18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5008 í B-deild Alþingistíðinda. (4328)

291. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Það er erfitt að taka til máls eftir að hafa hlustað á ræðu hv. 7. þm. Reykv. Hann er farinn að flytja tvær og þrjár kosningaræður á dag, þannig að við megum þá vera eins heimskir og hann heldur að við séum, eins og komið hefur fram í tali hans, ef við skiljum ekki að hverju stefnir hjá stjórnarliðinu. Hann talar mikið um sundurlyndi hjá Sjálfstfl., en guð almáttugur, hann ætti að líta sér nær.

Ég hef ekki heyrt neinn sjálfstæðismann, hvorki fyrr né síðar, tala eins skelegglega og halda fram stefnu Sjálfstfl., frjálshyggju, eins og hv. 7. þm. Reykv. Ég er alveg sannfærður um að hann og margir aðrir stjórnarliðar sjá nú að það er sú stefna sem þjóðin vill að sé rekin í forustuliði hér á Alþ. Þess vegna halda þeir að þeir geti nú hlaupið frá sökkvandi skipi sínu yfir til stefnu Sjálfstfl. Ég hef áður sagt, að ég lít á þá, sem eru ekki í Sjálfstfl., sem verðandi sjálfstæðismenn sem eru í nokkurs konar endurhæfingu annars staðar. Einhvern tíma hlýtur að koma að því að þeir vitkist.

Hv. þm. talaði um nýjar aðferðir þegar hluti stjórnarinnar tekur þátt með stjórnarandstöðu í að sprengja stjórnarsamstarfið. Hvaða stjórnarsamstarf? Hvaða stjórnarsamstarf er maðurinn að tala um? Hvorki við hér á Alþ. né fólkið í landinu hefur orðið vart við stjórnarsamstarf. (VG: Ekki stjórnarandstöðu heldur.) Ég kem að því síðar. Og ég vil taka undir með hv. 7. þm. Reykv., að það hlýtur að vera alvara á ferðum, það hlýtur að vera mikil alvara á ferðum þegar stjórn, sem á að heita það, en er ekki stjórn, það eru ráðh., en engin ríkisstj., er á leiðinni í sprengingu, eins og hv. þm. kallaði það. Ég held að það sé gott fyrir þjóðina að fá þá sprengingu sem fyrst, en ég veit að það er ekki gott fyrir Sjálfstfl., ekki eins og er.

Hv. 7. þm. Reykv. talaði þessi aðvörunarorð til ríkisstj. Hann talaði líka digurbarkalega um Sjálfstfl. sem væri í pólitísku fríi. Ég veit ekki hvað hann meinar með því. Sjálfstfl. hefur þvert á móti tekið þátt í málefnalegum umr., leitt aðrar umr. hjá sér og ekki tekið þátt í því karpi — ég vil kalla það karp — hinna ungu kerfiskarla í stjórnarflokkunum sem eru að tala af sér allt fylgi, og ég harma það alls ekki neitt. En ég vara hv. 7. þm. Reykv. og aðra stjórnarliða við að taka kurteisi og málefnalega afstöðu Sjálfstfl. og sjálfstæðismanna á þingi sem veikleikamerki. Ef hann áttar sig of seint, þá er honum voðinn vís.

Ég get ekki komist hjá því að furða mig á framkomu hæstv. landbrh. Ég held að hann sé ekki í stólnum sínum og ég harma það, mér er hálfilla við að segja það sem ég ætla að segja að honum fjarverandi. (Forseti: Vill þingvörður svo vel gera að láta hæstv. landbrh. af því vita, að nærveru hans er óskað hér í d.) Já, ég kunni betur við að segja það, sem ég ætla að segja, í nærveru hæstv. ráðh., svo að ég bið hann afsökunar, ef hann hefur verið (Dómsmrh.: Nei, nei, ég var við dyrnar). Það, sem ég ætlaði að segja á þessu stigi, er að ég furða mig á þeim orðum sem hann lét falla til flokksbróður míns, Matthíasar Bjarnasonar, fyrrv. hæstv. ráðh., þar sem hann talaði um, að hér á hv. Alþ. ætti ekki við að tala eins og vestur á fjörðum, og bætti því við, að hv. 1. þm. Vestf. hefði verið með skæting, en féll svo sjálfur í þá gröf með því að vitna til ráðherratíðar hv. 1. þm. Vestf. og segja að hann hefði stjórnað í fljótræði eða að óhugsuðu máli og hefði verið þekktur fyrir að taka skyndiákvarðanir í fljótfærni þegar hann var sjútvrh., eins og ég skrifaði eftir honum. (Gripið fram í.) Það er kannske skoðun hæstv. landbrh. nú. En ég minnist þess ekki að sú gagnrýni hafi komið fram frá honum eða nokkrum öðrum þm. hér á hv. Alþ., meðan 1. þm. Vestf. gegndi embætti sjútvrh. eða heilbr.- og trmrh. Ég minnist þess ekki. Og ég verð að segja að hæstv. ráðh. var reiður þegar hann talaði, og ég vil fullyrða að reiður maður hefur ekki stjórn á sínum bestu eiginleikum — langt frá því.

