afli tillagna Framleiðsluráðs landbúnaðarins um hvernig leysa skuli þennan vanda án þess að ríkissjóður taki á sig frekari fjárskuldbindingar en gildandi lög heimila. Þar koma að sjálfsögðu margar lausnir til og nefni ég aðeins sem dæmi hvernig greitt var úr vandræðum fyrirtækisins K. Jónsson & Co. vegna þess að það gat ekki selt framleiðsluvöru sína, þó af öðrum ástæðum væri. Að sjálfsögðu er rétt og eðlilegt að hið opinbera aðstoði framleiðendur við að dreifa slíku áfalli sem hér um ræðir á fleiri ár en eitt með fyrirgreiðslu t. d. um lánsútvegun. En það er mjög óeðlilegt og í hæsta máta vítavert, eins og gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 745, að reikningurinn vegna slíks sé sendur rakleiðis til skattborgara og ríkissjóðs.

Ég vil aðeins taka það fram, að um þetta mál hefur staðið ágreiningur í ríkisstj. milli fulltrúa Alþfl. annars vegar og fulltrúa Framsfl. og Alþb. hins vegar. Samþykkt hefur verið gerð í þingflokki Alþfl. um að styðja þá brtt. sem er á þskj. 675, og munu allir þm. Alþfl. greiða henni atkv. utan einn, sem hefur lýst sérstöðu í málinu. Þetta veit hæstv. landbrh. En hann hefur þá brugðið á það ráð að leita aðstoðar stjórnarandstöðunnar til þess að sprengja ramma lánsfjáröflunar, eins og hann hefur verið samþykktur í ríkisstj., og fara þar fram úr hvorki meira né minna en sem nemur 3.5 milljörðum. Með þessum hætti er verið að taka upp vinnubrögð í hæstv. ríkisstj. sem fleiri geta tileinkað sér en flokkur hæstv. landbrh., en ég tel að séu mjög alvarleg og vítaverð. Og ég vil lýsa því yfir fyrir hönd Alþfl., að ef þetta verður ofan á, ef samþykkt verður með atfylgi hluta ríkisstjórnarliðsins í samvinnu við stjórnarandstöðuna að rjúfa gert samkomulag um ramma lánsfjáröflunar sem samkomulag var gert um í ríkisstj., þá lítur Alþfl., svo að vitnað sé til orða merks manns, slíkt atferli mjög alvarlegum augum og telur óhjákvæmilegt að það hljóti að hafa alvarleg áhrif á núverandi ríkisstjórnarsamstarf.