18.05.1979
Sameinað þing: 98. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 5026 í B-deild Alþingistíðinda. (4353)

51. mál, verktakastarfsemi við Keflavíkurflugvöll

Frsm. minni hl. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Í þessu máli, sem hér er á dagskrá, hefur utanrmn. Alþ. klofnað, aldrei þessu vant, og ætla ég að mæla hér fyrir áliti minni hl. í örstuttu máli.

Eins og hv. flm. till. og frsm. meiri hl. greindi frá sameinuðust fulltrúar Alþfl. og Alþb. í þessari hv. n. um till. í breyttu formi. Út af fyrir sig tel ég að nýja formið sé betra, þannig að till. hafi tekið breytingum til bóta. Það er sem sagt ekki meiningin að n. rannsaki hverjir eigi fremur að græða en þeir sem hingað til hafa grætt og fleira í þeim dúr.

Ég vil taka það fram að marggefnu tilefni, að það er ekki vegna þess að ég sé mótfallinn því að kannaðir séu þessir þættir, þ. e. a. s. verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Það hefur nokkuð verið gert. Það var skipuð nefnd í þeirri tíð sem ég var í utanrrn., mynduð af ýmsum aðilum sem gátu tekið að sér þarna verk, sumum sem höfðu þarna verk, öðrum sem sóttust eftir að fá þarna verk, ásamt fulltrúum frá Verktakasambandi Íslands, með þátttöku manns úr utanrrn. Athugun nefndarinnar var ekki lokið þegar fyrrv. stjórn fór frá, en nú skilst mér og það liggur raunar fyrir að hæstv. núv. utanrrh. hafi stofnað til athugunar og endurskoðunar á fyrirkomulagi framkvæmda á vegum varnarliðsins. Við viljum treysta því, að grg. rn. um slíka athugun verði lögð fyrir utanrmn. Alþ. þegar henni er lokið, og ég vænti þess, að hún eigi ekki að þurfa að taka mjög langan tíma. Því höfum við lagt til að málið verði afgreitt með rökstuddri dagskrá sem prentuð er á þskj. 498.

Ég ætla að segja til viðbótar þessu, herra forseti, — ég skal verða mjög stuttorður, — það sem ég hef oft tekið fram hér áður og er einlæg meining mín, að nefndir Alþingis hafi að óbreyttum þingsköpum og að óbreyttum aðstæðum ekki möguleika eða vald til þess að framkvæma úttekt eins og þarna er farið fram á. Ég tel ástæðulaust í þeirri tímaþröng sem hér ríkir nú að vera að rökstyðja þetta miklu nánar, en ég vil ekki að þeim skilningi sé haldið á loft að ég sé með þessari afstöðu að halda hlífiskildi yfir þeim sem fram að þessu hafa stundað verktakastarfsemi á Keflavíkurflugvelli, ekkert frekar en ég óski eftir því að halda hlífiskildi yfir t. a. m. Flugleiðum og Eimskipafélagi Íslands, eins og till. liggur raunar fyrir um að athuguð verði, eða Sambandi ísl. samvinnufélaga. Ég er aðeins með þessu að segja, að ég tel ekki að hér sé verið að benda á réttan aðila til að framkvæma slíka úttekt.

Ég hefði kosið — og ætla að endurtaka það einu sinni enn, að embætti umboðsmanns Alþingis kæmist á fót og það fengi aðstöðu og möguleika til þess að framkvæma þær rannsóknir sem Alþ. tetur sér nauðsynlegt að framkvæmdar séu. Og ég get vel skilið það sjónarmið margra hv. þm., að þeir vilja að Alþ. sé virkara í því að hafa eftirlit með því að þau lög, sem það samþykkir, séu framkvæmd og séu réttilega framkvæmd. En till. okkar liggur fyrir á þskj. 498, herra forseti.