Ég tel að íslenskt mál, hvar sem það er talað á landinu, eigi heima á Alþ., svo framarlega sem menn, hvort sem þeir eru ráðh. eða ekki ráðh., misnota það ekki öðrum til miska.

Ég vil aðeins koma hér að nokkrum atriðum sem hæstv. ráðh. gat um. Hann spurði: Hvernig vilja þm. leysa vanda bænda? Hann sagði líka að hann skyldi gjarnan hlusta á till. frá þm. Það er út af fyrir sig ágætt. En hv. 4. þm. Vestf. virðist með till. sinni hafa beðið um sömu upplýsingar, eftir því sem mér skildist, og ég hef gert frá Framleiðsluráði landbúnaðarins og annars staðar frá um kostnaðarliði og frádráttarliði þá sem falla á íslenskar útfluttar landbúnaðarafurðir, uppgjör og frádráttarliði, en ekki fengið þessar upplýsingar. Nú vill svo til að ég fékk það samþykkt á þingflokksfundi Sjálfstfl. að um þessar upplýsingar yrði beðið bréflega, og þegar við fengum svar vélritað upp úr opinberum skýrslum, og það var ekki nóg, þá var framkvæmdastjóra þingflokks okkar falið að óska munnlega eftir þeim upplýsingum sem ég vildi fá. Þær hafa ekki borist enn þá og eru þó margar vikur eða mánuðir síðan. Það hefur orðið til þess, að ég hef þurft að biðja hæstv. forseta Sþ. að bíða með það mál sem er á dagskrá og varðar Samband ísl. samvinnufélaga, taka það ekki á dagskrá meðan ég fæ ekki upplýsingarnar. Líklega líður þetta þing án þess að ég geti tekið það mál fyrir, og líklega verð ég að endurflytja það á næsta þingi. Skilagrein kom aldrei til mín, og skilagrein hefur ekki borist hv. þm. Sighvati Björgvinssyni, en það þarf að endurskoða kostnaðarliði þá sem hafa hlaðist á útfluttar landbúnaðarafurðir.

Ég efast ekkert um að vandamál bænda eru mikil og þau þurfa skjóta lausn og réttláta lausn fyrir bændur og fólkið í landinu. Það þýðir ekkert að tala þannig hér, að það séu einhverjir þm. sem ekki meti þátt bændastéttarinnar í íslensku þjóðfélagi. Ég vil segja að hver og einn einasti maður hér inni og hver einasti maður á landinu veit að við getum ekki án bænda verið og þeir verða að hafa lífvænlega afkomu. En við verðum að sjá um að bændastéttin sé ekki hlunnfarin. Ég álit að þjóðin hafi verið hlunnfarin af Sambandi ísl. samvinnufélaga með hegðun þess í útflutningsmálum landbúnaðarafurða. Það fer ekkert á milli mála og hæstv. landbrh. hefur staðfest það úr þessum ræðustól, að Samband ísl. samvinnufélaga hefur tekið umboðslaun af niðurgreiðsluupphæðum, af skattpeningum þjóðarinnar.

