18.05.1979
Neðri deild: 91. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5018 í B-deild Alþingistíðinda. (4340)

275. mál, skipan gjaldeyris- og viðskiptamála

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera snöggur að ræða það mál sem hér er til umr., frv um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Ég flutti ræðu við 2. umr. málsins og lýsti því þá, að ég væri með þanka um að flytja brtt. Það stendur nú þannig á, herra forseti, að sú till. er í prentsmiðjunni og ég hélt að ég fengi tækifæri til að láta hana liggja hér frammi þegar málið væri rætt, en ég á afrit af till. Það verður erfitt að lýsa henni og ræða ef málinu á að ljúka á þessu stigi. (Gripið fram í: Á morgun.) Þar sem ég lýsti þessum brtt. nokkuð nákvæmlega fyrr í umr. vil ég aðeins bæta því við, að auk þeirra till., sem ég þar lýsti, ætla ég að leggja fram brtt. við 6. gr. þar sem ég legg til að á síðasta málsl. 3. mgr. verði gerð sú breyting að hann falli niður. Þess er að geta, að nú nýlega hefur borist umsögn um þetta frv. frá Félagi ísl. stórkaupmanna og þar er tekið undir þau sjónarmið sem áður hefur verið lýst af Verslunarráði Íslands, en það eru einmitt þessir tveir aðilar sem þetta mál snertir hvað mest beint.

Í umsögn Félags ísl. stórkaupmanna er svo að segja að öllu leyti tekið undir þær hugmyndir sem koma fram í brtt. mínum við þetta frv. Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið. Það er ljóst um hvað það snýst. Það snýst um það fyrst og fremst, hvort taka eigi skref í frjálsræðisátt um skipan þessara mál eða hvort enn þá eigi að láta hér eima eftir af þeirri haftarómantík sem ríkir og á sínar rætur í stefnu þeirra flokka sem nú fara með stjórn í landinu.

Það væri athyglisvert að fá að heyra sjónarmið hv. þm. Alþfl. í þessu máli, en þeir hafa ekki talað. Til þess gefst ekki kostur að sinni því að þeir eru nú allir farnir heim að sofa. En í skjóli þess og trausti, að umr. verði ekki lokið fyrr en till. minni hafi verið dreift kýs ég að hafa þessi orð ekki fleiri.