Það er gert ráð fyrir því á þskj. 745, sem er brtt. frá landbn., að ríkisstj. verði heimilað að ábyrgjast lán allt að 3.5 milljörðum kr. er Framleiðsluráð landbúnaðarins tekur til framkvæmda á till. nefndarinnar. En ég hef hvorki heyrt hæstv. ráðh. né aðra segja frá því, hvernig þetta lán eigi að greiðast. Öll lán hljóta að eiga að greiðast, þau eru ekki tekin sem gjöf, þau eru tekin að láni, og þau þarf að greiða. Hvernig á það lán að greiðast? Á það að greiðast úr ríkissjóði, eða á að hækka landbúnaðarafurðir enn meir til þess að standa í skilum með þetta lán? Það getur vel verið að það sé hugsunin, og það er e. t. v. nauðsynlegt, ég ætla ekki að leggja mat á það. En bæði í þessari till. frá hv. landbn. og eins í ákvæðum til bráðabirgða í brtt. á þskj. 659 frá hæstv. landbrh. segir, með leyfi forseta: „Sexmannanefnd skal án tafar taka til meðferðar þá tekjuskerðingu sem við framleiðendum landbúnaðarafurða blasir vegna söluerfiðleika á þeirri framleiðslu sem er umfram innanlandsþarfir.“ Átt er við það sem flutt er út. Því vil ég spyrja: Hvernig í ósköpunum stendur á því, að frv. til l., 175. mál, flutt af okkur Pálma Jónssyni, hefur ekki komið úr n., þegar verið er að fjalla um 291. mál, en mál það, sem við flytjum, er nr. 175. Þetta er ómæld upphæð að mínu mati enn þá. Upplýsingar hafa ekki fengist um frádráttarliði af seldum útfluttum landbúnaðarafurðum, hvað sú upphæð er há. Ef hún kæmi til bænda mundi hún dragast frá þessum 3.5 milljörðum sem vandamálið er talið nema í dag. Frv. til l. á þskj. 333 hefði því átt að afgreiða fyrst og sjá svo á eftir hver vandinn er fyrir bændur. Ef hægt væri að koma í veg fyrir óeðlilega töku á þóknun milliliða eða umboðslauna af útfluttum landbúnaðarvörum væri peningaþörf til bænda án efa talsvert lægri en sú tala sem talað er um að þurfi til að leysa vanda bænda nú. Það vil ég fullyrða.

Ég vil líka leyfa mér að draga hér fram skjöl sem ég var af tilviljun með í borði mínu og tilheyra rökum sem ég kem til með að nota í því máli sem snertir Samband ísl. samvinnufélaga og ég hef enn ekki talið mig geta talað fyrir vegna þess að það stendur á upplýsingum. Annars vegar eru þar upplýsingar erlendis frá um að Samband ísl. samvinnufélaga undirbýður aðra íslenska umboðsmenn á erlendum mörkuðum í sömu borgum og að viðkomandi umboðsmaður verður að skila söluverði afurðanna án þeirra frádráttarliða sem Sambandið hefur heimild til að draga frá. Ég hef líka annað plagg sem ég fékk annars staðar frá, en er þó plaggið sem ég vildi fá frá Framleiðsluráði, þar eru að vísu ekki skýrar tölur vegna þess að það er breitt yfir tölurnar, en það er nóg til þess að sjá hvaða kostnaðarliðir eru til frádráttar af afurðum sem fluttar eru út á vegum Sambands ísl. samvinnufélaga. Þar kemur fram ýmis kostnaður, eins og t. d. sérstakur afsláttur, framhaldsflutningsgjald, erlendur kostnaður, erlend umboðslaun og svo flutningsgjald. Þarna er bæði flutningsgjald og framhaldsflutningsgjald. Hvað er að ske? Er umboðsmaður úti eða er Sambandið að selja sjálfu sér? Ég hef unnið sem innflytjandi síðan 1956 hérlendis og ég hef aldrei orðið var við tvöfalt flutningsgjald. Ég hef verið að leita mér upplýsinga um hvort erlendir seljendur vöru greiði nokkurn skapaðan hlut af innlendum flutningsgjöldum hér, þegar varan kemur til Reykjavíkur og til umboðsmanna hér, seljanda og kaupanda, og þeir selja hana út á land, hvort innflytjandi hér láti erlendan aðila borga þann kostnað. Og þá er annað atriði: Sambandið vinnur, eftir því sem fram hefur komið, á umboðslaunum, en greiðir svo umboðslaun líka. Það eru tvöföld umboðslaun sem þarna eru greidd eftir þessari bók sem ég hef hér. Ef við tökum alla kostnaðarliði: umboðslaun plús erlend umboðslaun o. fl., geymslukostnað kannske hér heima, geymslukostnað erlendis, allt frádráttarliði, hvað er þá hægt að draga frá þeirri tölu sem nú stendur í till. sem hér liggja fyrir, 3.5 milljörðum? Málið er miklu stærra en svo að við getum afgreitt það tiltölulega lítið athugað.

Ég ætla ekki að mæta á móti aðstoð við bændur. Ég vil þvert á móti aðstoða bændur. Við getum ekki án þeirra verið. En ég vil hvorki láta blekkja mig né heldur bændur, og þess vegna tel ég að það þurfi að rannsaka hver raunveruleg þörf bændastéttarinnar er, en ekki hver er þörf Sambands ísl. samvinnufélaga. Og ég vil ítreka það, ég hef sagt það áður, að ég harma ef í svona alvarlegu máli á eftir að koma enn þá einu sinni í ljós, að fulltrúar bændastéttarinnar, sem telja sig vera hér, sýna sig vera fyrst og fremst þm. Sambands ísl. samvinnufélaga. Það mun ég harma. En ég vona að bændastéttin fái réttláta lausn á vandamálum sínum og það hið fyrsta.